Heimsbíó eða þjóðarkvikmyndir 2/2010

Ritið 2/2010
Ritið 2/2010 Heimsbíó eða þjóðarkvikmyndir

Heftið hefur að geyma átta frumsamdar greinar og einn þýddan texta. Björn Ægir Norðfjörð tekur sjálft hugtakið heimsbíó fyrir í sinni grein og ræðir í samhengi við skyld hugtök á borð við þjóðarbíó og heimsbókmenntir. Tvær greinanna fjalla um hrollvekjur, Úlfhildur Dagsdóttir ræðir hrollvekjur framleiddar utan Bandaríkjanna og Guðni Elísson tekur fyrir hina rammíslensku hryllingsmynd Reykjavik Whale Watching Massacre (2009) og ræðir þar sérstaklega almennt neikvæðar viðtökur myndarinnar í fjölmiðlum hérlendis. Höfundarverk spænska leikstjórans Pedró Almodóvar er viðfangsefni Hjördísar Stefánsdóttur, en Hólmfríður Garðarsdóttir tekur fyrir tvær kvikmyndir mexíkósku leikstjóranna Alejandros González Iñárritu og Alfonsos Cuarón, Amores perros (2000) og Y tu mamá también (2001). Allt annar heimur blasir við í grein Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur sem fjallar um breskar arfleifðarmyndir gerðar eftir sígildum enskum skáldverkum. Gunnþórunn Guðmundsdóttir fer svo með lesendur í annars konar ferðalag í grein sinni um hina vinsælu teiknimyndasögu Marjane Satrapi Persepolis, sem fjallar um uppvaxtarár höfundar í Íran og Austurríki, og franska kvikmynd (2007) gerða eftir sögunni. Að lokum fjalla Björn Þór Vilhjálmsson og Heiða Jóhannsdóttir um kvikmyndaverk byggð á hryðjuverkaárásunum þann 11. september árið 2001 á tvíburaturnana í New York.

Einnig geymir heftið þýðingu á grein Dudleys Andrew um „Kvikmyndaatlasinn“ þar sem reynt er að kortleggja heimsbíóið eftir ýmsum leiðum.

Gestaritstjórar þessa heftis eru Björn Ægir Norðfjörð og Úlfhildur Dagsdóttir.