Umræða um flóttamannastrauminn til Evrópu frá norðanverðri Afríku og Mið-Austurlöndum, aðallega Sýrlandi, er ákallandi. Aðstæðurnar krefjast þess að íbúar og stjórnvöld Evrópulanda taki ákvarðanir og það strax. Um það vitnar straumur flóttafólks annars staðar í veröldinni sem staðið hefur áratugum saman.Mið-Ameríkuríkin El Salvador, Gvatemala og Hondúras mynda það sem kallað er í Mið-Ameríku „el triángulo norte“, eða „þríhyrning í norðri“. Hugtakið er helst notað í umræðu um öryggismál, örgbirgð og fólksflutninga til Bandaríkjanna, en árum saman hefur straumur fólks legið frá umræddum löndum um Mexíkó til norðurs. Ástæðurnar eru margar en fræðimenn eru sammála um að þar ráði mestu stríðsátök og borgarastyrjaldir áttunda og níunda áratugarins, auk fátæktar og óöryggis samtímans ásamt skorti á framtíðarsýn stjórnvalda. Meðal þeirra sem taka sig upp og leggja upp í ferðina miklu, flestir með rútum eða fótgangandi í upphafi og síðan á þökum flutningalesta í gegnum Mexíkó, er ungt fólk, unglingar og börn. Nokkur fjöldi leggur af stað í leit að fjölskyldumeðlimum sem þegar hafa komist alla leið yfir landamæri Bandaríkjanna en flestir eru í leit að draumalandinu. Landinu þar sem efnahags- og félagslegar aðstæður eru í takt við það sem þeir hafa séð í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Stað þar sem efnahagsleg afkoma er tryggð, friður ríkir og hamingjan virðist óþrjótandi.
Fyrr á þessu ári kom út bókin Börn og fólksflutningar í Mið- og Norður Ameríku (2015). Í henni er gerð grein fyrir rannsóknarverkefni sem Hastingsháskóli í Kaliforíu í samvinnu við Lenausháskóla í Argentínu hefur staðið að um árabil. Ítarlega er fjallað um aðstæður íbúa umræddra landa í leit að skýringum á flóttamannastraumnum til norðurs, en áætlað er að hálf milljón manna geri tilraun til að komast til Bandaríkjanna um Mexíkó á ári hverju og að þessi straumur eigi sér langa sögu. Fjallað er um öryggismál og ofbeldi, misskiptingu auðs og stéttskiptingu, skort á menntunartækifærum, jafnréttismál, atvinnumál o.fl. Viðtöl eru tekin við hundruð karla, kvenna og barna í hverju landi og mynd dregin upp af því af hverju fólk leggur af stað, hvað gerist á leiðinni og hvernig til tekst. Niðurstöðurnar eru sláandi. Þær staðfesta það sem lengi hefur verið vitað um örbirgð, angist og vonleysi þeirra sem minna mega sín í umræddum löndum. Enn fremur kemur fram að fólk telur sig engu hafa að tapa og að það leggur gjarnan af stað án þess að fylgja ákveðinni áætlun, á meðan aðrir fylgja leiðsögumönnum, svokölluðum úlfum (sp. coyotes). Í yfirgnæfandi tilvikum er fólk með óraunhæfar væntingar og viðmið. Enn fremur kemur skýrt fram að piltar og stúlkur á flótta eru í gerólíkum aðstæðum. Ungar konur eru nær undantekningalaust leiksoppar kynferðisofbeldis, hvort heldur er af hendi karla í sömu stöðu og þær sjálfar, þeirra sem þær treysta fyrir lífi sínu á leiðinni, öryggisvarða, lögreglumanna eða meðlima árásargengja sem hafa komið sér fyrir um alla Mexíkó til að herja á flóttafólkið.
Uppbygging atvinnutækifæra, t.d. með aukinni iðnvæðingu og úrvinnslu þeirra hráefna sem seld eru óunninn úr landi, væri hugsanleg leið, svo ekki sé talað um enn frekari áherslu á grunn- og verkmenntun ýmiss konar.Rannsóknin sem bókin byggir á og vísað er til hér að framan, vekur ekki hvað síst athygli vegna þess hversu umfangsmikil og ítarleg hún er. En efnið hefur, rétt eins og nú er að gerast í Evrópu, lengi verið til umræðu og skoðunar á sama tíma og fólk heldur áfram að þjást, týnast og láta lífið á leiðinni. Í bókarlok er komið á framfæri fjölmörgum ábendingum til stjórnvalda Mið-Ameríkuríkja og til alþjóða- og hjálparstofnana sem láta sig aðstæður álfunnar varða. Þær beinast sérstaklega að velferð barna á meðal flóttafólksins og mannréttindum þeirra. Áberandi er að stór hluti þeirra sem viðtöl voru tekin við er sammála um að flóttafólkið vilji flest búa áfram í heimalandi sínu og í samvistum við sína nánustu. Skortur á lífsviðurværi og tækifærum stendur hins vegar þeim sem verst eru settir fyrir þrifum. Löndin sem um ræðir eru frumframleiðslulönd og iðnvæðing takmörkuð. Um er að ræða samfélög þar sem landeigendur mynda yfirstétt og matvæli eru flutt hálf- eða óunnin úr landi. Verkafólk og bændur bera lítið úr býtum og ungir afkomendur þeirra sem alist hafa upp við aðgengi að fjölmiðlum og innsýn í framandi glæsiheima koma ekki auga á eigin spegilmynd í staðbundnum veruleika æskustöðvanna. Uppbygging atvinnutækifæra, t.d. með aukinni iðnvæðingu og úrvinnslu þeirra hráefna sem seld eru óunninn úr landi, væri hugsanleg leið, svo ekki sé talað um enn frekari áherslu á grunn- og verkmenntun ýmiss konar.
Fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér birtingarmyndir flóttamannastraumsins frá Mið-Ameríku til Bandaríkjanna um Mexíkó má benda á að vitnisburð flóttafólksins er að finna í fjölda heimildamynda sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Meðal þeirra má nefna myndirnar Dauðalestin (sp. El tren de la muerte, 2012), Úlfarnir (sp. Coyote, 2011), Hin ósýnilegu (sp. Los invisibles, 2010) og myndirnar Engum háður (sp. De nadie, 2005), Leiðin heim (e. Which Way Home, 2009) og Skepnan (sp. La Bestia, 2011)— sem Ragna Sigríður Kristinsdóttir hefur nýverið fjallað um í MA ritgerð sinni En tránsito. Kvikmyndirnar Gullbúrið (sp. Jaula de oro, 2013) og Nafnlaus (sp. Sin nombre, 2009), fjalla enn fremur báðar um örlög ungs fólks sem er á leið frá löndum þríhyrningsins gegnum Mexíkó til norðurs.[/x_text]
Deila