Ljóð 2/2011

Ritið 2/2011 Ljóð

Hér eru í forgrunni ljóð og lesendur þeirra – greining og miðlun ljóða. Í þemagreinum heftisins sinna fræðimenn, sem allir hafa fengist við ljóðgreiningu um árabil, miðlunarstarfi lesandans með ýmsum hætti.

Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson fjalla um þýðingu Helga Hálfdanarsonar og sex annarra á „Hrafninum“ eftir Edgar Allan Poe en þýðing Helga er frumbirt í heftinu sem verður að teljast viðburður. Greinin er einkum samanburður  á frumtexta „Hrafnsins“ og íslenskum gerðum hans í þýðingarfræðilegu, bragfræði- og  bókmenntasögulegu ljósi. Bergljót Kristjánsdóttir les í nýja ljóðabók Antons Helga Jónssonar út frá kenningum hugrænnar bókmenntafræði. Guðni Elíssongreinir orðalista í skáldskap Sjón sem sundra hefðbundnum skilningi og væntingum. Helga Kress leggst í handrita- og samanburðarrannsóknir í bragfræði- og bókmenntasögulegri greiningu á sonnettu Jónasar Hallgrímssonar „Ég bið að heilsa“. Niðurstöður Helgu eru líklegar til að vekja umræður. Sveinn Yngvi Egilssonles í ljóð Huldu með aðferðum vistrýninnar sem fær sérstaka kynningu í þýddri grein eftir enska fræðimanninn Jonathan Bate aftast í heftinu. Síðasta þemagreinin, eftirDagnýju Kristjánsdóttur, er svo bókmenntasöguleg, hugmyndafræðileg og öðrum þræði feminísk samanburðarrannsókn á útgáfu skólaljóða hérlendis og erlendis.  Þýðing á grein þýska heimspekingsins Theodors W. Adornos, „Ræða um ljóð og samfélag“, tengist einnig ljóðaþemanu. Í henni má sjá skýrt dæmi um heimspekilega ígrundaða ljóðgreiningu höfundarins. Tvö ný ljóð eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur eru birt í heftinu. Og síðast en ekki síst er að þessu sinni ein aðsend grein í heftinu en það er ítarleg úttekt Hjalta Hugasonar á inntaki og merkingu trúmálabálks stjórnarskrárinnar ásamt breytingartillögum.