Rógur og ritstuldur á sautjándu öld: Regius gegn Descartes (eða öfugt)

Árið 1641 varð uppi fótur og fit í háskólanum í Utrecht í Hollandi. Hendrik de Roy (1598–1679), prófessor í læknisfræði við skólann, hafði sem sé tekið upp á því að kenna hina svokölluðu „nýju heimspeki“ Descartes (1596–1650) og dregið af henni róttækari ályktanir en skólayfirvöldum hugnaðist. Hendrik de Roy, sem nefndist því virðulega nafni Henricus Regius upp á latínu, hafði lært læknisfræði í heimalandinu, síðar í Montpellier í Frakklandi og loks í Padua á Ítalíu, þaðan sem hann sneri aftur til Hollands með doktorspróf upp á vasann.[1] Eftir heimkomuna 1625 gerðist hann læknir í Utrecht, en gegndi um tíma starfi rektors við latínuskóla í grenndinni. Hann hafði komist í kynni við rannsóknir Descartes hjá kunningja sínum, Henri Regnier (Henricus Reneri, 1593–1639), sem var góðvinur Descartes sjálfs. Auk þess varð Regius sér úti um Orðræðu um aðferð eftir Descartes, ásamt fylgiritum hennar (LjósfræðiHáloftafræði og Rúmfræði), sem birtust á prenti í Leiden árið 1637.[2] Regius hafði síðan kennt áhugasömum nemendum frumatriði hinnar nýju heimspeki við góðar undirtektir í einkatímum áður en hann var ráðinn að háskólanum árið 1638.

Descartes hafði sest að í Hollandi tæpum tíu árum fyrr. Hann skrifar í bréfi til vinar síns, Marin Mersenne (1588–1648), hinn 23. ágúst 1638 (AT, III, 334):

Í vikunni fékk ég bréf frá doktori nokkrum, sem ég hef hvorki heyrt né séð, en sá þakkar mér samt hjartanlega fyrir að ég hafi gert hann að prófessor við háskóla þar sem ég á enga vini og hef engin ítök. En ég frétti að hann hefði kennt skólapiltum á þessum stað nokkuð af því sem ég hef látið prenta, og þeim líkaði það svo vel  að þeir báðu ráðið um að gera þennan mann að prófessor.

Þrátt fyrir háðsyrðin varð þetta upphafið að samstarfi Descartes og Regiusar sem sneru fyrst í stað bökum saman gegn sameiginlegum andstæðingum. Út á við var það Regius sem stóð í ströngu en á bak við tjöldin lagði Descartes línurnar. Þegar að því kom að Regius nennti ekki lengur að bera hvert orð sem hann skrifaði undir Descartes og fór að viðra eigin skoðanir á hlutunum – afbaka hugmyndir Descartes að dómi hins síðarnefnda – slettist upp á vinskapinn og á endanum sakaði hvor annan um fræðilegar ódyggðir á borð við rógburð, rangfærslur og ritstuld.[3]

Upphaf ágreiningsins má rekja allt aftur til þess að Regius tók að kenna hina nýju heimspeki við háskólann í Utrecht án þess að hafa haft fyrir því að ráðfæra sig við höfundinn. Út frá þeim takmörkuðu sýnishornum sem Descartes hafði birt af rannsóknum sínum hafði Regiusi þar að auki tekist að setja saman handrit að almennri kennslubók um viðfangsefnið. Þar tók hann reyndar ekki tillit til frumspeki Descartes, enda hafði hann ekki annað fyrir sér um hana en stuttan kafla í Orðræðu um aðferð. Þetta varð Descartes mjög til skapraunar þegar fram í sótti, því að hann hélt því fram að frumspeki sín væri rótin að þeirri eðlisfræði sem hann kenndi. Regius hafnaði auk þess kenningum Descartes um áskapaðar hugmyndir sem Descartes taldi grundvallaratriði í þekkingarfræði sinni. Viðhorf Regiusar áttu því meira skylt við raunhyggju af þeim toga sem síðar kom fram hjá enska heimspekingnum John Locke (1632–1704). Descartes byggði kerfi sitt hins vegar á frumspekilegri tvíhyggju sem hélt rannsóknum á efnisheiminum aðgreindum frá öllu sem varðaði hvort heldur andann og sálina eða trúmál og stjórnmál.

Undir niðri virðist hafa búið sá ótti Descartes að Regius yrði álitinn eins konar „tvífari“ [4] hans þannig að allar „rangar“ skoðanir Regiusar yrðu eignaðar Descartes og nafn hans yrði órjúfanlega spyrt saman við efnishyggju og guðleysi. Honum, sem hlaut menntun sína í skóla Jesúíta og var hugsanlega útsendari þeirra á tímabili, yrði þar með útskúfað úr samfélagi þeirra heimspekinga og vísindamanna sem hann hafði einmitt ætlað sér að sannfæra um ágæti kenninga sinna. Guðfræðingar þessa tíma voru ekki heldur neitt lamb að leika sér við, hvort sem um var að ræða kalvinista í Utrecht eða kaþólikka í París.

Á þessum árum voru höfundar alls ófeimnir við að útmála andstæðinga sína í afar sterkum litum, eins og sjá má í varnarritum Arngríms lærða gegn rógburði útlendra spunameistara um Ísland. Það var líka sérstök list að semja bókatitla þannig að þeir fönguðu athyglina, eins og ráða má af svari Regiusar við gagnrýni James Primrose (d. 1659) sem hafði lært læknisfræði í Bordeaux, Montpellier og Oxford: Svampur til að þvo burt óhroðann í andmælum Jakobusar Primrosiusar (Primrose svaraði með ritinu Móteitur gegn göróttum svampi Henricusar Regiusar). Deilurnar kringum Regius upphófust reyndar af þessu tilefni, sem sé þegar hann efndi til rökræðna (disputatio) hinn 10. júní árið 1640 um hringrás blóðsins. Descartes hafði tekið undir kenningar Williams Harvey (1578–1657) um það efni í Orðræðunni, með nokkrum breytingum að vísu, en James Primrose var einmitt harður andstæðingur slíkra kenninga. Eftir það var loft lævi blandið í Utrecht.

Hinn 17. apríl 1641 blés Regius þó átölulaust til rökræðna um álitamál í læknisfræði sem út komu í bókinni Lífeðlisfræði eða Þekking heilbrigðinnar (Physiologia sive Cognitio sanitatis, 1641) án þess að allir áttuðu sig á því um hvað málin snerust, og hafði hinn varfærna Descartes þar með í ráðum. Það var ekki fyrr en 8. desember sama ár að allt fór í háaloft þegar hinn kappsami Regius fór langt út fyrir svið læknisfræðinnar og viðraði tilgátur sem gengu þvert á þær aristótelísku kenningar sem voru viðteknar meðal prófessora háskólans og Gijsbert Voet (Gysbertus Voetius, 1589–1676), rektor skólans, hafði meðal annars stuðst við í guðfræðikennslu sinni. Í kjölfarið var Regiusi stranglega bannað að fara út fyrir sitt svið og kenna annað en læknisfræði og háskólaráðið fordæmdi síðan hina nýju heimspeki.

Vandinn stafaði ekki hvað síst af því að hin nýja heimspeki hafnaði svonefndum „verundarformum“ aristótelískrar skólaspeki og beitti vélhyggjuskýringum í staðinn. En samkvæmt skólaspekinni var sálin einmitt eitt slíkt verundarform. Með verundarformunum virtist sálin því fokin út í veður og vind og með henni hin kalvínska guðfræði í Utrecht. Þetta var alvarlegt mál. Descartes þótti Regius hafa farið óvarlega og afréð því að stíga fram á sjónarsviðið undir eigin nafni árið 1642 og skýra samhengi hinnar nýju heimspeki. Þetta gerði hann í Bréfi til föður Dinets (Epistola ad patrem Dinet) sem hann skeytti við aðra útgáfu af Hugleiðingum um frumspeki (Meditationes de prima philosophiae, 1642) og síðan í Bréfi til Voetiusar (Epistola ad Voetium, 1643), þ.e. Gijsbert Voet, sem hann vandar ekki kveðjurnar.

Meginatriðið í vörn Descartes gegn því sem hann taldi afbakanir, rangfærslur og rógburð Voetiusar var að Regius hefði aðeins fengist við takmarkaðan hluta hinnar nýju heimspeki. Heildin, sú sem Descartes hefði sjálfur sett saman, ætti eftir að líta dagsins ljós. Þar yrði sýnt fram á samhengi hlutanna, rök færð fyrir tilveru Guðs og greinarmun sálar og líkama, eins og lesa mætti um þá þegar í Hugleiðingum um frumspeki.[5] Þær voru þó, eins og eðlisfræðin, aðeins hluti heildarinnar, sem birtist ekki fyrr en í Lögmálum heimspekinnar (Principiae philosophiae) árið 1644. En Descartes hafði ekki frekar en Regius erindi sem erfiði. Bæjarráðið bannaði rit hans í Utrecht, bréfin til Dinets og Voetiusar voru fordæmd, nefnd á vegum háskólans skilaði skýrslu um málið og í ofanálag hafði Voetius séð til þess að tekin var saman gagnrýni á heimspeki Descartes þar sem hann var sakaður um efahyggju og guðleysi og talið réttast að hann hlyti sömu örlög og aðrir villutrúarmenn. Máli hans var síðan vísað til lögreglunnar í Utrecht. Þegar til kom reyndist Descartes eiga hauka í horni hér og hvar í stjórnkerfinu og ákæran var felld niður.

En það voru ekki bara andstæðingarnir sem reyndust erfiðir viðfangs. Öll framganga Regiusar fór óendanlega mikið í taugarnar á Descartes, sem var afar viðkvæmur fyrir framlagi sínu til heimspekinnar. Ekki aðeins taldi hann að Regius kenndi heimspeki hans sem sína eigin og færi rangt með sumt en skildi ekki annað, heldur hraus honum hugur við að andstæðingarnir litu svo á að rit Regiusar væru fulltrúar þeirrar heimspeki sem Descartes taldi sitt helsta framlag til vísindanna. Auk þess vildi Descartes alls ekki láta bendla sig við neitt sem túlka mátti sem villukenningar, hvort heldur í trú eða vísindum, enda höfðu menn verið brenndir á báli fyrir minna. Það þýddi ekkert að varpa fram tilgátum, fyrir þeim þyrfti að færa rök sem stæðust ígrundun óvilhallra lesenda. Næsta skref hjá Descartes var því að sverja af sér Regius. Það gerði hann í einkabréfum árið 1645 en að því kom að ágreiningurinn varð opinber. Tilefnið var útgáfa Regiusar á bók sinni, Undirstöður eðlisfræðinnar (Fundamenta physices, 1646).[6] Mestur hluti bókarinnar var útlistun á hinni nýju eðlis- og náttúrufræði sem Descartes taldi í raun sína eigin, en í seinasta kaflanum voru atriði sem Descartes gat engan veginn sætt sig við að yrðu tekin sem dæmi um heimspeki sem kennd yrði við hann sjálfan.

Descartes réðst til atlögu í formálanum að franskri þýðingu á Lögmálum heimspekinnar (1647) þar sem hann lýsir vonbrigðum sínum með hinn fyrrum dygga lærisvein (AT, IX-2, 19–20):

Í fyrra gaf hann út bók sem nefnist Fundamenta physicæ og þótt hann virðist ekki hafa sett í hana neitt um eðlisfræði eða læknisfræði sem hann hefur ekki tekið úr mínum ritum, jafnt þeim sem ég hef gefið út sem öðru ófullgerðu um eðli dýranna sem barst honum í hendur af tilviljun, þá hefur hann því miður haft rangt eftir og breytt niðurskipaninni og neitað nokkrum sannindum frumspekinnar sem eðlisfræðin byggist á. Því er ég tilneyddur að sverja hann algerlega af mér og biðja hér lesendur um að eigna mér aldrei neina skoðun nema þeir finni hana beinlínis skrifaða í ritum mínum og að þeir hafi enga fyrir satt, hvorki í ritum mínum né annars staðar, ef þeir sjá hana ekki leidda mjög skýrt af sönnum forsendum.

Regius lét þennan hvítþvott ekki yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust. Svarið birtist í Skýringu á mannshuganum (Explicatio mentis humanae, 1647). Þessi nafnlausa ritsmíð inniheldur 21 grein, þar sem ýmsum atriðum í frumspeki Descartes er hafnað. Til dæmis er þeim möguleika haldið opnum að hugsun og rúmtak geti verið tveir ólíkir eiginleikar líkamlegrar verundar – sem er alveg andstætt því sem Descartes hafði haldið fram. Greinarnar voru prentaðar á blað sem negla mátti á kirkjudyr. Descartes, sem var viss um að Regius væri höfundur blaðsins, svaraði með Athugasemdum við veggblað nokkurt (Notae in programma quoddam, 1648), þar sem hann brást við efni blaðsins í því skyni að leiðrétta rangfærslur um hverjar væru hinar réttu kenningar sínar. Andsvar Regiusar kom í bæklingnum Stutt skýring á mannshuganum (Brevis explicatio mentis humanae, 1648), þar sem fyrri greinar voru endurútgefnar, ásamt tveimur formálum. Síðar tók Regius efni þessara greina og fleiri viðbætur inn í nýja útgáfu af Undirstöðum eðlisfræðinnar sem kom út undir heitinu Náttúruspeki (Philosophia naturalis, 1654). Sú bók var um síðir gefin út á móðurmáli Descartes (Philosophie naturelle, 1687).

Hið heimspekilega ágreiningsefni þeirra Regiusar og Descartes snerist fyrst og fremst um frumspekilegar forsendur eðlisfræðinnar. Mátti stunda hana sem eins konar reynsluvísindi, óháð frumspeki, hvort heldur af aristótelískum toga eða öðrum, eða þurfti að tengja hana tilteknum frumspekilegum sjónarmiðum? Vandinn var sá að möguleikar hinnar nýju heimspeki, eins og hún var sett fram í fyrstu ritum Descartes, fóru ekkert endilega saman við hinn frumspekilega ramma sem Descartes hafði hugsað sér að smíða utan um hana og kom fyrst skilmerkilega fram í seinni ritum hans. Regiusi þótti þetta vera aumt yfirklór hjá Descartes, þar sem verundarformum væri laumað inn í heimspeki sem hafði það helst sér til ágætis að hafna þeim, og væru því hálfgerð afneitun á hinu nýja framlagi hans til vísindanna. Regius taldi að því framlagi ætti að halda utan við allar frumspekilegar guðfræðikenningar og vísaði sjálfur í opinberunina um öll þau atriði sem ekki leiddi beint af náttúrufræðilegum rökum.

Og hver varð svo niðurstaðan af þessu öllu saman? Hvor hafði rétt fyrir sér? Hvor vann? Það kom reyndar á daginn að báðir höfðu haft á röngu að standa. Newton gaf út Stærðfræðilögmál náttúruspekinnar (Principia mathematica philosophiae naturalis) árið 1687 og með þeirri bók varð öll fyrri eðlisfræði úrelt, þar á meðal kerfi Descartes. Regius, kappræður hans, kennslubækur og allar þær kenningar sem hann átti að hafa nappað frá Descartes, urðu að neðanmálsgrein í hugmyndasögunni, ef til vill að ósekju, því að Pierre-Daniel Huet (1630–1721), biskup í Soissons, efahyggjumaður og félagi í frönsku Akademíunni, sem verið hafði mikill aðdáandi Descartes, kvað upp úr um það, í bók sinni Álitsgerð um cartesíska heimspeki (Censura philosophiae cartesianae, 1689), að Descartes hefði stórlega ýkt frumleika sinn í heimspeki.[7]

[1] Um  Regius, sjá Desmond Clarke og Erik-Jan Bos, „Henricus Regius,“ The Stanford Encyclopedia of Philosophy, ritstj. Edward N. Zalta (2020), https://plato.stanford.edu/archives/spr2020/entries/henricus-regius/. Hér á eftir styðst ég þó einkum við Delphine Antoine-Mahut, L’autorité d’un canon philosophique: le cas Descartes, París: Vrin, 2021. Tilvísanir í texta Descartes eru í hina sígildu tólf binda útgáfu Charles Adams og Pauls Tannery, Oeuvres de Descartes, París: Cerf, 1898–1956 (AT).

[2] René Descartes, Orðræða um aðferð, þýð. Magnús G. Jónsson, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1991.

[3] Um rógburð eða álygar, það að eigna einhverjum skoðanir sem viðkomandi telur sig ekki hafa (fr. calomnie), sjá Fosca Mariani Zini, La calomnie. Un philosophème humaniste: Pour une préhistoire de l’herméneutique, Villeneuve d’Ascq: Septentrion, 2015.

[4] Delphine Antoine-Mahut talar í þessu sambandi um „alter-ego“, L’autorité d’un canon philosophique, 17.

[5] René Descartes, Hugleiðingar um frumspeki, þýð. Þorsteinn Gylfason, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2001.

[6] „The break with Descartes was caused by Regius’s Fundamenta Physices (1646).“ Theo Verbeek, „Regius’s Fundamenta Physices,“ Journal of the History of Ideas 55, 4 (1994): 533–551, hér 545.

[7]  Efarökum sínum hefði hann til að mynda stolið frá grískum efahyggjumönnum, cogito-setningunni frá Ágústínusi kirkjuföður, verufræðirökunum frá Anselm af Canterbury, o.s.frv.

Um höfundinn

Gunnar Harðarson

Gunnar Harðarson er Prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild. Á sviði heimspekisögu hefur hann rannsakað sögu íslenskrar heimspeki, en á sviði listheimspeki hefur hann miðlað ýmsum þáttum úr fagurfræði og listheimspeki 20. aldar, auk rannsókna í sögu íslenskrar fagurfræði. Sjá nánar

[fblike]

Deila