Guðrún Möller: Það var svona umtalað í sveitinni að hún hafi átt voðalega erfiða barnæsku. Verið illa farið með hana. (Um Vigdísi Ingvadóttur, förukonu)
Undirrituð gaf nú á dögunum út bók um konur sem voru á jaðri gamla bændasamfélagsins, vegna lífshátta sinna; förukonur og einsetukonur. Bókina er að finna í opnum rafrænum aðgangi hér. Bókin er einnig varðveitt á rafhlöðunni en prentaða útgáfu bókarinnar verður innan skamms að finna á nokkrum helstu bókasöfnum landsins.
Jaðarkvennasagan hverfist um konur sem lögðu á strauminn í íslenska bændasamfélaginu; einlegðarkonur fyrri alda. Frá upphafi Íslandsbyggðar og fram eftir 20. öldinni hafa verið til konur sem grundvölluðu líf sitt að miklu leyti á einsetu eða lífi sem fólst í eilífum ferðum á milli bæja. Líf þeirra kvenna hefur marga sameiginlega snertifleti sem reifaðir eru í bók minni. Fjallað er um æviferla kvenna úr ranni föru- og einsetukvenna, þar sem ég styðst að miklu leyti við viðtöl sem ég tók við 25 einstaklinga er mundu eftir förukonum og einsetukonum á fyrri hluta 20. aldar. Sagt er frá ýmsum grunnþáttum er vörðuðu líf og umhverfi þessara kvenna um aldir, þar sem meðal annars koma við sögu sérkenni þeirra og ímyndir. Saga þessara kvenna er annars konar kvennasaga, ákveðið stef í sögu þessa lands sem hljómaði við jaðarinn.
Það er von höfundar, að umfjöllun þessi um fyrri aldar konur á jaðri samfélagsins varpi um leið sínu ljósi á sögu jaðarsettra kvenna nútímans. Því það er trú höfundar, að samtímamenn öðlist aukinn skilning á aðstæðum jaðarfólks ef þeir koma auga á líkindin í lífi þeirra einstaklinga, öld fram af öld. Þannig gefst í senn færi á að öðlast skilning og að bera virðingu fyrir þeim sem nú á tímum verja lífi sínu á jaðri samfélagsins – líkt og þeim er lifðu á jaðrinum fyrr á öldum, sem nutu jafnan ekki virðingu samferðamanna sinna. Höfundur hlaut styrk til útgáfu bókarinnar úr samfélagssjóði Landbankans. Hluti styrksins rann til Konukots, neyðarathvarfs fyrir heimilislausar konur. Bókin er tileinkuð kvenhetjunum, sem þar dvelja.
Um höfundinn
Dalrún J. Eygerðardóttir
Dalrún J. Eygerðardóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræðum. Hún hefur einnig lokið BA-gráðu í kvikmyndafræði.