Á síðasta ári gaf bókaútgáfan Routledge út greinasafnið Critical Approaches to Sjón: North of the Sun, í ritstjórn Lindu Badley, prófessor emerita í ensku og kvikmyndafræði við Háskólann í Middle Tennessee State, Úlfhildar Dagsdóttur, bókmenntafræðings og rithöfundar og Gitte Mose, prófessor emerita við Háskólann í Osló.
Útgáfunni var formlega fagnað 18. janúar síðastliðinn með dagskrá í húsi norðurslóða við Norðuratlandshafsbryggju (sjá frétt á nordatlantens.dk).
Þar kynnti Linda Badley bókina og tilurð hennar fyrir fullu húsi og fimm greinahöfundar fluttu stutt erindi. Einnig var lesið upp úr CoDex 1962 á þremur tungumálum (íslensku, ensku og dönsku) og loks ræddi Úlfhildur Dagsdóttir við Sjón sem einnig svaraði fyrirspurnum úr sal.

Greinasafnið er fyrsta bókin sem kemur út á ensku um íslenskan samtímahöfund og sú fyrsta á erlendu máli um íslenskan nútímahöfund síðustu sex áratugina eða svo.
Skáldið Sjón (Sigurjón Birgir Sigurðsson, f. 1962) þarf ekki að kynna fyrir Íslendingum en hann er margverðlaunaður bæði heima og heiman. Í greinasafninu má finna fjórtán kafla auk ítarlegs viðtals við höfundinn. Loks inniheldur safnið yfirlit yfir helstu æviatriði og útgefin verk hans í tímaröð (fram til dagsins í dag!).
Í bókinni er lesendum gefin innsýn í hinn sérstæða og fjölbreytilega skáldskap Sjóns, auk þess sem lögð er áhersla á önnur verk hans á sviði kvikmynda og myndlistar. Greinahöfundar eru frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Finnlandi, Írlandi, Króatíu, Ungverjalandi, auk Íslands.
Einnig er vert að benda á að í bókinni er allnokkuð af ljóðum Sjóns sem flest hafa ekki birst á ensku áður. Það er Meg Matich sem þýðir.
Umfjöllunarefnin eru víðtæk, enda af nógu af taka. Delia Ungureanu, Erik Skyum-Nielsen og Jón Karl Helgason fjalla um tengsl skáldsins við súrrealima, Delia í alþjóðlegu samhengi meðan hinn kunni þýðandi Erik fjallar um fyrsta ljóðasafn Sjóns, Drengurinn með röntgenaugun. Jón Karl setur skáldskap hins unga Sjóns í menningarsögulegt samhengi við kraumandi suðupott lista- og menningarlífs níunda áratugarins og fram á þann tíunda og kemur meðal annars inn á samstarf skáldsins við tónlistarkonuna Björk.
Erik ræðir einnig þýðingar og í kafla sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem uppljómun lýsir Victoria Cribb vinnu sinni við að þýða margradda verk Sjóns og fanga og endurskapa rödd hans.
Hin margvíslegu tengsl Sjóns við kvikmyndir eru rædd í köflum Janicu Tomić, Björns Norðfjörðs og Lindu Badley og í stórfróðlegum kafla Gitte Mose er fjallað um hinar margvíslegu birtingarmyndir sem list skáldsins tekur, allt frá hinum innsiglaða texta framtíðarbókasafnsins (Future Library) til myndlistaverka, teikninga, ljóða og annarra allskonar ‘hluta’.
Úlfhildur Dagsdóttir fjallar um birtingarmyndir skáldsins í eigin verkum með áherslu á Mánastein, en Mánasteinn er einnig viðfangsefni Janicu, og kemur einnig fyrir í kafla Ástu Kristínar Benediktsdóttur um hinseginleika í verkum Sjóns, sem reynist eiga sér langa sögu.
Heimsendir er einnig viðfangsefni Ástu Kristínar og kafla Lindu Badley um ‘Sjóníska’ umhverfispólitík, en þar fjallar hún um hinar margvíslegu birtingarmyndir átaka milli manns og náttúru sem einkennir verk Sjóns. Þessi átök taka iðulega form hamskipta og samruna manns og dýrs og Avril Tynan teiknar upp áhrifamikla mynd af því hvernig skáldið dregur fram hliðar á dýrum og fólki á mörkum mennsku og varpar ljósi á þau sem eru jaðarsett.
Anne Forgarty fjallar einnig um jaðarsettar persónur í grein sinni um CoDex 1962 og leggur áherslu á það hvernig ‘sagan’ er sögð og af hverjum. Þar er hún meðal annars að fjalla um síðari heimsstyrjöldina en í grein Gunnþórunnar Guðmundsdóttur eru hinar ýmsu hliðar sama stríðs skoðaðar í verkum Sjóns. Hún leggur áherslu á minni og sýnir hvernig skáldverkin afhjúpa margt það sem ‘vill gleymast’ þegar kemur að þessu tímabili og pólitískri arfleifð þess.

Allar fjalla greinarnar á einn eða annan hátt um einstaka frásagnartæki Sjóns og í grein miðaldafræðingsins Carolyne Larrington eru dregin fram tengsl skáldsins við skáldsagnaheima fornrita og goðsagna, með áherslu á beitingu tungumálsins í Rökkurbýsnum, meðal annars hvernig skrif aðalpersónunnar um Baskavígin gera hann að útlaga. Í tungumálinu felst kraftur og möguleiki til andspyrnu gegn valdhöfum og ríkjandi viðhorfum og þetta þema á sér fjölmargar birtingarmyndir í verkum Sjóns.
Frekari upplýsingar um bókina má fá með því að hafa samband við Úlfhildi Dagsdóttur, s. 8495259, netfang : varulfur@varulfur.is
Efnisyfirlit
Part I: The Voices of Sjón
1. The Pleasures and Challenges of Recreating Sjón’s Voice. Victoria Cribb
2. The Author is In: Moonstone, Authorship, Reading, and Intertextuality (or The Boy Who Became a Story). Úlfhildur Dagsdóttir
Part II: Surrealism
3. Oh! Sjón, the Poet 1978–1986. Erik Skyum-Nielsen
4. Sjón’s Nuclear Dystopia: Reflections on Stálnótt, Medúsa, and Johnny Triumph’s Musical Career. Jón Karl Helgason
5. “Beneath the veil of happenings”: Sjón, the Norse Visionary of Surrealism’s Deep History. Delia Ungureanu
Part III: Transmedia, Miscellanea
6. Moonstone: The Cinema That Always Was. Janica Tomić
7. Sjón at the Movies. Björn Nordfjörd
8. The Drop Tower, the Roller Coaster, the Whirling Cups: Sjón-Miscellanea and Things. Gitte Mose
Part IV: History, Ethics, Politics, and Storytelling
9. Sjón and the Long Icelandic Medieval Past. Carolyne Larrington
10. Transnational and Counter-Memorial Practices: Antisemitism, Nationalism, and the Second World War in Sjón’s Works. Gunnþórunn Guðmundsdóttir
11. The Narratable Self: Natality and the Politics of Storytelling in CoDex 1962. Anne Fogarty
Part V: Queer Ecologies: Hybridity, Disability, Ecopoetics
12. The End of the World as We Know It: Queerness and Utopias in Sjón’s Poetry and Prose. Asta Kristín Benediktsdóttir
13. Human-Animal Bodies in The Blue Fox and CoDex1962. Avril Tynan
14. Sjónian Ecopoetics. Linda Badley
Epilogue: Sjón in His Own Voice
Appendix: A Chronology of Sjón’s Life and Writings
