Út er komin bókin Hafið starfar í þögn minni: Þýðingar á ljóðum eftir Pablo Neruda. Ritstjóri er Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands. Í bókinni er að finna, í tvímála útgáfu, heildarsafn þýðinga – af spænsku á íslensku – á ljóðum eftir síleska ljóðskáldið Pablo Neruda (1904-1973), sem hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1971.
Í ljóðasafninu birtast þýðingar á 40 ljóðum og ljóðabálkum eftir Neruda, sem 18 þýðendur hafa snúið á íslensku. Þetta er í fyrsta sinn sem umrædd ljóð koma út í heildstæðu ljóðasafni og er markmiðið að gera þau aðgengileg öllum þeim fjölmörgu sem áhuga hafa á ljóðlist, ljóðagerð Neruda, íslenskum þýðingum á verkum hans og ekki hvað síst þýðinga- og fagurfræði. Ekki er um frumþýðingar að ræða, heldur endurútgáfu ljóðaþýðinga sem margar hverjar birtust fyrir margt löngu og ekki eru aðgengilegar almenningi. Með hverju ljóði kemur fram hvar og hvenær þau komu út, bæði á frummálinu og í þýðingu.
Í bókinni er enn fremur að finna almennan inngang um ævi og störf Neruda sem Hólmfríður Garðarsdóttir ritar og þýðingu á grein eftir Edwin Williamson, prófessor við Exeter College í Oxford, um ljóðagerð Neruda. Grein Willamsons ber yfirskriftina „Remembering Pablo Neruda“. Sigrún Á. Eiríksdóttir íslenskar. Í grein sinni fjallar Williamson um efnistök og áherslu í nokkrum af þekktustu ljóðasöfnum Neruda. Bæði gera Willamson og Hólmfríður ljóðagerð skáldsins og sérkenni hans sem ljóðskálds að sérstöku umtalsefni og velta fyrir sér hlutverki Neruda í bókmenntasögu Rómönsku Ameríku. Sérstök áhersla er lögð á það hvernig uppvaxtarár skáldsins í Síle fylgja honum alla tíð og hvernig ástin og átökin sem móta viðburðaríka tilveru hans flettast með táknrænum hætti utan um þann stofn sem uppvaxtarárin mynda.
[fblike]
Deila