DA AD DÓ ÓM MÁ ÁN NÚ – brunatryggingar


Rósa Ómarsdóttir og Inga Huld Hákonardóttir
Da Da Dans
Íslenski dansflokkurinn 2016
Í ár eru 100 ár liðin síðan Dada hreyfingin kom upp í Zürik í Sviss þar sem ungir listamenn frá löndunum í kring höfðu safnast saman í skjóli hlutleysis Sviss í fyrri heimstyrjöldinni. Hreyfingin var ekki stór en hafði áhrif víða um Evrópu og einnig í New York. Þegar talað er um Dada er vísað í hugsunarhátt meira en listrænar aðferðir eða pólitíska hugmyndafræði. Fyrir Dadaista hafði skynsemi og rökræn stjórn leitt af sér hryllilegt blóðbað fyrri heimstyrjaldarinnar og því eina ráðið í stöðunni til að ná tökum á þeirri ringulreið sem var í gangi að treysta á pólitískt stjórnleysi, innsæi og hið órökræna. Opnunaryfirlýsing Hugos Ball, upphafsmanns Dadaismans, sem hann flutti 14. júlí 1916 í Cabaret Voltaire, nýstofnuðum skemmtistað sem átti eftir að verða aðal samkomustaður hópsins, opinberar þessa hugmynd um fáránleika veraldarinnar og almennt tilgangsleysi. Þar lýsir hann því yfir að fram sé komin ný listastefna sem allir eigi eftir að tala um en sé þó varla um neitt ekki frekar en nafn hennar. Nafn hreyfingarinnar, orðið dada, var valið af handahófi frá fransk-þýskri orðabók. Þó að það mætti finna í mörgum tungumálum þá hafði það ólíkar merkingar og oft ekki mjög djúpar. Það má kannski segja að orðið rétt eins og Dadaisminn sjálfur sé það merkingarlaust en geti þó merkt allt.

Da Da Dans í Borgarleikhúsinu

Dansverkið Da Da Dans eftir þær Rósu Ómarsdóttur og Ingu Huld Hákonardóttur sem sýnt er í Borgarleikhúsinu er einn af þeim viðburðum sem haldnir hafa verið hér á landi og í Evrópu í tilefni 100 ára afmælisins. Verkið var frumsýnt 12. nóvember klukkan 20.07 nákvæmlega og hófst með „prolog“ í forsalnum fyrir framan nýja sviðið í formi örlítillar dadaískrar kvöldskemmtunar með dansi, ljóðalestri og upplestri. Atriðið byrjaði með dansi við trommuslög dansaranna sjálfra á hvítar plastfötur og hávaðasaman píóundirleik. Næst kom ljóðlestur, bein vísun í fræga ljósmynd þar sem Hugo Ball íklæddur í pappaskikkju utan yfir jakkaföt og með hatt sést flytja hljóðaljóðið Karawane á skemmtikvöldi á Cabaret Voltaire. Efni ljóðsins var eitthvað á þá leið: „jolifanto bambla o falli bambla…“

Uppátækið var skemmtilegt og gaf atriðið innsýn í þann tíðaranda og hugmynda-
fræði sem verið var að heiðra í dansverki kvöldsins
Eftir upplestur ljóðsins sté prófessor Benedikt Hjartarson á svið í hvítu síðu pilsi og hvítum  bol og flutti fyrir áhorfendur opnunaryfirlýsingu Ball. Þar með fengu áhorfendur að heyra þær hugmyndir sem upprunalega lágu að baki Dadaismanum þó líkurnar á að þeir skildu hverju verið væri að halda fram væru kannski ekki miklar, til þess er yfirlýsingin allt of óreiðukennd. Þessi inngangur að sýningunni var fyrst og fremst endurgerð sögulegra viðburða. Efnið stolið, stælt og skrumskælt. Uppátækið var skemmtilegt og gaf atriðið innsýn í þann tíðaranda og hugmyndafræði sem verið var að heiðra í dansverki kvöldsins, þótt ég hafi ekki séð allt sem fram fór, verandi kona af minni gerðinni.

Þegar áhorfendur gengu í salinn voru fjórir dansararnir þegar búnir að koma sér fyrir á sviðinu og  fluttu lágstemmd hljóða- og hreyfiljóð. Þau voru smekklega klædd í ljósum bol og buxum. Andrúmsloftið í salnum var hreint og hvítt. Á gólfinu miðju var stór glansandi svartur ferningur sem skipt hafði verið niður í minni ferninga með hvítum línum. Fjórir rúmlega mannhæða háir kassar, gerðir úr grind og hvítum rimlagardínum voru einnig til staðar á sviðinu og fyrir miðju baksviðs hékk breið, hvít rimlagardína sem lifnaði við með jöfnu millibili er á verkið leið þegar baklýsing skapaði falleg skuggamynstur á hana. Tilvist hennar gaf líka til kynna að það væri leið út af sviðinu yfir í eitthvað annað sem skapaði dýpt. Sviðsmyndin var stílhrein og gaf með lýsingunni fallega stemmingu. Hún var hugvitssamlega gerð og sýndi hvernig hversdagslegt og frekar ódýrt dót getur í nýju samhengi orðið partur af ævintýraheimi.

Da Da Dans í Borgarleikhúsinu

Áferðin á sviðinu hélst síðan sú sama út verkið; það er hvít og stundum blá lýsing í annars svörtum sal. Rúllugardínukassarnir reyndust hafa ýmsa virkni, gátu hreyfst um sviðið og dregið frá og fyrir og skapað þannig tilfinninguna fyrir innra og ytra rými. Þegar líða tók á verkið fóru dansararnir að vinna með ýmiss konar leikmuni, dót sem gerði þau meira að fígúrum en manneskjum og gerðu dansinn óhlutbundnari. Margt af því sem dansararnir voru að gera snérist um bauk og brambolt með leikmuni. Einnig mátti sjá tjáningarríkari og leikrænni dans auk þess sem leikur með hljóð og hreyfingar var aldrei langt undan.

 

Það er ekki mikið talað um þátt danslistarinnar í hreyfingu Dadaista enda dansinn hið þögla form sem skilur fá spor eftir sig í sögunni. Hin einfalda staðreynd að dansformið hafði á þessum tíma ekki stafi eða nótur til að bindast og varðveitast innan gerir að hreyfingarnar hurfu í eilífðina um leið og þær höfðu verið framkvæmdar. Einhverjar ljósmyndir og frásagnir má þó finna um tilvist hennar en ekki margar. Danslistin var líka þá eins og nú heimur kvenna. Staða þeirra innan listanna var, eins og staða þeirra í samfélaginu almennt, neðarlega í valdapíramídanum svo þó að þær væru virkar í grasrótinni höfðu þær ekki rödd þegar kom að opinberum yfirlýsingum eða valdi.

Í upphafi 20. aldarinnar voru áhorfendur á danssýningum í miklum meirihluta karlmenn sem vildu sjá fallega kvenlíkama á sviðinu.
Það er samt vitað að Rudolf von Laban starfaði með Dadaistum í Zürik á stríðsárunum og dansararnir í dansflokknum hans sýndu á kvöldskemmtunum á Cabaret Voltaire. Þar má meðal annars nefna Mary Wigman sem átti eftir að verða ein af sterkustu og þekktustu frumkvöðlum módern dansins í Þýskalandi og Sophie Taeuber myndlistamaður og dansari sem var virkur þátttakandi í tilraunum framúrstefnulistamanna í myndlist á þessum tíma. Í upphafi 20. aldarinnar voru áhorfendur á danssýningum í miklum meirihluta karlmenn sem vildu sjá fallega kvenlíkama á sviðinu. Þetta átti ekki síst við þar sem dansinn var sýndur í klúbbum. Kvenímyndin sem birtist á sviðinu var venjulega annað hvort tengd hórunni eða þá ósnertanlegu draumadísinni.

Wigman, eins og margar konur á þessum tíma, barðist gegn þessari ímynd í verkum sínum og sýndi alveg nýjar gerð af konu. Frægastan má þar nefna nornadansinn sem hún frumsýndi 1914 en endurgerði 1926 en í honum situr hún á gólfinu, með grímu fyrir andlitinu og í víðri skikkju, með kreppta fingur og gerir heiftugar hreyfingar við sterkan trommuslátt. Wigman samdi einnig verk um tilgangsleysi þeirra blóðugu átaka sem voru í gangi og mannfallið sem þeim fylgdi og kallaðist á þann hátt við það sem listamenn á þessum tíma, ekki síst Dadaistar, voru að gagnrýna. Hún hélt því fram að listin yrði að takast á við þann veruleika sem hún var hluti af en ætti ekki að draga áhorfendur inn í ævintýraheima.

Taeuber virðist einnig hafa verið meðvituð um réttindabaráttu kvenna í verkum sínum. Til er fræg ljósmynd af henni þar sem hún er að dansa á Caberet Voltaire, íklædd búningi sem minnti meira á fígúratífan skúlptúr en mannlega veru. Áhersla hennar á óhlutgerða listsköpun í búningum varð þar mannslíkaminn lítt sjáanlegur fyrir rúmfræðilega sniðnum formum. Með því að klæða líkama sinn í búning sem faldi allar kvenlegar línur, andlit og hár, kom hún fram á sviðinu sem óhlutbundin fígúra frekar en kvenlegur líkami til að fantasera um. Sem myndlistamaður vann hún við gerð  klippimynda (collages) auk þess að vinna mikið með óhlutbundin form við gerð mynda og fígúra. Hugmyndir hennar og verk féllu beint inn í það sem var að gerast í listheiminum á þessum tíma og var hún í hópi þeirra sem kölluðu sig Dadaista.

Hversu dadaísk danslistin var á tímum Dadaismans er erfitt að meta en það er ljóst að hugmyndirnar höfðu áhrif innan danslistageirans. Þetta var ekki síst áberandi í búninga- og sviðmyndahönnun hjá bæði Ballet Russes og seinna Ballet Suedois en þessir flokkar réðu ríkjum á danssenunni í París 2. og 3. áratug 20. aldar. Rétt eins og sést í Da Da Dans þá var samstarf milli listgreina sterkt og framúrstefnulistamenn eins og tónlistamaðurinn Satie og myndlistarmaðurinn Cocteau unnu fyrir t.d. Ballet Russes. Þegar verk danshöfundar eins og Leonide Massine eru skoðuð má sjá að áhrif þessara stefna hafa líka seytlað inn í danssköpunina sjálfa.

Skjáskot úr kynningarmyndbandi.
Skjáskot úr kynningarmyndbandi Da Da Dans sem sjá má fyrir ofan greinina.

Í dansverkinu Da Da dans má sjá beinar tilvísanir í tíðaranda og list þessa tíma. Þannig kannast maður við vísanir í danssöguna eins og verk Wigman, nornadansinn, en líka áhersluna á óhlutbundna list bæði í formi rúmfræðilegra ferla, t.d. með ferningnum á gólfinu og það að leika sér með form sem breyta dönsurum í hluti eða fígúrur frekar en manneskjur. Klippimyndastíll er að verða til á þessum tíma þar sem brot úr fullunnum verkum er raðað saman til að mynda nýja heild og nýja merkingu. Da Da Dans er dæmi um dansklippimynd þar sem búið er að raða saman brotum úr dönsum frá þessum tíma í nýja heild. Hryllingur stríðsátakanna, sem var kannski ekki minnsti hvatinn að tilvist Dadaismans, birtist áhorfendum ekki síst í gegnum tónlistina, og orðaleikjunum, sem sjást vel í ljóði og opnunaryfirlýsingu Hugos Ball, eru gerð góð skil auk þess að hugmyndin er víkkuð út þannig að hún nær einnig til hreyfinga dansaranna. Inga Huld og Rósa hafa unnið með hljóð í síðustu sýningum svo þegar kom að hljóðaljóðunum voru þær á heimavelli.

En þó að Da Da Dans næði því varla að vera dadaískt þá þýddi þessi fágun aftur á móti að Da Da Dans er mjög vel unnið og fallegt verk.
Dadaisminn hefur verið kallaður anti-list en bar á sínum tíma með sér nýjar hugmyndir í listum, lífstíl og lífsviðhorfum. Hinu hversdagslega var gaumur gefinn, fáránleiki ofbeldis gerður sýnilegur, hið rökræna leyst upp í skiptum fyrir hið órökræna og pólitískt stjórnleysi talið það sem þurfti til að takast á við vitfirringu samfélagsins. Miðað við þessar upplýsingar þá var Da Da Dans of fágað, sakleysislegt og einfeldnislegt á köflum til að geta kallast dadaískt verk. Það var ekki nógu hrátt og tilgangslaust til að miðla hryllingnum sem var í gangi í veröldinni á þessum tíma. Í öllu verkinu voru aftur á móti mjög skýrar tilvísanir í hugmyndir dadaista og tíðarandann þegar hann kom fram, svo stefnunni voru gerð góð skil. En þó að Da Da Dans næði því varla að vera dadaískt þá þýddi þessi fágun aftur á móti að Da Da Dans er mjög vel unnið og fallegt verk. Leikmynd og búningar Þórdísar Erlu Zoëga voru skemmtilegir og hugvitsamlega gerðir. Lýsing Valdimars Jóhannssonar gaf verkinu fallega áferð og tónlist Sveinbjarnar Thorarensen var flott og skapaði fjölbreytta stemmingu.  Dansararnir, þau Ásgeir Helgi Magnússon, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Védís Kjartansdóttir og Inga Huld Hákonardóttir eru bara flink og gera allt sem þau eiga að gera óaðfinnanlega. Viktor Leifsson komi ljóði Balls vel til skila og upplestur prófessors Benedikts var skýr. Innlegg hans hefði ekki síður notið sín inni á sjálfu sviðinu því sterk og mikilúðleg ásýnd hans hefði passað vel innan þess ramma.

Danshöfundar: Inga Huld Hákonardóttir og Rósa Ómarsdóttir í samvinnu við Aðalheiði Halldórsdóttur, Ásgeir Helga Magnússon, Hjördísi Lilju Örnólfsdóttur, Lovísu Ósk Gunnarsdóttur, Védísi Kjartansdóttur og Viktor Leifsson.
Dansarar: Ásgeir Helgi Magnússon, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Védís Kjartansdóttir og Inga Huld Hákonardóttir/Rósa Ómarsdóttir
Þátttakendur í forsal: Benedikt Hjartarson, Viktor Leifsson, Sveinbjörn Thorarensen og dansarar
Tónlist og hljóð: Sveinbjörn Thorarensen
Búningar og leikmynd: Þórdís Erla Zoëga
Sviðsmynd og ljósahönnun: Valdimar Jóhannsson

Ljósmyndir við grein: Owen Fiene

Um höfundinn
Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir er menntuð í íþróttafræðum og dansi auk sagnfræði. Hún hefur skrifað gagnrýni og greinar um dans undanfarin ár auk þess að kenna listdanssögu á framhaldsskólastigi og skapandi dans fyrir börn.

[fblike]

Deila