[container]
Mér varð það á um daginn að benda á nokkra grundvallargalla í röksemdafærslu og talnanotkun Einars Steingrímssonar í pistli sem hann birti á eyjan.is og átti svo sem von á svari, en kannski ekki þeim orðaflaumi sem á eftir fylgdi, enda virðist Einar vera í einhvers konar krossferð eins og riddarinn raunamæddi, Don Kíkóti, og kannski er meyjan hans miklaða Mínerva sjálf, en ekki Dúlsínea frá Tóbóso. Hann hefur nú ritað þrjá pistla eftir að ég leyfði mér að gagnrýna (ritrýna) þann fyrsta fyrir slælega röksemdafærslu, lélega meðferð talna og oflátungshátt í orðavali.Það verður að segjast eins og er, að ekki eru viðbæturnar betri, enda virðist framganga Einars lík þeirri hjá riddaranum raunamædda, hugarórar hans eflast við alla árekstra við veruleikann og hann afbakar öll fyrirbæri sem á vegi hans verða eftir eigin höfði til þess að geta haldið áfram í krossferð sinni gegn ímynduðum óvinum. Þar sem ég hef ekki tíma til að fara í gegnum skáldskap hans allan, lið fyrir lið, þá læt ég nægja að nefna nokkur dæmi um afleitar ambögur í rökfærslu og samanburðarfræðum þeim sem Einar virðist stunda eftir nokkuð gelgjulegri hugmynd um að allt sé betra einhvers staðar annars staðar.
Fyrsti pistillinn hefst á nokkuð sérstakri málsvörn því þar telur Einar sig geta hrakið gagnrýni með því að endurtaka einfaldlega ósannaðar staðhæfingar og setja fram einhvers konar hótanir um að hann geti talið upp einhvern fjölda greina sem enga sérþekkingu þurfi til að sjá að eru „tóm þvæla“. En hann kveðst „veigra“ sér við því um sinn einhverra hluta vegna.
Vandræðaleg skýring á því að hann noti ónákvæmar tölur verður enn vandræðalegri þegar maður sér hvernig hann notar tölur í framhaldinu. Hann vill ítreka tölu um 10-15% háskólanema í rannsóknaháskólum í Kaliforníu sem hann giskaði á í fyrri pistli til að draga stórtækar ályktanir í samanburði við íslenska háskóla og vísar svo til vefsíðu sem á að sanna mál hans. Ég skoðaði hana og það er skemmst frá því að segja að það er engan veginn hægt að komast að þessari niðurstöðu sem hann kemst að með því að skoða hana, enda er ein algengasta breytan á henni einfaldlega „not available“ eins og menn sjá ef þeir skoða hana. Annað sem gerir samanburð við háskóla í Kaliforníu hæpinn, svo ekki sé meira sagt, er munurinn á samfélagsgerðinni, skólagjöldum og ýmsum öðrum þáttum sem taka verður með í reikninginn ef menn telja sig geta gert grein fyrir slíkum samanburði svo vit sé í. Þetta vita allir fræðimenn, á öllum sviðum.
Einar heldur áfram í samfélagsfræðum sínum og notar mannfjöldatölur og fjöldatölur við rannsóknaháskóla í Svíþjóð til að bera saman við Ísland, algjörlega án þess að nokkrar aðrar breytur komi inn, ekki einu sinni lýðfræðilegar, hvað þá meir. Til að mynda er hærra hlutfall Íslendinga á háskólaaldri en í Svíþjóð eins og menn geta séð t.d. á CIA World Factbook. Einnig eru kerfin mismunandi þar sem aðgreining á háskólum er ekki fyrir hendi á Íslandi. Vel kann að vera að hún væri æskileg, en svona fyrirvaralaus samanburður á einföldustu tölum heldur ekki vatni þegar forsendurnar eru svona ólíkar.
Ekki batnar talnameðferðin þegar Einar fjallar um greinaskrif á íslensku. Hann bendir á:
„Þeir sem lesa íslensku í veröldinni eru varla fleiri en 400 þúsund, þ.e.a.s. um 0,00006% jarðarbúa, eða um 0,0004% af þeim milljarði sem býr í löndum með álíka umfangsmikið háskólakerfi og Ísland.“ Ja, hérna hér, heldur hann virkilega að milljarður manna bíði í ofvæni eftir að lesa greinar eftir hann og kollega sína af því einu að þær eru á ensku? Væntanlega ekki, en hvers vegna setur hann þá þessar tölur fram til samanburðar? Samkvæmt þessum rökum væri vitanlega heppilegast að birta á kínversku, það eru svo margir hugsanlegir lesendur. Þessar tölur eiga síðan að sanna að vegna smæðar íslensk þjóðfélags sé „því fráleitt að tala um það sem kallað er óháð ritrýning í alþjóðlega fræðasamfélaginu inni í þessum örheimi sem íslenska háskólasamfélagið er“. Hvernig hann veit þetta kemur ekki fram, ekki nú fremur en áður, en ekki veit ég til þess að Einar hafi ritstýrt vísindatímariti á íslensku hingað til. Ég get hins vegar upplýst hann um að blind ritrýning getur vel farið fram á Íslandi og það er eiginlega afar sérkennilegt að Einar skuli í raun halda því fram að íslenskir fræðimenn séu eitthvað siðlausari en aðrir, því það er sú málathöfn sem felst í því að halda því fram að smæðin útiloki nafnlausa ritrýningu greina.
Viðhorf Einars til birtinga á íslensku sýna svo að hann virðist ekki skilja hlutverk háskóla í samfélaginu. Að hans dómi á glugginn á fílabeinsturninum aðeins að vera opinn um Vísindavefinn svokallaða sem vissulega vinnur ágætt starf við að svara spurningum almennings. En háskólastarf er miklu meira en að birta greinar í erlendum tímaritum og svara nokkrum spurningum almennings. Rannsóknir eru ekki einungis sjálfstæður þáttur háskólastarfs heldur eiga þær að tengjast kennslu, enda væri dálítið annarlegt að prófessor sem er með nýjustu þekkingu á takteinum miðlaði henni ekki í kennslu. Tungumálið sem talað er á Íslandi er íslenska og það er kennt á íslensku við Háskóla Íslands í flestum greinum. Það neitar því enginn að „þekkingarleitin“ í greinum eins og hjúkrunarfræði eða verkfræði sé alþjóðleg og óháð tungumálum, en þessar greinar eru hins vegar kenndar í íslenskum háskólum og það sem meira er, starfstéttirnar sem þær skapa starfa síðan í íslensku samfélagi, hjúkrunarfræðingar inni á sjúkrahúsum, verkfræðingar inni á stofum o.s.frv. Allir þessir sérfræðingar tengjast íslensku samfélagi í umtalsverðum mæli og þurfa að miðla þekkingu sinni innan þess þannig að skiljanlegt sé. Ef ekki, til hvers þá að vera punga út fyrir þessu öllu saman? Það væri hægt að ráða útlendinga mörgum sinnum í öll þessi störf, svo notaðar séu samanburðaraðferðir Einars.
Einari þótti greinilega ekki nægilega miklu svarað með þessum sérkennilega pistli sínum svo hann birti annan undir fyrirsögninni „Lygasagan um gæði íslenskra háskóla“. Málathöfnin hér að baki er sú að því sé haldið fram að íslenskir háskólar séu í fremstu röð í heiminum, ekki er hægt að skilja það öðruvísi. En svo er ekki, enginn hefur haldið því fram hingað til. Háskóli Íslands hefur sett sér markmið um að komast á lista yfir 100 bestu háskóla í heimi, en ekki komist á neinn slíkan lista og ekki haldið því fram að svo sé. Lygasagan er því einungis til í hugarheimi Einars enda virðist það vera sú bókmenntagrein sem honum er hentust. Þetta bragð að búa til „strámann“ sem síðan er sleginn niður af hetjunni er gamalt og feyskið.
Botninn slær Einar síðan úr tunnunni með því að fullyrða þetta:
Til að skilja molbúaháttinn sem einkennir raunverulega stefnu forystu HÍ og HR, sem báðir segjast ætla að verða öflugir rannsóknaháskólar á alþjóðavettvangi, er gott að hafa þetta í huga: Af þeim 10-12 manneskjum sem mynda æðstu akademísku stjórn þessara skóla hefur ekki ein einasta neina teljandi reynslu af akademísku starfi við erlenda háskóla.
Þetta eru einfaldlega ósannindi og aðdróttun að mannorði fólks sem er hámenntað víða erlendis, hefur reynslu af starfi við erlenda háskóla og mikinn rannsóknaferil að baki.
Satt að segja hélt ég að Einar kæmist ekki mikið neðar í málflutningi sínum, en hann var ekki af baki dottinn og þurfti greinilega enn að leysa vind og birti hann skömmu síðar enn einn pistilinn, „Sláandi tölur um Háskóla Íslands“. Með honum sýndi hann endanlega að meðferð hans á tölum er alvarlega ábótavant og væri það jafnvel þótt hann teldi sig ekki vera „afburðamann“ í vísindum. Hann grípur upp töflu frá Vísindasviði HÍ þar sem birtingar svokallaðra ISI tímarita eru tíundaðar. Til að villa um fyrir lesendum orðar hann það svo: „hér er heildarfjöldi birtinga starfsmanna hvers sviðs sama ár í svokölluðum ISI-tímaritum“. Tölurnar eru vissulega sláandi, frá sviðum verkfræði, náttúruvísinda og heilbrigðisvísinda birtast samkvæmt þessu meira en tífalt fleiri greinar heldur en hjá sviðum félags-, mennta- og hugvísinda. En þar sem þessi tafla miðast við tímaritalista sem er yfirgnæfandi raunvísindatengdur og snertir ekki nema örlítinn hluta þess sem birt er t.d. í hugvísindum þá er strax ljóst að hér er verið að ljúga með tölfræði. Þetta eitt nægir til að gera svona framsetningu ótrúverðuga, en við það má bæta að greinaskrif í hinum ýmsu greinum eru afar mismunandi. Þannig eru oft margir höfundar að einni grein í raunvísindum og á þessum lista vísindasviðs er einmitt fyrirvari þar um:
Athugið að tölurnar í sundurliðuninni miðast við fjölda greina sem hver vísindamaður í deild er höfundur að og gefin eru stig fyrir. Oft eru fleiri en einn höfundur að greinum. Þeir geta verið í sömu deild, annarri deild eða utan HÍ. Tölurnar eru því aðeins vísbending um birtingu greina í ISI-tímaritum í einstökum einingum.
Þannig er ein grein eftir t.d. fimm íslenska fræðimenn við HÍ talin fimm sinnum í þessari töflu. Einar hefur þannig brotið grundvallarreglur samanburðar a.m.k. tvisvar í þessu greinarkorni sínu; í fyrsta lagi tekur listinn sem hann vitnar í ekki nema til hluta þess sem verið er að bera saman við og í öðru lagi gerir hann ekki grein fyrir því að tölurnar byggja á mismunandi forsendum um meginbreytuna, fjölda höfunda á birtingu sömu greina. Vinna heiðarlegir og gegnir vísindamenn svona?
Einar gerir vissulega fyrirvara og viðurkennir eina ferðina enn að hann á erfitt með nákvæmni í meðferð talna: „Ef ætti að gera svona úttekt nákvæma, svo hún segði hvert frávikið í birtingatíðni við HÍ er frá alþjóðlegu meðaltali á hverju sviði, í þeim skólum sem HÍ vill bera sig saman við, þá þyrfti að taka tillit til ýmissa þátta sem ekki verður gert hér.“ Nákvæmlega, það er það einmitt sem hann gerir ekki sem máli skiptir varðandi félags-, mennta- og hugvísindi og sýnir um leið að vinnubrögð hans gera meira en að orka tvímælis. Þau eru að mínu mati dæmi um upplýsingafölsun sem ekki er neinum vísindamanni sæmandi.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply