Háskólinn í krísu? 1/2011

Ritið 1/2011 Háskólinn í krísu?

Í heftinu fjalla sex höfundar um háskólann í fortíð og nútíð og gera um leið tilraun til að greina háskólann sem samfélagslegt og sögulegt fyrirbæri.

Í kjölfar íslenska efnahagshrunsins hafa spurningar um ábyrgð háskólakennara sífellt gerst áleitnari, vangaveltur um mótspyrnu gagnrýninnar hugsunar í vestrænum markaðssamfélögum og hvort fræðimenn geti miðlað annarri veruleikasýn til almennings en þeirri sem ráðandi er. Í Ritinu er leitast við að svara þessum áleitnu spurningum. Meðal annars er fjallað um akademískt frelsi, háskólann sem átakasvæði og skyldu háskólamanna til að sinna gagnrýninni umræðu innan og utan háskólans. Þá er fjallað um vandann sem nú birtist í því að háskólinn á undir högg að sækja sem vettvangur frjálsrar og óheftrar rökræðu, vísindalegrar, menningarlegrar og samfélagslegrar.

Í formála ritstjóra Ritsins, þeirra Guðna Elíssonar og Jóns Ólafssonar, segir meðal annars: ,,Á árunum 2005 til 2008 höfðu bankar og fyrirtæki í atvinnulífinu vaxandi tilhneigingu til að skipta sér af háskólakennslu tengdri viðfangsefnum þeirra. Slík afskipti eru ekki þátttaka í rökræðu háskólasamfélagsins heldur tilraunir til að kæfa umræður og viðhorf sem ekki hugnast sterkum aðilum í samfélaginu. Nú hafa slík afskipti í auknum mæli færst til ýmiss konar hagsmunaaðila og jafnvel frjálsra félagasamtaka sem reyna með ýmsu móti – með réttu og röngu – að hafa áhrif á kennsluhætti og rannsóknir.

Að verja akademískt frelsi er að verja réttinn til að takast á um umdeild mál fyrir þeim sem reyna að þrengja að vettvanginum með aðferðum útilokunar og valdbeitingar. Mikilvægast er að háskólinn sjálfur standi vörð um akademískt frelsi. Hætti hann að gera það vegna átakafælni, vegna hugmyndafræðilegrar uppgjafar eða innri sundrungar er hann í vanda staddur, í djúpri krísu sem aðeins róttæk uppstokkun getur umbreytt.”

Greinar:

Þema: Háskólinn í krísu?

Irma Erlingsdóttir: Af veikum mætti. Ábyrgðar- og gagnrýnishlutverk háskólans.
Jón Ólafsson: Róttækur háskóli – tvíræður háskóli.
Jón Torfi Jónasson: Háskólar og gagnrýnin þjóðfélagsumræða.
Gauti Sigþórsson: Háskólabóla? Um námsframboð og vinsældir náms í góðæri.
Sverrir Jakobsson: Háskólar. Valdastofnun eða viðnámsafl?

Aðsendar greinar

Guðni Elísson: Dómsdagsklukkan tifar. Upplýsing og afneitun í umræðu um loftslagsbreytingar.
Björn Þór Vilhjálmsson: Skrif við núllpunkt. Um steingervinga, sæborgir og endalok í Himninum yfir Þingvöllum.
Sigrún Margrét Guðmundsdóttir: Hvít eins og frauðplast. Um kynlífsdúkku Guðrúnar Evu Mínervudóttur.

Þýðing

Jonathan Cole: Akademískt frelsi og frjálsar rannsóknir.

Ritið er 229 blaðsíður