Þriðja og síðasta hefti Ritsins árið 2018 er komið út og þemað er að þessu sinni kynbundið ofbeldi. Ritrýndu þemagreinarnar eru sex talsins og sjónarhornin næstum jafnmörg. Greinar þeirra Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur og Guðna Elíssonar annars vegar og Björns Þórs Vilhjálmssonar hins vegar fjalla um kynbundið ofbeldi í bókmenntum, Ingibjörg Eyþórsdóttir tekur fyrir sagnadansa og Guðrún Þórhallsdóttir rýnir í sögulega þróun orðanna gleðimaður og gleðikona. Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir orðaræðugreina niðurstöður Hæstaréttar en Rannveig Sigurvinsdóttir skrifar um birtingarmyndir ofbeldis í frásögnum á samfélagsmiðlum. Tvær óritrýndar greinar eru einnig innan þemans, textar tveggja rithöfunda. Sá íslenski er eftir Hallgrím Helgason en skrif Margaret Atwood birtast hér í þýðingu Aðalsteins Eyþórssonar.
Að þessu sinni eru í heftinu tvær ritrýndar greinar sem falla utan þemans, auk frumsaminna texta. Báðar greinarnar fjalla um merka Íslendinga á sviði bókmennta og lista. Hlynur Helgason listfræðingur skrifar um viðtökur á verkum Þórarins B. Þorlákssonar en Þórarinn er talinn meðal frumherja íslenskrar myndlistar. Hlynur fer í þessu samhengi yfir sögulega þróun íslenskra listfræða og viðhorfa til myndlistar á Íslandi.
Rithöfundurinn Jakobína Sigurðardóttir fæddist árið 1918 og hefði því átt aldarafmæli um þessar mundir. Af því tilefni ritar Ástráður Eysteinsson prófessor í bókmenntafræði grein þar sem hann fer yfir höfundarverk Jakobínu. Með endurlestri greinir Ástráður valda þætti úr verkum Jakobínu og setur þau í samhengi við þjóðfélagsbreytingar á Íslandi. Að lokum birtast, af þessu sama tilefni, frumsamdir textar tveggja ritlistarnema, þeirra Karítasar Hrundar Pálsdóttur og Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur en textar þeirra eru innblásnir af verkum Jakobínu.
Þemaritstjórar heftisins eru þær Bergljót S. Kristjánsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Forsíðumyndin er eftir Ástu Sigurðardóttur. Um umbrot sá Sverrir Sveinsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.
Ritið er gefið út í rafrænu formi á ritid.hi.is. Hugvísindastofnun Háskóla Íslands gefur út.
[fblike]
Deila