Esterarbók Gamla testamentisins Þýðing og fræðilegar forsendur

Jón Rúnar Gunnarsson

Árið 1975 kom Jón Rúnar Gunnarsson til starfa við Háskóla Íslands sem lektor í almennum málvísindum, fyrsti kennarinn í fullu starfi í þeirri grein. Þótt hann hefði þá dvalið langdvölum erlendis fóru af honum ýmsar sögur á háskólasvæðinu, sumar nokkuð þjóðsagnakenndar. Flestar snerust þær um ótrúlega hæfileika Jóns til að læra tungumál og um fjölda þeirra mála sem hann kynni. Ein þeirra var á þá leið að heimkominn til Íslands hefði hann spurst fyrir um það hjá Sjónvarpinu, meðan hann var að bíða eftir föstu starfi, hvort þar vantaði ekki þýðanda. Þegar spurt var hvaða mál það væri sem hann teldi sig helst geta þýtt úr á hann að hafa svarað að það skipti ekki máli. Skömmu síðar ætlaði Sjónvarpið að senda út þátt um evrópsku söngvakeppnina, Eurovision, en þá kom í ljós að í það sinn voru kynningar á heimamáli flytjenda. Þá var leitað til Jóns og hann beðinn liðsinnis, en um leið tekið fram að það væri auðvitað ekki ætlast til þess að hann færi að reyna að snúa kynningum úr fjarlægum málum á borð við tyrknesku, hebresku, arabísku (maltnesku) o.s.frv. „Af hverju ekki?“ á Jón að hafa spurt.

Þegar unnið var að þeirri þýðingu Biblíunnar sem kom út 2007 var Jón einn þeirra sem lögðu þar hönd á plóg. Ég veit ekki hvað hann á mikið í þeirri þýðingu í heild, en meðal þess sem hann glímdi við var Esterarbók. Samkvæmt því sem segir í formála þeirrar bókar sem hér er sagt frá mun Jón hafa skilað þeirri þýðingu af sér árið 1992 og kallað hana „þýðingartilraun“. Esterarbók er ekki löng, innan við 10 síður með hefðbundnu smáu biblíuletri, en þýðingartilrauninni fylgdi ítarleg og lærð greinargerð. Þessi greinargerð hefur ekki birst fyrr en nú, enda munu þýðingarnefnd Hins íslenska biblíufélags hafa fallist hendur þegar hún fékk greinargerðina og ekki vitað hvað gera skyldi við slíkt plagg. En með því að greinargerðin er stórmerkilegur vitnisburður um vinnu Jóns, vandvirkni, þekkingu og smekk er hún birt í heild í bókinni sem hér um ræðir. Þar er reyndar fyrst almennur inngangur Jóns um Esterarbók (um 18 bls.) en á eftir sjálfri þýðingunni kemur svo þessi ítarlega greinargerð hans fyrir því hvernig hann kýs að þýða, hvernig hann hefur vikið frá eldri íslenskum biblíuþýðingum, við hvað hann hefur stuðst í því efni o.s.frv. Þetta rekur hann allt vers fyrir vers á yfir 120 síðum í bókinni. Greinargerðinni er beint til þýðingarnefndarinnar og stundum spurt hvor nefndin telji að rétt væri að þýða frekar á þennan veg eða hinn.

Það hefur ekki verið einfalt verk fyrir ritstjórana að ganga frá þessari útgáfu, eins og lýst er í formála Margrétar og í kaflanum „Lykill að bókinni“, sem Bjarki skrifar. Ein ástæðan er sú að greinargerð Jóns var aðeins til í útprenti og fannst ekki í tölvutæku formi. Önnur er sú að Jón ræðir víða um leshætti og stafsetur þá dæmin gjarna með hebresku stafrófi. Þessu hafa ritstjórarnir reynt að koma til skila eftir bestu getu og ég tel víst að það hafi tekist vel en hef engar forsendur til að dæma um það.

Þótt greinargerð Jóns með þýðingunni (eða þýðingartilrauninni) sé beint til þýðingarnefndar Biblíufélagsins, eins og áður sagði, á hún erindi til mun víðari lesendahóps en ætla mætti: „Þar má nefna til sögunnar fræðimenn og annað áhugafólk um þýðingar, söguleg samanburðarmálvísindi og menningarsögu í víðum skilningi,“ segir Bjarki í inngangskafla (bls. xiii). Sjálfum kom mér mest á óvart hvað það getur verið gaman að bera þýðingartillögur Jóns saman við eldri þýðingar, en þar vitnar hann jafnan fyrst í íslensku þýðinguna frá 1981 til samanburðar en oftast líka ýmsar þýðingar á önnur mál, auk málfræðilegs rökstuðnings. Hér eru fjögur dæmi tekin af handahófi:

Tillaga Jóns: Að þeim dögum liðnum hélt konungur sjö daga veislu öllum karlmönnum í virkisborginni Súsa, jafnt tignarmönnum sem almúga, í forgarði hallar sinnar.
Þýðingin frá 1981: Og er þessir dagar voru liðnir, hélt konungur veislu öllu fólki, sem var í borginni Súsa, bæði háum og lágum, í sjö daga, í forgarðinum að hallargarði konungs.

Tillaga Jóns: að leiða fram fyrir konung Vastí drottningu, prýdda kórónu sinni, svo að hann gæti sýnt gestum sínum yndisþokka hennar, enda var hún fögur sýnum
Þýðingin frá 1981: að sækja Vastí drottningu og leiðan hana inn fyrir konung með konunglega kórónu á höfðu, til þess að hann gæti sýnt þjóðunum og höfðingjunum fegurð hennar, því að hún var fríð sýnum

Tillaga Jóns: Vín var borið fram í gullbikurum. Þar voru engir tveir bikarar eins og var vínið veitt af þeirri rausn sem sæmdi örlæti konungs.
Þýðingin frá 1981: En drykkir voru inn bornir í gullkerum, og voru hver kerin öðrum ólík, og þar var gnægð konunglegs víns, eins og konunglegu örlæti sæmir.

Tillaga Jóns: Mönnum urðu nú kunnar tilskipanir og boð konungs og var mörgum stúlkum safnað saman til hallar konungs í umsjá Hegaí þess sem gætti kvennabúrsins og var Ester í hópi þeirra.
Þýðingin frá 1981: Er boð konungs og tilskipun hans varð kunn og safnað var saman mörgum stúlkum til borgarinnar Súsa undir umsjá Hegaí, þá var og Ester tekin til konungshallarinnar, undir umsjá Hegaí kvennavarðar

Í sumum tilvikum er hér einkum um orðalagsbreytingar og smekk að ræða en í öðrum er þýðingunni breytt efnislega og það rökstutt ítarlega. Um fyrsta dæmið segir Jón t.d. í athugasemd (bls. 42): „Hér er sett öllum karlmönnum í stað öllu fólki enda kemur það fram í versi 1:9 að konum borgarinnar var haldin veisla annars staðar. Hér teljast þær því ekki til fólksins […] og má spyrja hvort ekki finnist nú víðar áþekk dæmi sem vert væri að færa til réttari vegar.“

Það er fróðlegt, m.a. fyrir þýðendur og nemendur í þýðingafræði, að skoða þessa greinargerð Jóns og vangaveltur hans, eins þótt þeir ætli ekki að leggjast í fræðilegar rannsóknir á þýðingum Biblíunnar eða á Gamla testamentinu. Þar eru leiðbeiningar Jóns eða „húsreglur“ í sjö liðum (bls. 5–7) líka forvitnilegar. En þýðendur mega þó ekki láta hugfallast þótt þeir treysti sér ekki til að leggjast eins djúpt í vinnu sína og Jón taldið nauðsynlegt í Biblíuþýðingum, eftir því sem segir í formála Margrétar (bls. ix):

Í sem fæstum orðum þarf að gaumgæfa frumtextann í fjórum gerðum hið minnsta. Auk hebreska textans eru það þýðingarnar fornu, Septuaginta eða „sjötíumannaþýðingin“ gríska, Peshitta, sem er sýrlenska þýðingin, og latneska þýðingin, Vulgata, ásamt eldri latneskum þýðingum […]

Þetta eru nú nokkuð stífar kröfur. En ef greinargerð Jóns er skoðuð kemur í ljós, eins og áður var nefnt, að hann vísar mjög oft í ýmsar fleiri þýðingar en þær sem þarna eru taldar, bæði gamlar íslenskar þýðingar og þýðingar á dönsku, sænsku, þýsku, ensku og frönsku, auk fjölda fræðirita um biblíuþýðingar.

Loks má nefna að frágangur bókarinnar er smekklegur og vandaður og bókin er falleg. Þar á Bjarki Karlsson greinilega stóran hlut því hann annaðist umbrot, sömuleiðis kápuhönnuðurinn Ragnar Helgi Ólafsson.

Það er rík ástæða til að vekja athygli á þessu sérstæða og merkilega verki, en útgáfa þess hefur farið frekar hljótt til þessa.

Um höfundinn
Höskuldur Þráinsson

Höskuldur Þráinsson

Prófessor emeritus í íslenskri málfræði.

[fblike]

Deila