Grafið í hólinn er fræðslu- og rannsóknarverkefni sem miðar að því að kynna fornleifar og fornleifafræði fyrir grunnskólanemendum og rannsaka búskaparlandslag á jörðinni Úlfarsá í Úlfarsárdal. Það hófst vorið 2015 þegar nemendur í Dalskóla heimsóttu rannsóknarsvæðið og spreyttu sig á ýmsum verkefnum fornleifafræðinga.
Aðkoma almennings verður sífellt mikilvægara svið innan fornleifafræðinnar og ekki dugir aðeins að miðla niðurstöðum fornleifarannsókna, heldur er einnig mikilvægt að fræða almenning um aðferðir og vinnulag fornleifafræðinga. Eitt af markmiðum Grafið í hólinn er að styrkja stöðu fornleifafræðinnar á Íslandi með því að vekja áhuga og meðvitund ungmenna á menningarminjum og stuðla að farsælli minjavernd í framtíðinni á Íslandi. Verkefnið er tvískipt. Annars vegar snýr það að því að rannsaka búskaparlandslagið á jörðinni Úlfarsá í Úlfarsárdal með fornleifaskráningu og fornleifauppgrefti. Hinn hluti verkefnisins felurí sér fræðslu grunnskólanemenda um fornleifar og fornleifafræði. Fræðslan byggir að stórum hluta á vettvangsvinnu þar sem nemendurnir heimsækja rannsóknarsvæðið og kynnast minjunum og vinnu fornleifafræðinga.
Á Úlfarsá er að finna fjölbreyttar minjar. Jörðin tilheyrði landnámi Ingólfs Arnarsonar samkvæmt Landnámu en hennar er svo ekki getið í heimildum fyrr en árið 1584. Jörðin er þekkt undir nokkrum nöfnum. Algengast er Kálfakot en jörðin virðist einnig hafa gengið undir ýmsum útfærslum af því nafni t.d. Kálfastaðakot og Kálfá. Árið 1925 fékk hún núverandi nafn, Úlfarsá. Ritaðar heimildir frá 18. og 19. öld segja landkosti þar fremur þrönga og var þar ýmist ein- eða tvíbýlt. Í dag sjást leifar bæjarstæðis, nokkurra útihúsa og túngarðs. Flestar minjarnar eru frá 19. eða 20. öld og mynda saman skemmtilega minjaheild eða menningarlandslag. Það gerir staðinn sérlega heppilegan fyrir verkefnið. Grunur leikur þó á að bæjarhóllinn sé eldri líkt og á við um marga bæjarhóla á Íslandi þar sem samfelld búseta hefur haldist í margar aldir.
Opin fornleifafræði
Hugmyndafræðin sem liggur að baki Grafið í hólinn tengist opinni fornleifafræði en það er íslensk þýðing á hugtakinu Public Archaeology.
Opin fornleifafræði miðar að því að rannsaka samband fornleifafræðinnar og almennings með því að leita leiða til þess að styrkja það samband. Verkefnið tengist einum anga þessarar hugmyndafræði sem kallast samfélagsmiðuð fornleifafræði (e. Community-based Archaeology) en eins og nafnið gefur til kynna er markmiðið að samfélög taki þátt í rannsóknum á einhvern hátt. Oftast eru þátttakendur fólk sem tengist svæðinu, hvort sem það eru landfræðileg eða tilfinningaleg tengsl sem myndast vegna nándar við rannsóknarstaðinn og söguna sem býr í fornleifunum. Aðferðirnar eru ólíkar hverju sinni og er því mikilvægt að sníða sér stakk eftir vexti. Mörg þessa verkefna erlendis eru umfangsmikil og samstarfið getur verið margþætt þar sem aðkoma almennings að rannsókninni tengist m.a. fræðslustarfi, vettvangsvinnu, viðburðasköpun og eflingu ferðamennsku.
Aðkoma almennings er að verða stærri og stærri þáttur í fornleifarannsóknum bæði á Íslandi og erlendis en á síðustu 15-20 árum hafa verið gerðar mun hnitmiðaðri nálganir og rannsóknaráætlanir út frá því markmiði að almenningur taki virkan þátt. Því er mikilvægt fyrir fornleifafræðinga að grípa þau tækifæri sem felast í þeim styrk sem almenningur getur gefið rannsóknum og samhliða því finna leiðir til þess að almenningur njóti góðs af.
Fornleifafræði í skólastarfi
Grafið í hólinn er unnið í samstarfi við Dalskóla en skólastjórnendur og kennarar hafa verið mjög áhugasamir um verkefnið. Verkefnið fellur vel að starfi skólans sem leggur m.a. áherslu á útikennslu, en minjasvæðið er í jaðri byggðarinnar og í göngufæri frá skólanum. Í Dalskóla hafa áður verið unnin verkefni sem tengjast heimabyggðinni og átthagafræði, t.d. örnefnaverkefni þar sem nemendur bjuggu til ný örnefni og ræddu um staðarheiti við eldri íbúa.
Fornleifafræði er þverfagleg grein sem tengist fjölmörgum námsfögum sem kennd eru í grunnskóla. Fornleifar gera söguna áþreifanlegri og færa atburði liðinna alda nær okkar tíð í skólastofunni og vekja þannig áhuga nemenda. Nemendur kynnast jafnframt fjölbreyttari heimildum um fortíðina og því hvernig þekking verður til. Ennfremur má nota ýmsar rannsóknaraðferðir sem fornleifafræðingar beita til að læra um aðra hluti. Myndun jarð- og gjóskulaga er skemmtilegur inngangur að jarðfræðikennslu, kolefnisaldursgreiningar kveikja að efnafræði og færa má notkun hnitakerfis í stærðfræði úr skólastofunni og út á vettvang.
Nemendur á vettvangi
Nemendur í 5. og 6. bekk tóku þátt í verkefninu. Í aðdraganda þess heimsóttu þeir Landnámssýninguna í Aðalstræti og hluti hópsins fór einnig í Safnahúsið. Jafnframt unnu nemendur með námsefnið Menntun og minjar vikurnar fyrir vettvangsvinnuna og kynntust þar með ýmsum hugtökum og aðferðum fornleifafræðinnar. Námsefnið er fyrir 3. og 5. bekk og fjallar um fornleifar og fornleifafræði.
Vettvangsvinnan fól í sér margþætt verkefni fornleifafræðinga sem unnin eru á vettvangi, þ.e. fornleifaskráningu, jarðlagagreiningu, sigtun jarðvegs ásamt því að teikna upp tóftir og jarðlög. Í fornleifaskráningunni gengu nemendur með fornleifafræðingi um minjasvæðið á Úlfarsá, fundu bæjarstæðið og útihúsin, skoðuðu túngarðinn og legu hans og gerðu sér í hugarlund hvernig umhorfs var á jörðinni um aldamótin 1900. Að lokum skráðu nemendur eina tóft á sérstakt eyðublað þar sem fylla átti í upplýsingar um lögun og stærð, staðsetningu með tilliti til annarra minja, kennileiti og nánari lýsingu á umhverfinu. Að lokum var tóftina teiknuð upp í kvarðanum 1:50.
Í jarðlagagreiningunni var jarðlögum á uppgraftarsvæðinu lýst á eyðublöðum. Við greininguna þurftu nemendur að nýta flest skilningarvitin með því að snerta moldina, spá í áferð hennar, lit og jafnvel lykt. Þegar kom að því að teikna jarðlögin þá þurftu nemendur að setja upp x og y ás með málböndum og nemendur lærðu að nota hnitakerfið á nýjan og áhugaverðan hátt með því að teikna upp fornleifar í kvarðanum 1:20. Að lokum fengu nemendur að sigta jarðveg úr yfirborðslagi uppgraftarsvæðisins og þótti afar spennandi þegar ýmsir gripir komu í ljós í sigtinu líkt og aurar frá miðri síðustu öld, glerbrot, naglar, dýratennur og brot úr leirtaui.
Unnið úr uppgraftargögnum
Viku eftir að vettvangsvinnu lauk hittust nemendur og fornleifafræðingar í kennslustofu, ásamt kennurum. Þar voru unnin þrjú verkefni til viðbótar:
1. Teikning og lýsing á gripum, sem fól m.a. í sér að nemendur áttu að geta sér til um notkun gripsins og hvort hann eigi sér hliðstæðu í nútímanum.
2. Orðaský. Nemendur skrifuðu orð sem tengjast fornleifafræði á svokallað orðaský. Áhrifa gætti ekki einungis frá vettvangsrannsókninni heldur líka heimsókninni á Landnámssýninguna.
3. Saga. Nemendur sömdu sögu um lífið á Úlfarsá fyrr á öldum og notuðu til þess þekkingu úr vettvangsvinnunni.
Meiri tími og heitt kakó
Grafið í hólinn heppnaðist afar vel að allra mati og vilji er til að halda því áfram. Nemendur höfðu mikinn áhuga á vinnunni og var einbeitingin í fyrirrúmi. Verkefnin voru fjölbreytt og þegar spurt var hvert þeirra hafi verið skemmtilegast kom í ljós að skoðanir nemenda voru afar misjafnar. Það undurstrikar mikilvægi þess að kynna margar hliðar fornleifafræðinnar fyrir nemendum svo kennslan höfði til sem flestra.
Afrakstur verkefnisins er ótvíræður. Nemendur bættu miklu við orðaforða sinn, lærðu að beita vísindalegum vinnubrögðum og kynntust þeim aðferðum sem fornleifafræðingar nota við vinnu sína. Þeir fengu enn fremur góða innsýn í það hversu margbreytileg störf fornleifafræðinga eru og kynntust heimabyggð sinni út frá nýju sjónarhorni.
Þegar litið er um öxl kemur helst upp í hugann gleði og áhugi krakkanna í Dalskóla við vettvangsvinnuna. Það var augljóst að þeim fannst fornleifafræðin spennandi og vinnan skemmtileg. Það sem helst skorti að mati nemenda (fyrir utan heita kakóið) var meiri tími í vettvangsvinnuna og voru kennarar og fornleifafræðingar sammála því.
[line]Heimildir
Atalay, Sonya. 2012. Community-based Archaeology. Research with, by, and for Indigenous and Local Communities. University of California Press, Berkeley, Los Angeles and London.
Árni Magnússon og Páll Vídalín. 1923-1924. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín III. Gullbringu- og Kjósarsýsla. Hið íslenzka fræðafélag í Kaupmannahöfn, Kaupmannahöfn.
Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson. 2005. Mosfellsbær. Saga byggðar í 1100 ár. Pjaxi ehf [útgáfustaðar ekki getið].
Copeland, Tim. 2004. Presenting Archaeology to the Public. Constructing insights on-site. Public Archaeology. p. 132-144. Nick Merriman (ed.) Routledge, London.
Margrét Valmundsdóttir. 2011. Fornleifar í Hjaltadal. Miðlun fornleifa með notkun kortasjár. Greinagerð með lokaverkefni til M.A – prófs við Háskóla Íslands, Reykjavík.
Matsuda, Akira & Okamura, Katsuyuki. 2011. Introduction: New Perspectives in Global Public Archaeology. New Perspectives in Global Public Archaeology. Katsuyuki Okamura & Akira Matsuda (ed.). Springer Science+Business Media, LLC 2011.
[fblike]
Deila