Áróður 1/2003
Í þessu hefti birtast í fyrsta sinn greinar um bækur; Þorgerður E. Sigurðardóttir fjallar um skáldsögur Guðrúnar Evu Mínervudóttur og Magnús Fjalldal skrifar um nýútkomna þýðingu Erlings E. Halldórssonar á Kantaraborgarsögum.
Þýðingar á lykilgreinum á sviði hugvísinda eru fastur þáttur í útgáfu Ritsins, en með því móti er mikilvægum skrifum komið á framfæri við íslenska lesendur auk þess sem þýðingarnar eru framlag til að móta fræðiumræðu á íslensku. Að þessu sinni birtast þýðingar Gunnars Harðarsonar á þremur greinum um heimspeki lista eftir heimspekingana Arthur Danto, George Dickie og Morris Weitz.
Þorsteinn Þorsteinsson er höfundur greinar um kvæði Sigfúsar Daðasonar Myndsálir og túlkar það bæði útfrá bókmenntakenningum og setur í samband við pólitískar hræringar samtíma þess, sem sumar snertu höfundinn beint.
Ritið birtir að jafnaði myndir samtímaljósmyndara með greinum um þema hvers heftis. Ragnar Axelsson, ljósmyndari á Morgunblaðinu, er ljósmyndari þessa heftis, en ljósmyndir hans frá virkjanasvæðinu við Kárahnjúka hafa verið áberandi innlegg í umræðuna um virkjanir á hálendinu.
Ritstjórar eru Guðni Elísson og Jón Ólafsson.
Sálgreining – 2/2003
Þema heftisins er sálgreining og nálgast Högni Óskarsson, Haukur Ingi Jónasson, Jón Ólafsson, Sæunn Kjartansdóttir, Sigurður J. Grétarsson, Sigurjón Björnsson og Dagný Kristjánsdóttir efnið úr ólíkum áttum.
Ennfremur er í Ritinu grein eftir Birgi Hermannsson stjórnmálafræðing um kosningarnar 2003 og þýðingar á greinum eftir Shoshana Felman og Peter Brooks.
Þetta hefti er uppselt.
Ritstjórar eru Guðni Elísson og Jón Ólafsson.
Dauðinn – 3/2003
Meginþema heftisins er Dauðinn. Álfrún Gunnlaugsdóttir fjallar um frásagnir þeirra sem lifðu af vist í fangabúðum nasista, m.a. um bók Leifs Muller, Íslendings sem var tvö ár í Sachsenhausen og gaf út bók um reynslu sína strax 1945. Leiðir Álfrún rök að því að þessi bók hafi verið sú fyrsta sem kom út í Evrópu um þessa reynslu. Úlfhildur Dagsdóttir skrifar um uppvakninga sem minni í nútímamenningu og tengsl þess við önnur menningarfyrirbæri, eins og t.d. pönkið. Jens Lohfert Jørgensen glímir við dauðann í verkum danska rithöfundarins J. P. Jacobsen út frá kenningum franska hugsuðarins Maurice Blanchot og veltir því fyrir sér hvort hlutverk skáldskaparins sé ekki öðrum þræði að tákngera dauðann, þ.e. tjá það tóm sem dauðinn er. Guðni Elísson tekur til umfjöllunar ljóðlist Steinunnar Sigurðardóttur í tvöföldu ljósi langrar hefðar tregaljóða í vestrænum bókmenntum og þess uppbrots á hefðinni sem felst í nýrri stöðu konunnar sem skálds en ekki lengur þess tákns sem skáldið af karlkyni yrkir um.
Birtar eru myndir af innsetningu Magnúsar Pálssonar og Helgu Hansdóttur „Viðtöl um dauðann“ í Listasafni Reykjavíkur á sl. hausti og ritgerð Gunnars J. Árnasonar um innsetninguna. Einnig fjallar Jón Ólafsson um fimm bækur sem komið hafa út í Svörtu línunni, nýrri ritröð bókaútgáfunnar Bjarts, bækur Braga Ólafssonar, Hermanns Stefánssonar, Jaakko Heinimäki, Jóns Karls Helgasonar og Þrastar Helgasonar.
Laxdæla saga er til umfjöllunar í grein Péturs Knútssonar sem túlkar ástarþríhyrning Guðrúnar Ósvífursdóttur, Kjartans Ólafssonar og Bolla Þorleikssonar í ljósi írsks fornkvæðis.
Eins og í öðrum heftum Ritsins er lesendum boðið upp á vandaðar þýðingar á fræðilegum ritgerðum. Að þessu sinni er það grein heimspekingsins Michael Theunissens um „nærveru dauðans í lífnu“ og kafli úr riti bókmenntafræðingsins Elisabeth Bronfen Over her dead body sem fjallar um tengsl dauða, listar og kvenleika.
Ritstjórar eru Guðni Elísson og Jón Ólafsson.