Ritinu 2/2016 er ætlað að vekja athygli íslenskra lesenda á klámi sem verðugu viðfangsefni hugvísinda, sem hægt er að nálgast úr ólíkum áttum. Forsíðuna prýðir listaverkið Uppruni heimsins eftir Gustave Courbet, en viðtökusaga þess er dæmi um það hvernig flokkun mynda og texta sem kláms stendur í sterkum tengslum við hugmyndir um æskilega og óæskilega framsetningu mannslíkamans og kynferðislífs hans og hefur bæði siðferðislegar, fagurfræðilegar og pólitískar hliðar.
Ritstjórar eru Guðrún Elsa Bragadóttir og Kristín Svava Tómasdóttir.Þrjár þemagreinar um klám eru í heftinu. Þorsteinn Vilhjálmsson skrifar um forngríska kynlífsbókahöfundinn Fílænis og viðtökusögu hennar, en út frá henni skoðar hann breytileg siðgæðismörk kynferðislegrar framsetningar – hvað það er sem þykir óásættanlegt á hverjum tíma og hvers vegna. Þorsteinn er fornfræðingur og hefur sérhæft sig í viðtökusögu klassískra verka. Sólveig Anna Bóasdóttir guðfræðingur fjallar um hugtakið hlutgervingu, meðal annars í femínískri gagnrýni á klám, og notast við skrif heimspekinga og femínískra fræðimanna. Gunnar Theodór Eggertsson er bókmennta- og kvikmyndafræðingur, sem hefur sérhæft sig í dýrasiðfræði, og hann fjallar um dýraklám í heftinu. Hann beinir sjónum sínum að siðferðislegum hliðum þess að manneskjur stundi kynlíf með dýrum áður en hann fjallar um dýraklám sérstaklega.
Þá eru í þessu Riti tvær þýddar greinar eftir Lindu Williams og Eugenie Brinkema. Þær eru báðar merkilegar greiningar á klámkvikmyndum en mjög ólíkar; Linda Williams hefur verið leiðandi í rannsóknum á klámmyndum síðan hennar frægasta verk, Hard Core. Power, Pleasure and the „Frenzy of the Visible”, kom fyrst út árið 1989 og greinin sem við birtum í heftinu, Líkamar kvikmyndanna. Kyn, grein og ofgnótt, er mikilvæg greining á klámi í samhengi annarra kvikmyndagreina sem njóta lítillar virðingar í samfélaginu en hafa sterk líkamleg áhrif á áhorfendur. Grein Eugenie Brinkema, Grófir drættir, er tiltölulega nýleg og óvenjuleg að því leyti að Brinkema greinir í smáatriðum formlega eiginleika mjög ofbeldisfullrar klámmyndar og minnir þannig á mikilvægi þess í rannsóknum á klámi að horfa ekki framhjá óþægilegustu birtingarmyndum þess.
Að auki birtast í heftinu þrjár ritrýndar greinar utan þema. Í þeirri fyrstu glímir Hjalti Hugason við spurningar sem vakna af því tilefni að brátt hefur hálf öld liðið síðan Marteinn Lúther hóf siðbótarstarf sitt: Hvenær varð íslenska þjóðin lútersk? Er hún það enn? Ef ekki, hvenær hætti hún að vera það? Bergljót Soffía Kristjánsdóttir fjallar um sjálfsævisögu Bjarna Bernharðs, Hin hálu þrep, sem hún telur hafa nokkra sérstöðu, meðal annars vegna þeirrar áhrifaríku reynslu sem lýst er í frásögninni og hinna ólíku tjáningarhátta sem höfundur beitir. Greinin fjallar öðrum þræði um skitsófreníu, sem verður útgangspunktur fyrir greiningu á Hinum hálu þrepum sem sækir jafnframt í ýmis fræði og áhrif verksins á greinarhöfund. Í þriðju og síðustu greininni, sem Birna G. Konráðsdóttir þýddi, fjalla Markus Meckl og Stéphanie Barillé um rannsókn sína á vellíðan og hamingju innflytjenda sem búa á Akureyri.
[fblike]
Deila