Guðrún Möller: Það var svona umtalað í sveitinni að hún hafi átt voðalega erfiða barnæsku. Verið illa farið með hana. (Um Vigdísi Ingvadóttur, förukonu)

Undirrituð gaf nú á dögunum út bók um konur sem voru á jaðri gamla bændasamfélagsins, vegna lífshátta sinna; förukonur og einsetukonur. Bókina er að finna í opnum rafrænum aðgangi hér. Bókin er einnig varðveitt á rafhlöðunni en prentaða útgáfu bókarinnar verður innan skamms að finna á nokkrum helstu bókasöfnum landsins.

Jaðarkvennasagan hverfist um konur sem lögðu á strauminn í íslenska bændasamfélaginu; einlegðarkonur fyrri alda. Frá upphafi Íslandsbyggðar og fram eftir 20. öldinni hafa verið til konur sem grundvölluðu líf sitt að miklu leyti á einsetu eða lífi sem fólst í eilífum ferðum á milli bæja. Líf þeirra kvenna hefur marga sameiginlega snertifleti sem reifaðir eru í bók minni. Fjallað er um æviferla kvenna úr ranni föru- og einsetukvenna, þar sem ég styðst að miklu leyti við viðtöl sem ég tók við 25 einstaklinga er mundu eftir förukonum og einsetukonum á fyrri hluta 20. aldar. Sagt er frá ýmsum grunnþáttum er vörðuðu líf og umhverfi þessara kvenna um aldir, þar sem meðal annars koma við sögu sérkenni þeirra og ímyndir. Saga þessara kvenna er annars konar kvennasaga, ákveðið stef í sögu þessa lands sem hljómaði við jaðarinn.

Það er von höfundar, að umfjöllun þessi um fyrri aldar konur á jaðri samfélagsins varpi um leið sínu ljósi á sögu jaðarsettra kvenna nútímans. Því það er trú höfundar, að samtímamenn öðlist aukinn skilning á aðstæðum jaðarfólks ef þeir koma auga á líkindin í lífi þeirra einstaklinga, öld fram af öld. Þannig gefst í senn færi á að öðlast skilning og að bera virðingu fyrir þeim sem nú á tímum verja lífi sínu á jaðri samfélagsins – líkt og þeim er lifðu á jaðrinum fyrr á öldum, sem nutu jafnan ekki virðingu samferðamanna sinna. Höfundur hlaut styrk til útgáfu bókarinnar úr samfélagssjóði Landbankans. Hluti styrksins rann til Konukots, neyðarathvarfs fyrir heimilislausar konur. Bókin er tileinkuð kvenhetjunum, sem þar dvelja.

Kristín Kristvarðsdóttir: En svona var þetta, þær voru báðar förukonurnar svona á móti körlum. Af hverju það hefur verið, það veit enginn. Þó fólk hafi giskað kannski á það. En það vissi enginn neitt um það. Það var margt sem maður sá í gamla daga. (Um Þjóðhildi Þorvarðardóttur og Leppa-Siggu, förukonur)

Jón Guðjónsson: Það var stundum sem hún var reið, þá fór hún bara. Það var svo misjafnt hvernig lá á henni. Henni leið ábyggilega illa stundum, svona sálarlega. (Um Jófríði Þorvaldsdóttur, förukonu)

Sigríður Sörensdóttir: Við fórum í heimsókn til hennar, og hún bauð okkur inn. Það voru tvö rúm sitthvorum megin í baðstofunni. Þarna var svona kamína sem hún gat hitað á, og poki þar, strigapoki við hliðina á, með mó í og taði. Hún þurfti nú aðeins að þrífa bollanna, svoleiðis að hún tók bara opið á pokanum og nuddaði innan úr þeim. Og þær létu það duga; þáðu kaffið með þökkum. (Um Guðlaugu Runólfsdóttur, einsetukonu)

Ómar Ragnarsson: Ég upplifi annan harmleik í lífi hennar. Það er þegar hún vingaðist við álft þegar hún var barn, og gaf henni af sínum mat. Það fylgdi henni alla ævi síðan, að gefa dýrunum eitthvað. Hún sem sagt upplifði svaninn sem prins í álögum og sig sem prinsessu í álögum. Þetta er svo sterkt. (Um Margréti Sigurðardóttur, förukonu)

Ingibjörg Hjartardóttir: Þannig að hún hlýtur að hafa verið óvenjuleg, skrítin í hugsunarhætti. En ég myndi ekki segja að hún hafi verið þroskaheft eða átt við einhver geðræn vandamál að stríða, eins og kannski var í mörgum tilfellum með flökkufólk hér áður fyrr. Ekki var hún nein listakona. Hún var enginn bóhem eða þannig flakkari, að vilja lifa öðruvísi lífi en þessir stöðnuðu bændur. Hún var ekki þannig. (Um Kristínu Petrínu Jónsdóttur, förukonu)

Valgerður Ágústsdóttir: Eins mikill einstæðingur eins og hægt er að hugsa sér. (Um Ingunni Sveinsdóttur, einsetukonu)

Birna Stefánsdóttir: Þegar hann er dáinn og hún stendur ein eftir í léreftskjólnum sínum. Þá veit ég ekki hvað gerist með synina, en hún áreiðanlega leggur á heiðina, Smjörvatnssheiði, í þeirri von um að eignast betra líf. Hvers vegna var hún svona? (Um Margréti Gísladóttur, förukonu)

Salbjörg G. Norðdahl: Móður mína dreymdi gömlu konuna, að hún myndi deyja hjá henni. Hana dreymdi að hún sat í hlaðvarpanum og gamla konan hjá henni. Það var ekkert nema stórkostleg blómabreiða í kringum þær – og það gekk eftir. (Um Sigurbjörgu Rögnvaldsdóttur, förukonu)

Um höfundinn
Dalrún J. Eygerðardóttir

Dalrún J. Eygerðardóttir

Dalrún J. Eygerðardóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræðum. Hún hefur einnig lokið BA-gráðu í kvikmyndafræði.

[fblike]

Deila