Upphafsgrein Ritsins er beinskeytt og ítarleg greining Guðna Elíssonar á orðræðunni um hlýnun jarðar. Greinin tengist þannig þema heftisins sem er tungumál, en fjórar greinar fjalla um viðhorf til tungumálsins frá ólíkum sjónarhornum.
Loftslagsmálin eru mjög á dagskrá og afar eldfim eins og sést af dagblaðaumræðu síðustu vikurnar. Í grein sinni fjallar Guðni um viðtökur umræðunnar um loftslagsbreytingar hér á landi allt frá fyrirtækjum sem leggja kapp á að búa söluvarningi sínum vistvæna ímynd til samfélagsskýrenda sem gefa lítið fyrir álit vísindamanna um yfirvofandi hlýnun. Guðni greinir orðræðuna hér á landi og setur hana í samhengi við þróunina á alþjóðavettvangi síðustu misseri.
Málefni tungumálsins eru ekki síður í umræðunni, ekki síst vegna fjölgunar útlendinga í íslensku atvinnulífi. Í grein sinni fjallar Birna Arnbjörnsdóttir um breyttar samfélagsaðstæður í ljósi fjölgunar innflytjenda, einkum m.t.t. tungumálsins. Birna rökstyður að efla þurfi tvítyngi í því fjölmenningarsamfélagi sem við stöndum frammi fyrir; Hún gerir grein fyrir rannsóknum á aðgengi innflytjenda að nýju málsamfélagi, viðhorfum þeirra til móðurmálsins og greinir viðhorf innfæddra til íslensku sem töluð er með framandi hreim.
Þrjár aðrar greinar fjalla um viðhorf til tungumálsins. Grein Unnar Dísar Skaptadóttur fjallar um afstöðu innflytjenda til íslensks máls, grein Rannveigar Sverrisdóttur er um viðhorf til táknmála og grein Hönnu Óladóttur tekur á viðhorfum Íslendinga til eigin tungumáls.
Þá eru í Ritinu grein eftir Sigurð Pétursson um íslenska húmanista á sextándu öld og grein eftir Kristínu Loftsdóttur um Silvíu Nótt, Magna og hnattvæðingu hins þjóðlega. Að lokum birtist svo þýðing á grein Noam Chomsky um nýjar víddir í tungumálarannsóknum. Myndverk Ritsins að þessu sinni er eftir Önnu Jóa og ber titilinn Glímuskuggar.
Ritstjórar eru Gauti Kristmannsson og Ólafur Rastrick.
Innflytjendur 2-3/2007
Í þemahluta heftisins fjalla nokkrir valinkunnir fræðimenn um innflytjendur, greina meðal annars sjónarmið innflytjenda til samfélagslegrar þátttöku hér á landi, vanda í tjáskiptum milli fólks með ólíkan menningarbakgrunn, ástæður ótta þeirra sem fyrir búa á Íslandi við aðflutning fólks frá öðrum löndum, ímynd íslamskra kvenna á Vesturlöndum og möguleika vestræns samfélags til að fást við krefjandi spurningar fjölmenningar. Einnig er í heftinu umræðuhluti þar sem nokkrir einstaklingar víðs vegar af hinu pólitíska litrófi bregðast við grein eftir Guðfríði Lilju Grétarsdóttur um málefni innflytjenda.
Til tíðinda má telja að í þessu hefti birtast myndir eftir þýska ljósmyndarann Kai Wiedenhöfer sem kunnur er alþjóðlega og margverðlaunaður. Hann hefur starfað í Mið-Austurlöndum, Bandaríkjunum og Mexíkó og hafa myndir hans af hinum nýju rísandi múrum vakið mikla athygli um heim allan og birst víða, meðal annars í bókinni Wall sem gefin er út af Steidl í Þýskalandi.
Múrar eru viðfangsefni þýddrar greinar eftir sagnfræðinginn Mike Davis sem kunnur er fyrir bók sína Planet of Slums og einnig er fræg grein um tilveru innflytjenda, „Diaspora“ eftir James Clifford, en hún hefur hlotið heitið „Tvíheimar“ í íslenskri nýyrðisþýðingu.
Sem endranær eru einnig aðrar greinar um fræðileg efni í Ritinu, sagnfræði, heimspeki og þýðingar og menningarlæsi.
Efnisyfirlit:
Gauti Kristmannsson og Ólafur Rastrick: Mannasiðir og óttinn við aðkomumanninn
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir: Ísaðar gellur með harðan, hrjúfan hreim
Viðar Þorsteinsson: Stéttlaus draumur
Jón Magnússon: Íslenskt samfélag og innflytjendur
Sverrir Jakobsson: Innflytjendur – elsti hópur Íslendinga
Stefanía Óskarsdóttir: Þjóð í ólgusjó breytinga
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir: Að túlka eða breyta
Jón Ólafsson: Austur, vestur og ógnin af fjölmenningu
Unnur Dís Skaptadóttir og Anna Wojtynska: Líf á tveimur stöðum: Vinna eða heimili? Reynsla fólks sem komið hefur til starfa á Íslandi
Eiríkur Bergmann Einarsson: Íslenskt þjóðerni og óttinn við innflytjendur
Ástríður Stefánsdóttir: Túlkun á læknamóttöku
Björg Hjartardóttir: Handan staðalmynda. Um hlutverk kvenna í orðræðunni um íslam
Kai Wiedenhöfer: Múrar
Mike Davis: Auðmúrinn mikli
James Clifford: Tvíheimar
Svavar Hrafn Svavarsson: Saga og samtíð heimspekinnar
Erla Hulda Halldórsdóttir: „Jeg játa að jeg er opt óþægileg“. Kona í rými andófs og hugmynda
Daisy L. Neijmann: „Að skrifa Ísland inn í umheiminn“: Þýðingar á Íslandi í menningarkennslu og bókmenntasögu erlendis
Sverrir Jakobsson: Da Vinci-lykillinn að sögu Kína
Ritstjórar eru Gauti Kristmannsson og Ólafur Rastrick.