Þriðja hefti Ritsins 2011 var nýverið gefið út með greinum um Evrópa í forgrunni. Evrópugreinarnar fjalla um sögu sjálfsmyndar Evrópubúa, um stöðu þjóðríkisins innan Evrópusambandsins, málstefnu sambandsins og menningarlega þjóðardýrlinga Evrópu. Undir Evrópuþemanu er einnig birt þýðing á nýlegri grein eftir franska heimspekinginn Étienne Balibar um framtíð Evrópusambandsins í kjölfar efnahagskreppu. Höfundar Evrópugreinanna eru Sverrir Jakobsson, Guðmundur Hálfdanarson, Gauti Kristmannsson og Jón Karl Helgason.
Í Ritinu er einnig birtar greinar um guðfræði og loftslagsbreytingar, tengsl manns við náttúru, landafundi Spánverja og frásagnir landkönnuða, íslensku gamanþáttaröðina Sigtið, franska skáldsagnahöfundinn Emmanuel Carrère og greinasafn Karls Popper, Ský og klukkur.
Ritstjórar Ritsins að þessu sinni eru þau Ásdís R. Magnúsdóttir og Þröstur Helgason.
Nánar um Ritið 3:2011
Formlegar viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu hófust í júnímánuði 2011 og nú líður varla sá dagur að ekki megi lesa um Evrópu í íslenskum fjöl- og netmiðlum og ráða ólík sjónarmið ferð í þeim málflutningi. Það þótti því vel við hæfi að helga Evrópu þetta seinasta hefti ársins 2011.
Í inngangsgrein Ritsins fer miðaldasagnfræðingurinn Sverrir Jakobsson aftur í tímann og varpar ljósi á þá skiptingu heimsins sem var ríkjandi í orðræðu í vesturhluta Evrasíu fram á 16. öld. Hann fjallar um sögu hugtaksins Evrópa og það hvenær fyrst mátti greina „evrópska sjálfsmynd“. Evrópubúar uppgötvuðu svo Ameríku um 1500 og við það að finna aðrar heimsálfur breyttist heimsmynd þeirra og sjálfsmynd. Þeir voru sannfærðir um eigin yfirburði gagnvart öðrum þjóðum á fjölmörgum sviðum og sjálfsmynd þeirra efldist í samræmi við það. En Evrópa er ekki lengur það sem hún var eða taldi sig vera, nafli alheimsins, enda valdajafnvægi í heiminum hverfult fyrirbæri.
Orðræðan um Evrópu er einnig til umfjöllunar í grein Guðmundar Hálfdanarsonar, þar sem sjónum er beint að Evrópusamrunanum og stöðu þjóðríkja innan ESB en margir, einkum andstæðingar sambandsins, telja samrunann boða endalok evrópskra þjóðríkja. Guðmundur rekur sögu samrunans og bendir á að frumkvöðlar hans hafi ekki gengið út frá því að þjóðríkið og þjóðernisvitund viki fyrir yfirþjóðlegri og samevrópskri vitund. Hins vegar hafi aukin samvinna ríkjanna haft í för með sér víðtækari samræmingu á reglum þeirra.
Fjöltyngi, tungumálakunnátta, túlkun og þýðingar koma gjarnan upp í hugann þegar minnst er á Evrópusamstarf. Hvaða áhrif hefði aðild að Evrópusambandinu á íslenskuna? Gauti Kristmannsson svarar þeirri spurningu í grein sinni um málstefnu Evrópusambandsins. Hann bendir á mikilvægi þjóðtungna eða móðurmáls í þróun þjóðríkja og lýðræðis í álfunni og að þær séu einn af hornsteinum þess sem kalla megi evrópska sjálfsmynd. Málstefna Evrópusambandsins endurspeglar mikilvægi þjóðtungna og kallar á stöðuga endurnýjun og uppbyggingu tungumálsins í gegnum þýðingar. Gauti telur því að það yrði íslenskunni og sjálfsmynd Íslendinga til góðs að landið væri hluti af ESB þar sem íslenskan nyti sömu virðingar og stuðnings og aðrar þjóðtungur.
En það er fleira en þjóðtunga og fáni sem mynda sjálfsmynd þjóðríkja. Einstaklingar geta líka átt mikilvægan þátt í að móta þjóðarvitund landa sinna og það með ýmsu móti eins og Jón Karl Helgason bendir á í grein sinni um menningarlega þjóðardýrlinga Evrópu. Þar fjallar hann um tvö 19. aldar skáld, Hans Christian Andersen, sem er Íslendingum að góðu kunnur, og France Prešeren frá Slóveníu. Ólíkt trúarlegum dýrlingum er minningu þjóðardýrlinga haldið uppi af opinberum stofnunum en í kringum þá hafa mótast félagslegar helgiathafnir sem eru að mörgu leyti sambærilegar við þær trúarlegu. Jón Karl segir frá því hvernig leifar af lífi skáldanna hafa orðið þáttur í samfélagslegum helgisiðum og hvaða hlutverki þeir gegna í því sem kalla má þjóðernislega menningarstefnu.
Staða mannsins í heiminum og ólíkar hugmyndir um guðdóminn er viðfangsefni Sólveigar Önnu Bóasdóttur. Grein hennar er fyrsta grein heftisins utan Evrópuþemans en höfundur tekur upp þráð loftslagsumræðunnar sem áður hefur ratað inn á síður Ritsins og fléttar hann loftslagsbreytingum innan kristinnar guðfræði. Hefur hinn vestræni maður farið verr með náttúruna en tíðkast annars staðar í veröldinni og ef svo er, hver er ástæðan? Hér er sjónum beint að framlagi femíníska vistguðfræðingsins Sallie McFague og því guðfræðilega líkani sem hún hefur sett fram og byggist á því að líta á guðdóminn sem lífskraft, en ekki alvitran og allsráðandi persónulegan alvald. Sú sýn geti verið framlag guðfræðinnar til þess að bjarga náttúrunni frá eyðileggingu.
Tengsl manns og náttúru koma einnig við sögu í grein Henrys Alexanders Henryssonar, „Skynsemin í náttúrunni – Náttúruleg skynsemi“, þótt með ólíkum hætti sé. Hér er farið inn á brautir markhyggju og spurt hvort sú leið að hafna henni hafi fært okkur betri tengsl við náttúruna. Höfundur tekur afstöðu með því viðhorfi sem markhyggja endurspeglar. Litið er til náttúrunnar sem kennara en einnig sagt frá aldagamalli gagnrýni á þær kenningar sem markhyggja byggist á.
Í grein Erlu Erlendsdóttur er farið á flakk um álfur, lönd og tungumál. Hér er sagt frá landafundum Spánverja og frásögnum landkönnuða af ferðalögum, náttúru og íbúum nýrrar álfu. Bréf þeirra og önnur skrif áttu ríkan þátt í að móta hugmyndir – og ranghugmyndir – Evrópubúa um Nýja heiminn og nutu sum hver mikilla vinsælda. Erla segir frá þýðingum á frásögnum þeirra og rekur ferðalag textanna frá Suður- Evrópu norður til Íslands.
Framsetning raunveruleikans er einnig viðfangsefni Ármanns Jakobssonar sem fjallar um íslensku gamanþáttaröðina Sigtið með Frímanni Gunnarssyni þar sem tekin voru fyrir ýmis viðfangsefni úr íslensku samfélagi. Í greininni, sem ber heitið „Allur raunveruleiki er framleiddur“, mætast gaman og alvara; þar kemur fram að þáttaröðin, sem var í stíl sviðsettrar heimildamyndar, var bæði ádeila á heimildamyndarformið og á íslenskt neyslusamfélag ársins 2006 þar sem leit að fullkomnun er drifkraftur og fjölmiðlamenn og listamenn selja sig samkvæmt ráðandi kapítalískum viðmiðum.
Í Ritinu birtist nú aftur, eftir nokkurt hlé, grein um bók og er hún óritrýnd. Stefán Snævarr fjallar um greinasafn bresk-austurríska heimspekingsins Karls Popper, Ský og klukkur, sem kom út í íslenskri þýðingu Gunnars Ragnarssonar árið 2009. Stefán kynnir höfundinn, meginhugmyndir hans um vísindalega aðferðafræði og helstu gagnrýni sem þær sæta, þar með talið sína eigin.
Þýðingar eru á sínum stað í heftinu. Birt er stutt grein frá árinu 2010 eftir franska heimspekinginn Étienne Balibar sem ber heitið „Evrópa: Síðasta kreppan?“ og var skrifuð stuttu eftir að gríska ríkisstjórnin neyddist til að samþykkja harkalega niðurskurðaráætlun í fyrravor. Þar veltir höfundur fyrir sér framtíð Evrópusambandsins í kjölfar efnahagskreppu og gagnrýnir pólitík sem snýst fyrst og fremst um það að bjarga bönkum og evrópska gjaldmiðlinum. Er þetta tækifæri til að endurskoða og endurmóta Evrópusambandið og efnahagsstefnu þess? spyr höfundur, eða er þetta upphafið að endalokum þess? Balibar telur að svo sé nema byrjað verði á nýjum grunni sem byggi á endurskoðun jafnréttis og lýðræðis innan Evrópu. Til þess þurfi hins vegar „friðsama uppreisn fjöldans“, pólitískari almenning og menntafólk.
Síðasta grein heftisins er um bókmenntir og leyndarmál. Þar skrifar lögfræðingurinn og doktorsneminn Nathalie Tresch um franska skáldsagnahöfundinn Emmanuel Carrère og sjálfsævisögulegt verk hans, Un roman russe, sem kom út árið 2007. Í verkinu afhjúpar Carrère vel geymt fjölskylduleyndarmál og lýsir áhrifum þess á líf sitt og skáldverk. Tresch fjallar um mátt leyndarmálsins sem drifkrafts í listsköpun og áhrif þess á sjálfsmynd höfundarins.