Út er komin á vegum Sögufélags og Þjóðminjasafns Íslands bókin Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur, prófessor í fornleifafræði. Steinunn bregður hér ljósi á sögu kaþólsks klausturhalds í landinu á persónulegan hátt þar sem skipulögð leit að íslensku klaustrunum er í forgrunni.
Klaustrin voru öflugustu stofnanir kaþólsku kirkjunnar á Íslandi á miðöldum, næst á eftir biskupsstólunum. Saga þeirra, sem spannar nær 500 ár, einkennist af auðsöfnun og aga í bland við bóklega menntun, handverk, stjórnsýslu, hjúkrun, lækningar og útbreiðslu trúar á Guð alvaldan og helga menn og konur. Hún er líka saga síendurtekinna skírlífisbrota og barneigna, farsótta og dauða, eldsvoða og vopnaðra átaka. Alls voru 14 klaustur stofnuð á Íslandi á kaþólskum tíma, hið fyrsta árið 1030 og hið síðasta 1493. Klausturhaldið nær þannig yfir ólík tímaskeið, allt frá bjartsýnisárum til falls kaþólsku kirkjunnar með innleiðingu lúterskunnar við siðaskiptin 1550. Klaustrin hófust í fyrstu til vegs og virðingar en hnignaði samfara langvarandi deilum íslenskra ættarvelda við páfavaldið í Róm, áður en ný gullöld rann upp um og eftir aldamótin 1300 og stóð í 250 ár. Fjöldi fólks starfaði við klaustrin, stundaði þar iðn- og bóknám, við hlið hinna vígðu. Eftir siðaskiptin urðu eigur klaustranna ein helsta stoðin í veldi Danakonungs en kaþólsk trú var bönnuð til ársins 1874. Klausturhús voru rifin, kaþólskir gripir voru eyðilagðir og bókmenntaverk brennd. Konur misstu eina athvarf sitt með lokun nunnuklaustranna tveggja. Nýr veruleiki blasti einnig við alþýðu landsins þar sem klausturspítölum og skólum fyrir almenning var lokað og eignarhald klausturjarðanna, sem voru hátt á sjötta hundrað við siðaskiptin, færðist til konungs og umboðsmanna hans. Þeir höfðu enn fremur vald til líkamlegra refsinga. Það var því af sem áður var en svo virðist sem að almúgafólk hafi farið einna verst út úr þeim byltingarkenndu breytingum sem urðu við siðaskiptin og klausturhald lagðist af.
[fblike]
Deila