„Ég boða alveldi listarinnar!“

Eins konar bylting varð í nemendafélagi myndlistarnema við Listaháskóla Íslands 23. mars síðastliðinn. Almar Steinn Atlason, þá gjaldkeri félagsins, efndi til neyðarfundar þar sem kosið var um eftirfarandi lagabreytingu:

Breytingar fela í sér að bætt verði við lið við þessi lög er heita 14.gr. E.
Hún er svo:
14. gr.
E. Gjaldkeri verður eftirleiðis nefndur kanslari og fer með alvald yfir öllum málefnum félagsins auk þess sem félagið verður fært yfir á hans kennitölu og í einkaeign ríkjandi kanslara. Kanslari heldur embætti sínu þar til hann lýsir því yfir að neyðarástandi sé lokið eða skipar nýjan kanslara.

Tillagan var samþykkt og er Almar því núverandi kanslari félagsins, að minnsta kosti á meðan svokallað neyðarástand ríkir. Í setningarræðu sinni útskýrir Almar að það hafi verið nauðsynlegt að bregðast við því ástandi sem nemendafélagið var í. Hann segir að „ekkert [fáist] unnið með sífelldu fundarhaldi og atkvæðagreiðslum þegar spillingaröflin innan nemendafélagsins eru eins rótgróin og raun ber vitni.“

Listrænt valdarán

En hvaða áhrif hefur þessi lagabreyting eiginlega? Í raun er félagið ekki lengur lýðræðislegt afl. Í fyrirsjáanlegri framtíð verður ekki kosið um stjórn, ákvarðanir eru teknir af Almari einum og hann má gera það sem honum dettur í hug við fjármuni félagsins. Óánægðir félagsmenn geta því lítið annað gert en að kvarta og að ganga úr félaginu en í ræðu sinni sagðist Almar ætla að innleiða ný lög sem gera útgöngu einungis heimila hinn 29. febrúar, sem sagt fjórða hvert ár, „svo gera megi varanlegri tekjuáætlanir svo fjármunum sé ekki sólundað einsog hingað til hefur verið“.

Almar er myndlistarmaður og því liggur beinast við að hugsa um valdarán hans sem listrænan gjörning. Í myndbandinu af setningarræðunni má sjá Almar í jakkafötum með merki „Endurhönnuðu nemendafélagi myndlistardeildar Listaháskóla Íslands“ (sem Almar kallar svo ENMLÍ) á borði og á vegg. Merkið er tígull og virðist einfaldlega vera merki LHÍ snúið um 45 gráður. Hugmyndafræði nýja félagsins er fasísk. Fólki er nánast ógjörlegt að skrá sig úr félaginu, lýðræðinu er aflýst vegna neyðarástands sem er sagt vera tímabundið en bæði ástandið og tímamörkin eru óljós og félagið er einkavætt í þágu kanslara. Almar segist boða umbætur en einu haldbæru breytingarnar sem hann minnist á eru hækkanir á nemendafélagsgjöldum.

Hvað svo?

Þetta virkar eins og paródía af fasisma, skrifræði og hægrimennsku. Nema hvað að þetta er raunverulegt. Og hefur þar af leiðandi raunverulegar afleiðingar. Ef Almar ákveður að nota peninga félagsins til að hafa í sig og á þá getur hann gert það. Þetta eru hans peningar. Vilji hann fara alla leið verða myndlistarnemar annaðhvort að sætta sig við einræðið eða stofna nýtt félag og reyna að yfirgefa ENMLÍ. Eins og í öllu einræði er hægt að vona að hæstráðandi verði góður leiðtogi. Þar sem þetta er nemendafélag en ekki þjóð eru stærstu áhyggjuefnin sennilega hvort kanslarinn muni halda góð partí og félagslífinu gangandi.

Þó virðist ætlunin að einhverju leyti vera að færa út kvíarnar en Almar allt að því hótar framboðunum í stúdentapólitík Háskóla Íslands: „Hingað og ekki lengra. Röskva og Vaka mega sín einskis gegn sterku miðstýrðu Endurhönnuðu nemendafélagi myndlistardeildar Listaháskóla Íslands Laugarnesi“. Í enda ræðu sinnar segir Almar svo: „Ég boða sterkt nemendafélag sem hokrar ekki fyrir Landssambandi íslenskra stúdenta eins og laminn hundur. Nemendafélag sem stendur á sínu og stöðvar ekki á endalausum samþykktum. Ég boða alveldi listarinnar!  Munum 23. mars. Munum daginn okkar. Munum 23. mars.“

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Brynjar Jóhannesson

Brynjar Jóhannesson

Brynjar Jóhannesson er ritlistarnemi og skáld.

[fblike]

Deila