
Á undanförnum áratugum hefur samfélag og menning hinsegin fólks á Íslandi og víðar á Vesturlöndum orðið sýnilegri og viðurkenndari en áður. Þetta hefur gerst samhliða áföngum sem unnist hafa í baráttu fyrir mannréttindum og viðurkenningu á tilverurétti samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, trans og intersex fólks og annarra hópa sem oft sameinast undir regnhlífarhugtakinu hinsegin. Rannsóknir á menningu, sögu, listum og bókmenntum þessara þjóðfélagshópa í íslensku samhengi eru í sókn og fræðagreinin hinsegin fræði (queer theory) sömuleiðis. Auk þess hafa undanfarið farið fram líflegar umræður innan hinsegin samfélagsins um hugmyndafræði og hugtakið hinsegin, notkun þess og merkingu. Í þessu tölublaði Ritsins er fræðafólki af öllum sviðum hugvísinda boðið að taka þátt í að efla og viðhalda umræðu um hinsegin fræði og menningu á Íslandi. Tekið er á móti greinum um hvaðeina sem tengist því sviði, svo sem sögu, bókmenntir og listir, hugmyndafræði, orðræðu og menningu almennt.