Séu hin óræðu orðræðufræði bæði skilyrði og eiginleikar hugvísindanna liggur það jafnljóst fyrir að þau eru afar ólík raun-, verk- og náttúruvísindunum. Það eru sannarlega ‘hands-on’-fræði svo ég leyfi mér að grípa til framandi tungutaks. Raunvísindin eiga nefnilega ávallt við hluti, raun-verulega hluti, staðfasta, trygglynda og sanna hluti. Þau fást við efnisheiminn, okkar áþreifanlegu veröld, fullkomlega óháð því hvort að viðfangsefnið er snertanlegt, sýnilegt eða yfirhöfuð til í þeirri birtingarmynd sem um það er fjallað. Raunvísindin vísa ávallt til efnisheimsins og óyggjandi veruleika hans og hafa þannig öðlast sess meðal almennings sem raun-veruleg vísindi. Engu að síður, og á það hefur verið bent í ræðu og riti (t.d. Bruno Latours, 1999), eru raunvísindi á sama hátt og hugvísindi undirorpin fyrirframgefnum forsendum, hringiðu-orðræðu þar sem rökin bíta í hvers annars skott, og óvissu sem er höfð að engu í krafti mælinga, talninga eða tölfræðilegra líkinda.
Þetta er þó ekki er mergur málsins, heldur gömul gagnrýni á tvískiptingu hins hug- og hlutlæga. Ég vil hvorki jagast í rannsóknarnálgun raunvísindamanna eða hvernig þeir kjósa að leggja fram sínar niðurstöður, né vil ég berjast gegn eða snúa áliti almennings, trú hans og trausti. Öðru fremur langar mig að benda á að sú ímynd, sem þar um ræðir og virðist rótföst í vitund nútímans, um hina hefðbundnu tvískiptingu fræða og vísinda í aðskilda heima hins efnislega gegn hinu huglæga, hins staðfasta og sanna andstætt hinu margræða og síbreytilega, liggur fyrst og fremst í misjafnri hluttenginu fræðanna.
Andsvar póstmódernískra hugvísinda
Hugvísindamenn hræðast hluti, hafa í það minnsta á sér allan vara þegar að þeim kemur. Við rekumst víða á þessa angist, til að mynda hjá Jean-Paul Sartre sem lýsti upplifun sinni á hlutum í skáldverkinu Nausea (1976: 180). „Ég stend í hringiðu hluta, nafnlausra hluta. Aleinn, orðlaus, varnarlaus, þeir umkringja mig eru undir mér, aftan og ofan við mig”. [1] Sartre leit hluti hornauga, þeir flæktu mannlega tilvist og erfitt reyndist að hafa á þeim hemil (Cornell og Fahlander, 2002: 22). Svona sjónarhorni á hlutum mætum við hvarvetna í fræðunum. Andsvar póstmódernískra hugvísinda við angistinni var í sjálfu sér að efast um allt efnislegt. Hluturinn var í þeirra augum lítið annað en myndhverfing tungumálsins, efnislegt hylki utan um margs konar, breytilegar merkingar sem velktust um í pólitísku, menningarlegu og félagslegu ölduróti nútímans. Merking hlutarins og samfélagslegur veruleiki hans gat breyst líkt og hendi væri veifað, snarlega og án nokkurs fyrirvara (Holtorf, 2002: 55). Hluturinn sjálfur bjó augljóslega ekki yfir nokkurri staðfestu, hann hafi tapað öllum sínum grunngildum eða –eiginleikum. Einkennilegt hvernig póstmódernísk, -strúktúralistísk hugvísindi tóku svona einharða afstöðu gegn hlutnum, því á þann hátt gerðu þau lítið annað en að festa kartesíska tvíhyggju í sessi, þá hugmyndafræði sem þau í upphafi vildu ráðast gegn. Í þessu samhengi er líka áhugavert að minnast sálarangistar Michel Foucault (1983) í umfjöllun hans um pípur málarans Magritte. Hvert var samhengi efnislegrar ímyndar pípunnar og staðhæfingar málarans „þetta er ekki pípa” (f. Ceci n’est pas une pipe)? Hvernig í ósköpunum gat málarinn haldið slíku fram eftir að hafa augljóslega málað pípu? Einmitt, ‘málað pípu’! Þar af leiðandi vísaði fullyrðingin ekki til hlutarins, hinnar eiginlegu pípu, heldur til tvívíðrar ímyndar pípu á striganum – sannarlega ekki pípa, heldur málverk. Svona hringsólar Foucault í kringum tungumál og myndmál, texta og hluti þangað til allt leysist upp, fellur saman, tvístrast og hverfur á endanum (Foucault, 1983: 31). Umræða Foucault um pípur Magritte fylgja þeirri hugmyndafræði að hluturinn (í þessi tilviki pípan) byggist á hugsjóninni um pípu og eigi á þann hátt upphaf sitt (og enda) í hugsuninni, í vitundinni um hlutinn en ekki í hlutnum sjálfum. Þannig er maðurinn og vitund hans skilgreind sem hugsandi vera sem skapar mismunandi ímyndir eða hugsjónir um veröldina sem umlykur hann.
Bræðingur manna og hluta
Allt þetta, sem hér hefur verið imprað á og skeiðað yfir, lítur þó framhjá grundvallaratriði málsins. Hið mannlega og hið hlutlega eru óaðskiljanlegir þættir. Hluttenging mannsins skilgreinir hann sem tegund – í hlutnum er maðurinn uppruninn. Í upphafi var nefnilega ekki aðeins Homo heldur líka habilis, hinn handlagni. Sá var ekki bara skapari og notandi hluta heldur tók hluturinn þátt í að skapa hann sjálfan. Ein frumforsenda og grundvallarskilgreining Homo liggur í hlutnum og eðlislægri hluttengingu mannsins. Af því leiðir að Homo varð ekki habilis fyrir þá sök að honum datt það sísona í hug, heldur var það fyrir atbeini hluta að þessi umbreyting gat átt sér stað. Eiginleikar steinsins, þ.e. að mynda beitta egg þegar á hann kunnáttusamlega slegið, veittu manninum nýja hluttengda hæfileika. Svoleiðis gat maðurinn unnið á þykkri húð bráðarinnar og klofið beinið inn að merg. Maðurinn og hlutirnir standa í samhverfu sambandi hvor við annan þar sem báðir eru þátttakendur í umbreytingu hins. Í verkum sínum notar Bruno Latour margs kyns skemmtilegt myndmál til að útskýra þetta samhverfa samband, þennan bræðing manna og hluta. Latour segir: Það er hvorki byssa né maður sem skýtur, heldur skyttan, þ.e. bræðingur manns og byssu. Maður-með-byssu er sannarlega önnur vera en maður-án-byssu. En sama gildir um byssuna. Byssa-með-manni er allt annar hlutur en byssa-án-manns (Latour, 1999: 176-177; sjá líka Witmore, 2007: 552-553).
Hlutir standa aldrei einir heldur eru þeir ávallt hlutar einhvers. Samruni er þeirra grunneðli. Hluturinn er sá sem safnar saman, sameinar, viðheldur, tengir saman mismunandi eiginleika í tíma og rúmi (Olsen, 2003: 98). Við þurfum ekki annað en að líta á orðsifjar enska hugtaksins ‘thing’ eða þess þýska ‘Ding’ sem eru jú samstofna íslenska orðinu þing (Heidegger, 1993: 355; Olsen, 2003: 98). Hvað lýsir betur sameinandi og umbreytandi eðli hluti?
Við getum alls ekki skilið á milli hins mannlega og hins efnislega og þar af leiðandi er ekki heldur hægt að skilja á milli þess huglæga og hlutlæga. Eins getum við aldrei skilið manneskjuna án þess að setja hana í sitt hlutkennda samband. Þess vegna þurfum við hlutlegri hugvísindi, sem skilja manneskjuna í sínu rétta ljósi, sem hlut-veru. Í mínum augum liggur þetta í hlutarins eðli, svo sjálfgefið er það.
Heimildir:
Cornell, Per og Fahlander, Fredrik (2002) „Microarchaeology, Materiality and Social Practice”. Current Swedish Archaeology, Vol. 10, bls. 21-38
Foucault, Michel (1983) This is not a pipe. Berkeley: University of California Press
Heidegger, Martin (1993) „Building Dwelling Thinking”. Heidegger, Basic Writings: from Being and time (1927) to The task of thinking (1964). London: Routledge, bls. 347-363
Holtorf, Cornelius (2003) „Notes on the life history of a pot sheard”. Journal of Material Culture, Vol. 7(1), bls. 49-71
Latour, Bruno (1999) Pandora’s Hope: Essays on the Reality of Science Studies. Cambridge: Harvard University Press
Olsen, Bjørnar (2003) „Material Culture after Text: Re-Membering Things”. Norwegian Archaeology Review, Vol. 36(2), bls. 87-104
Sartre, Jean-Paul (1976) Nausea. London: Penguin
Witmore, Christopher (2007) „Symmetrical archaeology: excerpts of a manifesto”. World Archaeology, Vol. 39(4), bls. 546-562
[1] Lausleg þýðing höfundar úr ensku.
Leave a Reply