Inngangur Ástu Kristínar Benediktsdóttir að þýðingu greinarinnar „Hvað eru lesbískar bókmenntir?“ eftir Lillian Faderman. Þýðinguna má finna í Ritinu:2/2017.
Bandaríska fræðikonan Lillian Faderman (f. 1940) er best þekkt fyrir metnaðarfull skrif um ástir kvenna í sögu og bókmenntum, ekki síst ritin Surpassing the Love of Men: Romantic Friendship and Love between Women from the Renaissance to the Present (1981) og Odd Girls and Twilight Lovers: A History of Lesbian Life in 20th-Century America (1991). Nýjasta verk hennar er The Gay Revolution: The Story of the Struggle (2015), en þar er viðfangsefnið saga réttindabaráttu hinsegin fólks í Bandaríkjunum.
Surpassing the Love of Men er verðlaunað brautryðjandaverk í lesbískri sagnaritun og bókmenntarýni; víðfeðm rannsókn á kvennaástum í skáldtextum og öðrum rituðum heimildum frá Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu sem teygir sig frá Endurreisnartímanum fram á síðari hluta tuttugustu aldar. Ein helsta niðurstaða Faderman þar varðar hina svokölluðu rómantísku vináttu kvenna og hvernig hún er bæði lík og frábrugðin lesbískum ástarsamböndum nútímans. Frá átjándu og nítjándu öld, segir Faderman, eru til mýmörg dæmi um ástríðufull sambönd kvenna – heita, tilfinningaþrungna og jafnvel erótíska vináttu sem var, þrátt fyrir að vera „lesbísk“ í augum margra nútímalesenda, hvorki fordæmd né þrungin skömm. Rómantíska vináttan ógnaði með öðrum orðum ekki samfélaginu á þeim tíma enda kom hún ekki í staðinn fyrir gagnkynja hjónaband og var ekki tengd við kynlíf. Þegar kom fram á tuttugustu öld voru sambönd af þessum toga fordæmd í auknum mæli og rýmið til að tjá ástríðufullar tilfinningar til annarra kvenna var verulega takmarkað. Hin vísindalega þekking um samkynhneigð sem þróaðist undir lok nítjándu aldar tengdi saman í hugum fólks heitar tilfinningar og kynlíf og um leið varð lesbían til sem sjúk og siðspillt vera sem ógnaði samfélaginu og normum þess.¹ Eftir áratugalanga baráttu, sem stendur enn yfir, hefur víða náðst að losa um skömmina og fordæminguna í kringum ástarsambönd kvenna en þeim eru þó enn skorður settar.
En hver er þá munurinn á rómantískum vináttusamböndum fyrri tíma og lesbískum ástarsamböndum nútímans? Faderman telur að hann sé minni en margir gætu haldið. Í báðum tilvikum er um að ræða konur sem bera sterkar tilfinningar og þrár hver til annarrar og kjósa að verja tíma saman. Kynlíf getur verið mikil- eða lítilvægur þáttur í sambandinu, eða alls ekki til staðar. Munurinn liggur því að mati Faderman ekki í tilfinningum kvennanna eða því sem þær kjósa að gera saman heldur samfélaginu og möguleikum kvennanna til að haga lífi sínu eftir eigin höfði. Hin órjúfanlegu tengsl milli rómantískrar ástar og kynferðislegrar þrár eru tuttugustualdar fyrirbæri, bendir Faderman á; rómantísku vináttusamböndin fyrr á tímum voru ekki endilega kynferðisleg, þótt þau kunni að hafa verið það, en það gerir þau ekki léttvægari en lesbísk ástarsambönd nútímans. Eftir því sem konur öðluðust aukin borgaraleg réttindi á tuttugustu öld jukust möguleikar þeirra til að lifa sjálfstæðu lífi með öðrum konum. Ef rómantísku vinkonurnar hefðu haft þann möguleika hefðu þær nýtt sér hann, segir Faderman; þær hefðu verið lesbískir femínistar og lesbísku femínistarnir hefðu að sama skapi verið rómantískar vinkonur hefðu þær verið uppi á átjándu eða nítjándu öld.²
Faderman notar orð á borð við lesbíska ást, lesbíska tilveru og lesbíanisma yfir ástir, þrár og sambönd kvenna á öllu því tímabili sem hún rannsakar. Slík hugtakanotkun og niðurstaða Faderman um líkindi rómantísku vinkvennanna og lesbísku femínistanna er ekki óumdeild. Á þeim rúmu þremur áratugum sem liðnir eru frá útkomu Surpassing the Love of Men hafa miklar umræður farið fram um aðferðafræði og nálgun í hinsegin sögu og sagnaritun, ekki síst um að hve miklu leyti sé viðeigandi, lýsandi og fræðilega nákvæmt að varpa nútímahugmyndum og -hugtökum um kyn, kynverund og kynhneigð aftur í tímann og leitast við að skilja og lýsa fortíðinni út frá þeim. Bók Faderman var skrifuð fyrir tíma þessara rökræðna en er oft nefnd sem dæmi um nálgun sem miðar að sögulegri samfellu (e. continuity), þ.e. sem leitast við að varpa ljósi á samkynja ástir og þrár sem hluta af mannlegri tilveru á ólíkum tímum. Aðrir fræðimenn hafa fremur lagt áherslu á nálgun sem tekur tillit til sögulegs breytileika (e. alterity), þ.e. sérkenna samfélaga og ólíkra birtingarmynda samkynja ásta milli tímabila, og enn aðrir vilja fara bil beggja eða finna nýjar leiðir.³ Í þessu samhengi er þó mikilvægt að benda á að því fer fjarri að Faderman varpi gagnrýnislaust nútímahugmyndum um lesbíur aftur í tímann. Þvert á móti leggur hún sig í líma við að kanna og greina tilfinningar og stöðu kvennanna í sögulegu samhengi og hvernig samfélögin brugðust við þeim. Nálgun hennar er einmitt, eins og Dagný Kristjánsdóttir bendir á, næm fyrir sögulegum breytileika og kynverund sem samfélagslega mótuðu fyrirbæri.⁴ Þannig er ljóst að þótt Faderman noti lýsingarorðið lesbísk um fyrri tíma (lesbísk ást, lesbísk tilvera, lesbísk saga) er merking þess ekki bundin við lesbíska sjálfsmynd eða lesbíuna sem flokkunarhugtak eins og við notum það í dag. Lesbísk hefur aðra og víðari skírskotun og hana ræðir Faderman sérstaklega í greininni sem hér birtist í íslenskri þýðingu.
Greinin nefnist á frummálinu „What is Lesbian Literature? Forming a Historical Canon“ og birtist í ritinu Professions of Desire: Lesbian and Gay Studies in Literature árið 1995.⁵ Í henni beinir Faderman athyglinni að lesbískum birtingarmyndum í skáldskap og því sem hún telur vera nýtt hefðarveldi eða kanóna innan bókmenntaheimsins: lesbískar bókmenntir. En hvaða texta getum við greint sem lesbíska texta? Hvaða bækur er við hæfi að kenna á námskeiði um lesbískar bókmenntir? Hvað eru lesbískar bókmenntir? Slíkar spurningar vakna oft í tengslum við hinsegin bókmenntagreiningu, ekki bara á ástum kvenna heldur kynhneigð og kynverund almennt, og eru ósjaldan blandnar óöryggi eða hræðslu við að „álykta of mikið“. Faderman leggur áherslu á að í þessu samhengi verði að skilja orðið lesbísk vítt og að hið nýja hefðarveldi megi ekki takmarkast af þröngum nútímaskilningi á því hvað lesbía er. Við verðum að láta af þeirri kröfu að lesbískar bókmenntir séu skrifaðar af sjálfskilgreindum lesbíum, fjalli um persónur sem líta á sig sem lesbíur og leggi áherslu á lesbíska erótík, segir hún, því slíkt setur bæði bókmenntarýnunum og textunum of þröngar skorður. Skilgreiningin á því hvað lesbískar bókmenntir eru verður að fá að vera opin og þróast í takt við tímann og nýjar uppgötvanir. Síðast en ekki síst verðum við að láta af hræðslunni við að greina lesbíska texta – lesbíska hefðarveldið er ekki svartur listi heldur lifandi og spennandi rými sem sífellt bætist í þegar nýir textar eru skrifaðir og aðrir eldri lesnir og túlkaðir í nýju ljósi.
- Lillian Faderman, inngangur að Surpassing the Love of Men: Romantic Friendship and Love between Women from the Renaissance to the Present, 1981, London: The Women’s Press Ltd., 1985, bls. 15–20.
- Sama heimild, bls. 19–20.
- Valery Traub segir að Surpassing the Love of Men hafi verið „fyrsta óbeina samfellunálgunin“ á lesbíska sögu (bls. 124) og rekur í kjölfarið helstu rökræðurnar um aðferðafræði og nálgun í lesbískri sagnaritun. Sjá „The Present Future of Lesbian Historiography“, A Companion to Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender, and Queer Studies, ritstj. George E. Haggerty og Molly McGarry, Blackwell Publishing, 2007, bls. 124–45.
- Dagný Kristjánsdóttir, „Hinsegin raddir: Um sannar og lognar lesbíur í bókmenntum og listum“, Skírnir 177, haust 2003, bls. 451–81, hér bls. 455.
- Lillian Faderman, „What is Lesbian Literature? Forming a Historical Canon“, Professions of Desire: Lesbian and Gay Studies in Literature, ritstj. George E. Haggerty og Bonnie Zimmerman, Modern Language Association of America, 1995, bls. 49–59.
[fblike]
Deila