Orð og mynd, Útlönd, Miðaldir /2005

Ritið 1/2005
Ritið 1/2005 Orð og mynd

Orð og mynd 1/2005
Fimm fræðimenn fjalla um tengsl orða og myndar frá ýmsum sjónarhornum: Auður Ólafsdóttir gerir grein fyrir sambandi myndmáls og tungumáls í ljósi túlkunaraðferða listfræðinnar; Aðalsteinn Ingólfsson fjallar um mál í myndum Dieters Roth; Gunnar Harðarson kannar samspil texta og mynda í barnabókunum um Snúð og Snældu; Úlfhildur Dagsdóttir rekur kenningar á sviði sjónmenningarfræða þar sem hugmyndir um náttúrleika eða einfaldleika sjónrænnar skynjunar eru teknar til gagnrýnnar skoðunar og loks fjallar Rannveig Sverrisdóttir um myndrænan orðaforða táknmála. Í heftinu birtast í íslenskri þýðingu greinarnar „List eftir heimspeki“ eftir bandaríska listamanninn og rithöfundinn Joseph Kosuth og „Retórík myndarinnar“ eftir franska táknfræðinginn Roland Barthes auk bókarkafla eftir W.J.T. Mitchell prófessor við Chicagoháskóla sem ber heitið „Myndir og mál. Nelson Goodman og málfræði mismunarins“. Þá fjallar Margrét Elísabet Ólafsdóttir um tvær nýlegar sýningarskrár Listasafns Íslands og síðast en ekki síst er birt í heftinu röð sex mynda Hugleiks Dagssonar sem ber heitið Bjargið okkur.

Ritstjórar eru Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir.

 

Ritið 2 /2005
Ritið 2/2005 Útlönd

Útlönd 2/2005
Tekist er á við samband menningarheima, ímyndir og sjálfsmyndir þjóða og eru efnistök fjölbreytt að vanda .
Meðal efnis í heftinu er grein eftir Kristínu Loftsdóttur mannfræðing sem fjallar um ímynd Afríku á Íslandi á 19. öld en Kristín sýnir hvernig sú ímynd kallast á við ímynd hins sjálfstæða eyríkis, Íslands, sem þá var í fæðingu. Sverrir Jakobsson fjallar um sjálfsmynd miðaldamanna í greininni Við og hinir – hvernig gerðu Íslendingar mannamun á miðöldum? en þar hugar Sverrir að þeim þáttum sem ætla má að hafi skipt máli fyrir sjálfsmynd menntaðra Íslendinga á miðöldum. Í grein sinni Íslenska og enska. Vísir að greiningu á málvistkerfi leggur Kristján Árnason út af nýlegri könnun á viðhorfum Íslendinga til ensku og spyr hvort staða íslenskunnar í menningu og sjálfsmynd landsmanna sé að breytast. Rósa Magnúsdóttir tekur ímyndir og áróður Kalda stríðsins til skoðunar í grein um heimsókn íslensks æskufólks á heimsmótið í Moskvu 1957 og í grein Hólmfríðar Garðarsdóttur er sjónum beint sérstaklega að stöðluðum kvenímyndum í suður-amerískri bókmenntahefð og vakin athygli á því hvernig þær megi rekja til landvinninga- og heimsvaldastefnu fyrri alda. Svanur Kristjánsson skoðar afskipti fjögurra forseta Íslands af utanríkismálum í grein sem hann nefnir Forsetinn og utanríkisstefnan en hún er jafnframt innlegg í umræður um túlkun 26. greinar stjórnarskrárinnar.

Þá eru í þessu hefti Ritsins birtir bókarkaflar eftir tvo prófessora við Harvardháskóla, stjórnspekinginn Seylu Benhabib og bókmenntafræðinginn Homi K. Bhabha en í þeim er meðal annars leitast við að svara því hvernig bregðast eigi við þeim árekstrum sem óhjákvæmilega verða í samfélagi fólks sem kemur úr ólíkum menningaraðstæðum – og jafnframt spurt hvernig samfélagið njóti góðs af blöndunni, hvernig hún verði aflvaki nýrrar skapandi menningar.

Í myndverkinu Grautur – 12 tilbrigði vinnur Áslaug Thorlacius myndlistarmaður með uppskriftir að súpum og grautum úr bók Helgu Sigurðardóttur, Matur og drykkur, og veitir með því einstæða sýn inn í dansk-íslenska matarmenningu Íslendinga á 20. öld. Þá eru í heftinu birtar þrjár ljóðaþýðingar eftir Þorstein Gylfason ásamt minningarorðum um hann sem Vigdís Finnbogadóttir ritar.

Ritið 3/2005 Miðaldir

Miðaldir  3/2005
Heftið er helgað miðöldum. Þar er að finna níu greinar um íslensk og erlend miðaldafræði sem fjalla um ólík efni, auk þýðinga og ljósmynda.
Greinarnar fjalla um allt frá hinni frönsku Mélusine, ættmóðurinni með slönguhalann, sem er í brennidepli í grein Ásdísar Magnúsdóttur, til Magnúsar Jónssonar prúða, sýslumanns á Rauðasandi, en hann er viðfangsefni Sigurðar Péturssonar sem kannar tengsl Magnúsar við evrópskan húmanisma. Í heftinu eru tvær greinar um Íslendingasögur: Guðrún Nordal fjallar um vísur í ólíkum handritum Njáls sögu og Torfi Tulinius rýnir í Fróðárundur Eyrbyggju. Sverrir Tómasson ritar grein um hlutverk rímna í íslensku samfélagi á síðari hluta miðalda og Svanhildur Óskarsdóttir gerir grein fyrir kristilegum veraldarsögum, landnámi þeirra og viðgangi hérlendis. Þá skrifar Orri Vésteinsson grein um fjórar nýlegar bækur á sviði íslenskra miðaldafræða og Jón Ólafsson tekur til skoðunar nokkrar bækur sem komið hafa út nýverið og leitast við að miðla þáttum úr sögu vísindanna til almennings. Að vanda birtast í Ritinu þýðingar á eftirtektarverðum erlendum ritgerðum en höfundar þeirra eru að þessu sinni Daninn Preben Meulengracht Sørensen, Frakkinn Jacques Le Goff og Írinn Peter Brown. Í þessu hefti birtast einnig ljósmyndir sem Árni Einarsson hefur tekið úr lofti af garðlögum og öðrum fornminjum í Suður-Þingeyjarsýslu.

Ritstjórar eru Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir.