Heimspeki og bókmenntir 3/2010

Ritið 3/2010
Ritið 3/2010 Heimspeki og bókmenntir

Heftið hefur að geyma níu frumsamdar greinar og tvo þýdda texta. Gottskálk Jensson veltir fyrir sér þeim breytingum sem hafi orðið á landamerkjum heimspeki og bókmennta frá því að þessi tvö nýyrði komu fram í íslensku máli fyrir hartnær þrjú hundruð árum. Jón Karl Helgason leiðir lesandann um ranghala merkingarfræðinnar með Thor Vilhjálmsson sér til fulltingis, og veltir því fyrir sér hvar sannleikann, eða jafnvel sjálfan veruleikann, sé að finna. Pétur Knútsson leggur út af orðum Ara fróða um „að hafa það sem sannara reynist“ og spyr hvernig skilja beri þessi fyrirmæli nú á dögum. Irma Erlingsdóttir bregður upp mynd af togstreitunni milli bókmennta og heimspeki með tilvísun til frönsku höfundanna Jacques Derrida og Hélène Cixous. Gunnar Harðarson beinir sjónum að Málsvörn Sókratesar og ber hana saman við gamanleikinn Skýin eftir Aristófanes með einkar áhugaverðum afleiðingum. Róbert Jack er einnig á slóðum forngrískra hugsuða. Í grein sinni spyr hann ögrandi spurninga um hugsanlegar hliðstæður milli framvindu mála á Íslandi síðustu áratugi og þróunarinnar frá fámennisstjórn til lýðræðis, og síðan til harðstjórnar, sem Platon lýsir í verki sínu Ríkinu. Steinar Örn Atlason skrifar um hið merka miðaldarit Um hugfró heimspekinnar eftir Bóetíus og túlkar það í ljósi andlegra æfinga af þeim toga sem frönsku heimspekingarnir Pierre Hadot og Michel Foucault mótuðu hugmyndir um. Svipaður tónn er sleginn í grein Geirs Sigurðssonar sem fjallar um hugmyndir daóista um sambúð manns og náttúru er markast af skilningi á því hvernig maður og náttúra mynda heild, en eru ekki tvennt ólíkt.

Ein grein utan þema birtist í Ritinu að þessu sinni: Svanur Kristjánsson beinir þar sjónum að ríkisstjóratíð Sveins Björnssonar 1941–44 þegar hann stjórnaði í anda „konunglegs lýðveldis“. Svanur færir rök fyrir því að þessi stjórnskipun og verklag ríkisstjórans hafi mótað stjórnarskrá hins íslenska lýðveldis og sett mark sitt á stjórnarfar þess.

Tvær þýðingar birtast í heftinu, heimspekilega smásagan „Míkrómegas“ eftir Voltaire í þýðingu Gróu Sigurðardóttur og „Hversvegna að skrifa?“ eftir Jean-Paul Sartre í þýðingu Gunnars Harðarsonar.