Örlítil kaffikönnun: um kaffidrykkju í Dalalífi og víðar

Fyrir nokkrum vikum síðan gerði ég nokkuð sem ég hef aldrei gert áður en það var að lesa bók eftir Guðrúnu frá Lundi. Þetta var fyrsta bindið af Dalalífi sem kom út haustið 1946 og vakti strax mikla athygli. Bókin heitir Æskuleikir og ástir og var fyrsta bók höfundar en næstu áratugina átti Guðrún eftir að senda frá sér 27 bækur og var allan tímann einn allra vinsælasti höfundur landsins, jafnvel svo að sumum þótti nóg um.

Það sem vakti helst athygli mína við lesturinn á Æskuleikjum og ástum var líflegur stíll sem einkennist m.a. af stuttum aðalsetningum, kröftugum myndlíkingum, skemmtilegum skammaryrðum (sem Guðrún virðist sjálf hafa búið til) og síðast en ekki síst lifandi samtölum sem taka yfir stóran hluta textans. Það er líka mjög áberandi að höfundur eyðir litlu plássi í lýsingar á daglegu lífi eða öðru því sem skiptir ekki máli fyrir söguþráðinn. Að því leyti má segja að stíllinn minni svolítið á Íslendingasögurnar þótt söguefnin séu vissulega mjög ólík.

Samhliða lestrinum safnaði ég saman ýmsum heimildum um bækur Guðrúnar, einkum á timarit.is. Það var mjög sláandi hversu fáa ritdóma mér tókst að finna; það var nánast eins og allar þessar metsölubækur þættu ekki sæta neinum tíðindum hjá ritdómurum landsins. Mér tókst heldur ekki að finna mikið af bókmenntafræðilegum greinum þar sem rýnt var í skáldskap Guðrúnar; það bitastæðasta af þessu tagi er þó væntanlega grein Dagnýjar Kristjánsdóttur sem ber heitið Heiður kaffikönnunnar og birtist í bókinni Undirstraumar (1999).

Annað sem vakti athygli mína við heimildaleitina var hversu víða er vikið að ótæpilegri kaffidrykkju í sögum Guðrúnar, sbr. titilinn á grein Dagnýjar, og hér fyrir neðan má sjá tvö dæmi um þetta:

Það er vitað, að hinar endurteknu frásagnir af kaffidrykkju persónanna í bókum Guðrúnar frá Lundi, hafa aukið sölu á kaffi um a. m. k. 50% undanfarin ár, því að húsmæðurnar hella upp á í hvert sinn, er kaffidrykkja er háð í bókum skáldkonunnar og getur það orðið tvisvar á hverri blaðsíðu, en þær eru margar í bókum Guðrúnar, sem vitað er. (Verkmaðurinn, 15. febrúar 1963)

Vera má að mörgum hafi ofboðið allt kaffiþambið hjá sögupersónum Guðrúnar, en hitt er annað og eftirtektarverðara að fáir á hennar aldri hafa látið slíkt ævistarf eftir sig liggja. (Vísir, 21. júlí 1972)

Þessi umræða rímaði þó engan veginn við mína upplifun af lestri Æskuleikja og ásta þar sem kaffidrykkja er ekki áberandi. Ég ákvað því að gera eins og góðum fræðimanni sæmir og leita að öllum dæmum í rafrænni útgáfu þessarar bókar þar sem orðið kaffi kemur fyrir sem sjálfstætt orð eða sem hluti af samsettu orði, sbr. kaffikanna eða rjómakaffi. Til hægðarauka getum við kallað þessi orð kaffiorð. En niðurstaða leitarinnar var sú að slík dæmi eru samtals 26, þar af fimm samsett orð (kaffibolli, kaffiborð, kaffiketill, lummukaffi og rjómakaffi).

En auðvitað segir þessi tala ósköp lítið ef ekki eru fleiri tölur til samanburðar, t.d. úr öðrum verkum Guðrúnar eða annarra höfunda. Ég ákvað því að gera talningu á öllum kaffiorðum í öllum fimm bindum Dalalífs og öllum þremur bindum Tengdadótturinnar sem Guðrún sendi frá sér á árunum 1952-1954. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru sýndar í eftirfarandi töflu:

Bókartitillkaffiorðorðafjöldihlutfall
Dalalíf I: Æskuleikir og ástir2670.4120,04
Dalalíf II: Alvara og sorgir142135.4900,10
Dalalíf III: Tæpar leiðir197138.5160,14
Dalalíf IV: Laun syndarinnar249153.3250,16
Dalalíf V: Logn að kvöldi195187.1890,10
    
Tengdadóttirin I: Á krossgötum153138.4320,11
Tengdadóttirin II: Hrundar vörður192131.3730,15
Tengdadóttirin III: Sæla sveitarinnar10798.0000,11

Eins og hér má sjá hefur fyrsta bindi Dalalífs hefur nokkra sérstöðu hvað varðar hlutfallslega fá kaffiorð. En þessum orðum fjölgar verulega í bindum 2-4 en fækkar svo aðeins í síðasta bindinu. Í Tengdadótturinni er hins vegar mikið um kaffiorð í öllum bindunum en flest eru þau í öðru bindinu eins og taflan hér að ofan sýnir. Það er því engin þjóðsaga að kaffidrykkja er mikilvægur hluti af bókum Guðrúnar frá Lundi, eða a.m.k. þeim bókum sem hér eru til umræðu.

Við þetta má bæta að fjölgun kaffiorða milli fyrsta og annars bindis Dalalífs snýst ekki bara um orðið kaffi heldur líka samsettu orðin. Þannig eru 38 dæmi um 14 samsett orð í öðru bindi Dalalífs en þau eru: aukakaffi, hádegiskaffi, kaffibaun, kaffibolli, kaffiborð, kaffibrauð, kaffiilmur, kaffikanna, kaffiketill, kaffilaus, kaffisopi, kirkjukaffi, morgunkaffi og rjómakaffi. Þessi 38 dæmi samsvara rúmum fjórðungi af kaffiorðum bókarinnar, eða 26,8%. Samsvarandi tala fyrir fyrsta bindi Dalalífs er hins vegar 19,2%.

En hvað með kaffidrykkju í sögum annarra höfunda? Ég á ekki nógu margar skáldsögur í rafrænu formi til að kanna þetta rækilega en hef þó leitað í átta þekktum skáldsögum. Niðurstaðan er sú að engin þeirra er samkeppnisfær við Dalalíf eðaTengdadótturina. Hæsta hlutfall kaffiorða var í Englum alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson en þar eru 32 kaffiorð í texta sem er 42.234 orð og það samsvarar 0,08% hlutfalli. Lægsta hlutfallið var hins vegar í Höllu eftir Jón Trausta en þar voru aðeins tvö dæmi í 53.884 orða texta. En þetta ótrúlega kaffileysi textans hlýtur reyndar að kalla á sérstaka rannsókn fræðimanna ekkert síður en allt kaffiþambið í bókum Guðrúnar frá Lundi.

Jóhannes Gísli Jónsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.