Það er árviss viðburður í janúar að listamannalaunum sé úthlutað við blendnar móttökur listamanna og almennings. Launin eru veitt úr sex sjóðum til hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda, sviðslistarfólks, tónlistarflytjenda og tónskálda. Það er ólíkt eftir sjóðum hversu miklu fjármagni er veitt til listamanna í hverjum flokki. Flestir mánuðir eru í boði í Launasjóði rithöfunda, alls 555, en hönnuðir fá úthlutað fæstum mánuðum eða einungis 50. Greiðslur á mánuði nema 377.402 krónum og um er að ræða verktakagreiðslur. Það er því ekki alls kostar rétt að tala um laun, þar sem greiðslurnar eru ekki laun heldur í raun styrkir til ákveðinna verkefna.
Rithöfundur sem sækir um greiðslur úr sjóðnum gerir það á forsendum ritverks sem hann eða hún vill vinna að á starfstímabilinu, ekki til þess að vera að listamaður á launum frá ríkinu án sérstaks tilgangs. Það er því mýta að listamenn fái greitt úr sjóðnum bara vegna þess að þeir séu listamenn eða hafi fengist við listsköpun. Ef rýnt er í greiðslurnar þá er verktakagreiðslan sambærileg við mánaðarlaun sem nema um 280.000 krónum samkvæmt reiknivél BHM. Þá er gert ráð fyrir því að greitt sé í almennan lífeyrissjóð, sjúkrasjóð og orlofssjóð. Til samanburðar má nefna að frá og með 1. maí 2018 verða lágmarkslaun sem greidd eru samkvæmt kjarasamingi hjá Eflingu 266.735 krónur.
18% úthlutunarhlutfall
Það er í raun ótrúlegt að fólk hneykslist yfir svo lágum styrkupphæðum til listamanna. Raunin er samt sú og ýta fjölmiðlar oft undir reiðina með því að matreiða upplýsingarnar þannig að einungis er minnst á þá sem fá mest. Samt er það einnig svo að einungis 18% þeirra sem sækja um þessar greiðslur hljóta þær. Fyrir árið 2018 var sótt um 9.053 mánuði en í boði voru 1.600 mánaðarlaun.
Það má þá spyrja sig hvers vegna samkeppnin sé svo mikil um launin en líklegasta skýringin er sú að þetta eru ekki hefðbundin laun heldur styrkur sem á að gera listamönnum kleift að starfa sem listamenn og skapa list sem þeir geta mögulega selt. Þá er líka eftirsóknarvert og gefandi að skapa list. Listamannalaun sem slík eru því lágmarksstyrkur svo viðkomandi geti stundað list sína, en viðkomandi þarf alltaf að hafa aukatekjur af list sinni eða öðru starfi til að lifa sómasamlegu lífi.
Hvað eru borgaralaun?
Hvernig er samt hægt að breyta þessu, að því gefnu að vilji sé til þess? Sú hugmynd sem er hvað mest spennandi og víðtæk eru borgaralaun (e. Universal Basic Income). Borgaralaun eru laun sem yrðu borguð hverjum einstaklingi óháð tekjum, stöðu í samfélaginu eða öðrum þáttum. Væri þetta fyrirkomulag við lýði þá væri einstaklingum í sjálfsvald sett hvort þeir ynnu aukalega til að auka tekjur sínar eða hvernig þeir höguðu lífi sínu almennt, en þeir þyrftu þá ekki að óttast að lifa ekki af mánuðinn. Borgaralaun skerðast ekki þótt fólk vinni með þeim eða hafi aðrar tekjur, en borgaður er skattur af öllum tekjum umfram borgaralaunin. Þannig yrði ekki t.d. lengur þörf á atvinnuleysisbótum, húsnæðisbótum eða öðrum félagslegum stuðningi, auk þess sem þetta kæmi í stað persónuafsláttar.
Eins og kom fram í TedxTalk-ræðu Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður, gætu borgaralaun veitt einstaklingum einstakt tækifæri til þess að gera hvaðeina sem þeir vilja í lífinu án þess að þurfa að óttast skort. Þá kemur líka fram að borgaralaun geti verið svarið við aukinni vélvæðingu og sjálfvirkni í hefðbundnum störfum. Hún nefnir að allt að 47% starfa í Bandaríkjunum gætu horfið á næstu tíu til tuttugu árum, í lítt þróaðri löndum er hlutfallið jafnvel hærra. Þá bætir hún við að vélar geti verið orðnar jafn góðar eða betri en menn í flestum störfum á næstu þrjátíu árum. Það er því ekki langt í að vélvæðingin verði að veruleika og fjöldi fólks gæti misst þá vinnu sem það hefur núna.
Borgaralaun gætu vegið upp á móti þessum stórkostlegu breytingum sem eru í vændum. Séu þau borin saman við listamannalaun er ljóst að aðgengi að borgaralaunum yrði meira og fólki yrði tryggt mannsæmandi líf. Þau myndu líka spara listamönnum tíma sem færi annars í að útbúa umsókn, senda hana inn og síðan bíða mánuðum saman eftir svari, sem líklega er neikvætt á endanum. Halldóra talar líka um gagnsemi þess að leyfa fólki að gera mistök en væru borgaralaun við lýði gætu listamenn unnið að því verki sem þeir helst kjósa, gert mistök og unnið verkið þangað til að það væri tilbúið eða byrjað á nýju verki. Nú á dögum sækir listamaður um styrk fyrir ákveðnu verki og ætlast er til þess að hann eða hún vinni í því tiltekna verki. Fylgst er með framgangi hvers verks með framvinduskýrslu listamannalauna sem listamenn þurfa að skila inn til að eiga rétt á að sækja um styrk að nýju.
Helstu rökin sem mæla gegn borgaralaunum er kostnaðurinn sem af þeim hlýst. Til dæmis nefnir Arnaldur Sölvi Kristjánsson á Vísindavefnum að skatthlutfall þyrfti að hækka um 28% á línuna til að viðhalda kerfi borgaralauna. Það yrði þá 70% í stað 40% miðað við þær forsendur sem hann gefur sér. Ég er sammála því að borgaralaun séu ekki raunhæfur kostur í bili, en ég er fylgjandi því að rannsaka þau jákvæðu og neikvæðu áhrif sem hlytust af upptöku þeirra og búa í haginn fyrir framtíðina þegar aukin vélvæðing mun gjörbreyta samfélaginu eins og við þekkjum það. Í raun má sjá fram á að flest núverandi störf hverfi á næstu áratugum, fyrir utan einmitt þau störf sem byggja á hugviti, sköpun og nýsköpun ásamt forritun og viðhaldi tæknibúnaðar. Framtíðin er ókomin en við þurfum samt sem áður að vera undirbúin fyrir hana.
Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.
[fblike]
Deila