„Eigi leið þú oss í freistni“ – eða hvað?

Nokkur umræða hefur skapast að undanförnu um þá ákvörðun páfagarðs að „leiðrétta“ hefðbundna þýðingu á þeim hluta „Faðir vorsins“ sem inniheldur orðin „eigi leið þú [þ.e. Guð] oss í freistni“ (Matteus 6.13). Að mati páfa væri réttara að þýða þessi orð sem „lát oss eigi falla í freistni“.

Þýðingar á fornum textum eru ákvarðaðar út frá ýmsum þáttum, bæði málfræðilegum og sagnfræðilegum. Markmið þýðinga er alla jafna það að endursegja textann á öðru tungumáli út frá upprunalegu samhengi hans. Þ.e.a.s. markmiðið er jafnan að miðla því hvað textinn hefur merkt á þeim tíma sem hann varð til. Oft er þetta erfitt verkefni þegar kemur að fornum textum, þar sem upprunalegt, sögulegt samhengi er ekki alltaf ljóst. Þá kemur oft til málfræðilegur samanburður, þar sem notkun viðkomandi orða og frasa í öðrum samtímatextum varpa ljósi á líklega merkingu þeirra í samhengi textans sem um ræðir. Stundum geta aðrir þættir en málfræðilegir og sagnfræðilegir þættir hins vegar haft áhrif á þýðendur og útgefendur þýðinga, eins og þarfir og hugmyndir samtímans, eða, líkt og í þessu tilviki, guðfræðileg hugmyndafræði.

Túlkunarsaga Biblíunnar sýnir okkur að það er ekkert nýtt að það sé deilt um þetta tiltekna vers í „Faðir vorinu“, því málið varðar þá áleitnu spurningu hvort mögulegt sé að kærleiksríkur guð leiði beinlínis fólk í freistni, sbr. „eigi leið þú oss í freistni“, að það sé Guð sjálfur sem sé valdur að því að fólk falli í freistni og syndgi. Sumir hafa andmælt þessum skilningi og kallað eftir annarri túlkun en þeirri hefðbundnu á bæninni áhrifamiklu. Að þeirra mati getur Jesús ekki hafa tjáð sig með þessum hætti. Hér hljóti að vera um ónákvæma þýðingu að ræða á texta Matteusarguðspjalls. Merkingin hljóti að vera sú að hér sé verið að biðja Guð um að forða fólki frá þvi að falla í freistni, sbr. „lát oss eigi falla í freistni“, en slíkt fall hefur þá aðra skýringu en þá að það sé Guð sjálfur sem standi þar á bak við. Vandamálið er hins vegar það að með því að fara þessa leið er verið að gera breytingar á hefðbundinni þýðingu út frá forsendum tiltekinnar trúvarnar eða guðsvarnar, en síður á forsendum textans sjálfs. Það er að mínu mati lítill vafi á því að talað er um Guð sem (mögulegan) geranda í þessu sambandi í gríska frumtextanum. Textinn gefur í raun lítið rými fyrir annars konar túlkun. Á grísku er setningin svona: (eigi) eisenegkēs (leið þú) hēmas (oss) eis (til/í) peirasmon (freistni), þar sem umsögnin eisferō (að „leiða e-n til e-s“) er í lykilhlutverki, hér í 2. persónu eintölu forminu eisenegkēs. Samkvæmt gríska textanum, sem liggur reyndar nokkuð ljós fyrir, er það Guð sjálfur sem (mögulega) leiðir fólk í freistni og bænin snýst um að biðja hann um að gera það ekki. Guð er frumlagið og gerandinn í umsögninni og „oss“ (hēmas) er beint andlag eða þolandinn. Texti Matteusar veitir þannig innsýn í hugmyndaheim þar sem fólk hafði þá trú að hlutir eins og að falla í freistni lytu guðlegum vilja. Það er m.ö.o. lítill vafi á því að hefðbundnar þýðingar á borð við þýðingu Hins íslenska Biblíufélags á versinu („eigi leið þú oss í freistni“) standa nær frumtextanum en ný þýðing páfagarðs. Seinni þýðingin er túlkun sem er grundvölluð á tiltekinni hugmyndafræði sem hefur fengið að brengla málfræði frumtextans. Þá er markmið þýðingarinnar orðið eitthvað annað en að leitast við að endursegja merkingu textans í sínu upprunalega samhengi og spurning hvort hægt sé að tala um „þýðingu“ yfirleitt í því tilviki. Öll þýðing er túlkun, en ekki er öll túlkun þýðing. Hvað Jesús sjálfur hefur sagt í þessu sambandi er síðan önnur spurning, þar sem vert er að hafa í huga að gríski textinn er í sjálfu sér ekkert annað en þýðing – eða túlkun – á orðum Jesú sem hefur að líkindum kennt fólki „Faðir vorið“ á arameísku.

Hugmyndir til forna um guðdóminn eru ekki alltaf í samræmi við væntingar fólks í dag og stundum virðist erfitt að sætta sig við hugmyndafræði sem ekki þykir aktúell í nútíma samhengi. Deilan um þýðingu „Faðir vorsins“ endurspeglar þetta. Viðleitni páfa til að túlka umræddan texta er skiljanleg og guðfræði hans einnig í því sambandi. En breytingin á sjálfri þýðingunni virðist ekki gerð á forsendum hins forna texta. Hún hefur á hinn bóginn skilað sér í gagnlegri umræðu um túlkun textans og mætti gjarnan opna fyrir frekari umræður um leiðir til að lesa, túlka og heimfæra jafn mikilvægan texta úr fornöld sem Biblían vissulega er.

(Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu 2. júlí 2019).

Um höfundinn
Rúnar Már

Rúnar Már

Rúnar Már Þorsteinsson er prófessor í Nýjatestamentisfræðum við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila