Eins og þeir vita sem fylgst hafa með fréttum frá Bandaríkjunum að undanförnu hafa verið þar á kreiki sögusagnir um að forsetinn uppfylli ekki það grundvallarskilyrði embættis síns að vera fæddur þar í landi. Þessi kviksaga – því nokkuð ljóst má teljast að um kviksögu sé að ræða sem enginn fótur er fyrir – hefur náð undraverðri útbreiðslu meðal þeirra sem ekki kæra sig um að hafa vinstrisinnaðan (á þeirra mælikvarða) forseta með afrískt blóð í æðum og hafa þeir sem trúa þessari sögu verið kallaðir Birthers, eða fæðingarsinnar.
Það sem er athyglisvert við vinsældir svona sögusagna er að þarna dreifast rangar upplýsingar á grundvelli óskhyggju. Það er ekki það að kvitturinn sé eitthvað sérstaklega sannfærandi heldur er það fyrst og fremst umhverfið sem er móttækilegt fyrir honum, eða ákveðinn hópur fólks í umhverfinu. Menningarbundin útbreiðsla á röngum upplýsingum og skorti á upplýsingum er einmitt rannsóknarefni fræðakima sem vex fiskur um hrygg um þessar mundir, þess sem kallast agnotology og myndi á íslensku útleggjast sem fáfræðifræði eða vanþekkingarfræði. Helstu hvatamenn þessa rannsóknarsviðs eru hjónin Robert Proctor og Londa Schiebinger sem bæði eru prófessorar í vísindasagnfræði við Stanford-háskóla. Meðal annars hafa þau ritstýrt safnriti þar sem sagnfræðingar, heimspekingar, sálfræðingar og vísindasagnfræðingar taka fyrir ýmis dæmi um vanþekkingardreifingu. [1] Af dæmunum, nýjum og gömlum, má nefna afneitun hnattrænnar hlýnunar, það hvernig hernaðarupplýsingum er haldið frá almenningi, afneitun á skaðsemi reykinga og þekkingarleysi á gömlum húsráðum til að hindra þungun eða eyða fóstrum. Rótin getur verið mismunandi, stundum eru áhrifamiklir aðilar sem sjá sér hag í því að tilteknum upplýsingum sé haldið frá almenningi eða jafnvel að röngum upplýsingum sé dreift, stundum eru það stjórnvöld sem stuðla að vanþekkingunni og stundum er um meira sjálfsprottin fyrirbæri að ræða; einhverra hluta vegna verður til hópur eða hreyfing í samfélaginu sem sækist eftir að forðast ákveðna þekkingu eða sækist eftir röngum upplýsingum.
Sú vanþekking sem þarna er skoðuð kemur til af ýmsum orsökum; vanrækslu (ýmist vísvitandi eða í ógáti), því að einhverju sé haldið leyndu eða þaggað niður, eyðingu gagna, hefða sem engum hugkvæmist að draga í efa og ýmiss konar menningartengdu vali. Í sumum tilvikum getur svo verið betra að vita minna en meira. Vanþekkingarfræðinni er stillt upp sem því sem vanrækt hefur verið í þekkingarfræði: Rétt eins og mikilvægt er að rannsaka hvernig og hvers vegna við vitum eitthvað getur verið mikilvægt að skoða hvernig og hvers vegna við vitum ekki. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort eitthvað kemur fram í vanþekkingarfræði sem ekki er hægt að skoða undir öðrum formerkjum, svo sem þekkingarfræði, félagsfræði, sálfræði og sagnfræði. Er ‚vanþekkingarfræði‘ kannski einfaldlega heiti á ákveðnu þverfaglegu samstarfi milli þessara sviða? Ef svo er, að hve miklu leyti er gagn í því að setja hana fram sem sérstakt svið? Þess má geta að um næstu mánaðamót verður haldin ráðstefna um vanþekkingarfræði við Bielefeld-háskóla í Þýskalandi þar sem ýmsir stórlaxar fræðanna munu tala, eins og vísindasagnfræðingarnir Naomi Oreskes og Peter Galison og heimspekingarnir Philip Kitcher og Nancy Cartwright. [2]
[1] Robert N. Proctor & Londa Schiebinger (ritstj.) (2008), Agnotology: The Making and Unmaking of Ignorance, Stanford: Stanford University Press.
[2] http://www.uni-bielefeld.de/philosophie/conferences_2011/agnotology/index.html/
Leave a Reply