Ritið 2/2020: Íslenskar nútímabókmenntir

Út er komið 2. tölublað Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar á þessu ári og er þema þess íslenskar nútímabókmenntir. Í heftinu er stefnt saman umfjöllun um bókmenntir frá því snemma á 20. öld og samtímaverkum.

Fyrri hluti er helgaður Þórbergi Þórðarsyni og er í ritstjórn gestaritstjóranna Benedikts Hjartarsonar og Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur en þar birtast þrjár ritrýndar greinar auk tveggja þýðinga. Fyrstu tvær greinarnar eru um dulspekina í skrifum Þórbergs en undir hana heyra þau þrjú svið sem rithöfundurinn tilgreinir jafnan sérstaklega í verkum sínum: guðspeki, spíritismi og indversk speki, einkum yoga. Stefán Ágústsson fjallar um náttúrutrú og dulspeki í bókinni Steinarnir tala en Álfdís Þorleifsdóttir beinir sjónum sínum að Íslenzkum aðli og ræðir verkið ekki síst í ljósi skrifa Krishnamurtis og hugmyndarinnar um „blekkinguna“ eða maya. Aðalsteinn Eyþórsson og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir skrifa hins vegar um málvísindi og táknfræði Þórbergs en þau varpa ljósi á margbrotin tengsl skrifa hans við vísindakenningar samtímans. Þá tilheyra þessum hluta þemans tvær þýðingar, önnur þeirra er þýðing Jóns Bjarna Atlasonar á bókarkafla eftir Jakob von Uexküll, sem var einn af brautryðjendum svokallaðrar líftáknfræði, en hin er þýðing Kristjáns Eiríkssonar á bréfi eftir Eúgeno Lanti, sem þýtt er úr esperanto og veitir forvitnilega innsýn í mikla umrótatíma í sögu alþjóðamálsins.

Seinni hlutinn er í ritstjórn Guðrúnar Steinþórsdóttur og Sigrúnar Margrétar Guðmundsdóttur en þar eru nýleg verk þriggja íslenskra höfunda til umfjöllunar auk þess sem samtímabókaútgáfa á Norðurlöndum er greind. Guðrún Steinþórsdóttir fjallar um minni og tráma með hliðsjón af skáldsögunni Stóra skjálfta eftir Auði Jónsdóttur. Þrjár skáldsögur Bergsveins Birgissonar, Landslag er aldrei asnalegt, Handbók um hugarfar kúa og Svar við bréfi Helgu, eru til umfjöllunar í grein Kjartans Más Ómarssonar en hann kannar þessar sögur sérstaklega til að draga fram þau höfundareinkenni sem segja má að setji mark sitt á skrif Bergsveins á fyrsta áratug þessarar aldar. Ana Stanićević veltir fyrir sér bókaútgáfu á tímum loftslagsbreytinga og spyr hvort enn sé rúm fyrir bókmenntir í sömu mynd og fyrr, en í grein sinni lítur hún til starfsemi örforlaga á Norðurlöndum. Listamannaþríleikur Gyrðis Elíassonar er til umfjöllunar í grein Auðar Aðalsteinsdóttur en þar rekur hún hvernig höfundurinn tekst á við tvær tengdar bókmenntahefðir, náttúruskrif og hlutskipti listamannsins; eða melankólíska snillingsins.

Gestaritstjórar heftisins eru Benedikt Hjartarson og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir en aðalritstjórar þess eru Sigrún Margrét Guðmundsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir. Forsíðuna prýðir teikning af Þórbergi Þórðarsyni sem birtist fyrst sem forsíðumynd á tímaritinu Speglinum í ágúst 1928. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

Ritið er gefið út í rafrænu formi á ritid.hi.is.

Um höfundinn
Hugrás

Hugrás

[fblike]

Deila