Ritið 2:2014 – Mannslíkaminn

[container] Annað hefti Ritsins 2014 er komið út en þema þess er mannslíkaminn. Fimm greinar takast á við þemað sem spanna meðal annars flokkun á fólki eftir líkamseinkennum, hvað sé leyfilegt eða viðurkennt að gera við líkama sinn eða með honum og það hvernig líkaminn og ummerki hans eru notuð til tjáningar.

Í fyrstu þemagreininni, „Eitt, tvö, þrjú kyn: Þverfræðilegar hugleiðingar um óljóst kyn og óvenjulega líkama“, segir Sólveig Anna Bóasdóttir frá nýlegum lögum í Þýskalandi sem heimila að börn sem eru úrskurðuð intersex við fæðingu séu skráð „þriðja kyns“ og veltir upp ýmsum hugmyndafræðilegum spurningum um hið hefðbundna kynjalíkan menningarheims okkar. Hrafnkell Lárusson skrifar í grein sinni „Dularfullur og forboðinn dauði“ um viðhorf til sjálfsvíga á Íslandi á 17. og 18. öld eins og þau birtust í kristnum kenningum, þjóðtrú og lagasetningu. Þriðja þemagreinin, „Staðinn að verki: Snertifletir málverksins“, er eftir Önnu Jóhannsdóttur og fjallar um líkamlega nærveru listamannsins eins og hún birtist í módernískum áherslum í pensiltækni. Alda Björk Valdimarsdóttir sýnir okkur mismunandi birtingarmyndir rithöfundarins Jane Austen í grein sinni „Líkami Austen: Ímyndin og hjónabandið“. Í síðustu þemagreininni, „Legofsi og hjónabandsmas: Vergirni, móðursýki og nútími í Straumrofi Halldórs Laxness“, skrifar Björn Þór Vilhjálmsson um orðspor og viðtökur þessa leikrits frá 1934, sem þótti á sínum tíma hneykslanlegt vegna opinskárrar umfjöllunar um kynhvöt og kynferðisathafnir kvenna.

Í heftinu birtast einnig þrjár greinar utan þema. Höskuldur Þráinsson skrifar í grein sinni „Málvernd, máltaka, máleyra – og PISA-könnunin“ um þær aðferðir sem gjarnan er beitt til að stuðla að varðveislu íslensks máls og leggur til leiðir sem hann telur taka betur mið af máltöku barna. Helga Björnsdóttir fjallar um hernaðarhyggju, hervæðingu og karlmennskuhugmyndir í grein sinni „Hernaðarlúkk“. Lokagrein heftisins er síðan þverfagleg ritsmíð þeirra Björns Þorsteinssonar, Edwards H. Huijbens og Gunnars Þórs Jóhannessonar, „Ylrækt rísómatískra sprota: Ferðaþjónusta í nýju ljósi“. Greinin er byggð á erindum þeirra þriggja sem þeir héldu á málstofu um ferðaþjónustu á Hugvísindaþingi 2013 og fjallar um það hvernig markaðssetning er notuð til að skapa söluvæna vöru úr náttúru og menningu landsins með því að þvinga fram merkingu úr óræðri mergð.

Björn Þór Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir eru ritstjórar Ritsins að þessu sinni.

[/container]