Lýðræði – 1/2004
Þema heftisins er Lýðræði og fjalla þrír íslenskir fræðimenn, þau Gunnar Karlsson, Jón Ormur Halldórsson og Kristín Ástgeirsdóttir um það efni. Grein Gunnars lýsir meðal annars rannsóknum hans á gögnum frá fyrstu Alþingiskosningum Íslendinga 1844. Niðurstöður Gunnars koma að sumu leyti á óvart. Hann sýnir til dæmis fram á að fjöldi kosningarétthafa í þessum fyrstu Alþingiskosningum hefur fram að þessu yfirleitt verið ofmetinn. Portúgalski rithöfundurinn og nóbelsverðlaunahafinn José Saramago birtir einnig grein um lýðræði í Ritinu en Saramago var gestur á Bókmenntahátíð hér á landi haustið 2003 og sendi Ritinu grein sína skömmu síðar. Í henni lætur hann í ljós miklar áhyggjur af þróun lýðræðis í heiminum. Efnahags- og fjármálaöfl vinni að því leynt og ljóst að draga úr lýðræði og hið pólitíska vald sé vanbúið til að takast á við þessa þróun. Að áliti Saramagos verður ekki tekist á við hana með öðru en lifandi rökræðum – ekki síst rökræðum um lýðræði, því hættulegasta blekkingin sé sú að halda að lýðræði sé eitthvað sem búið er að höndla í eitt skipti fyrir öll.
Auk fræðigreina um lýðræði opnar Ritið í þessu hefti nýjan vettvang á mörkum stjórnmála og fræða. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir birtir grein um lýðræði og stjórnlyndi þar sem hún gerir meðal annars grein fyrir nokkrum meginhugmyndum sínum um inntak lýðræðislegrar þátttöku. Tveir háskólamenn, Sigríður Þorgeirsdóttir og Róbert Haraldsson, svara grein Ingibjargar og bregst hún stuttlega við svörum þeirra. Tilgangurinn með því að birta skrif af þessu tagi er að stuðla að aukinni umræðu um stjórnmál og menningu á milli stjórnmálamanna og fólks í athafnalífi annarsvegar, háskóla- og fræðimanna hinsvegar.
Leikrit Michaels Frayns, Lýðræði (Democracy) sem vakið hefur mikla athygli í Bretlandi og Þýskalandi undanfarna mánuði er birt í heild sinni í íslenskri þýðingu í heftinu. Þetta leikrit er í senn merkilegt leikhúsverk og uppgjör við samtímaatburði sem á fullt erindi í fræðilega og pólitíska umræðu um lýðræði. Leikrit Frayns fjallar um Willy Brandt og valdaferil hans sem lauk með afsögn hans eftir að upp komst að einn nánasti samstarfsmaður hans var austurþýskur njósnari. Breskir leikhúsgagrnýnendur völdu Lýðræði leikrit ársins 2003 í Bretlandi. Í Ritinu birtast einnig greinar um tvítyngi, vesturfarabókmenntir og samtímasagnfræði. Myndlistarmaður heftisins er Finnur Arnar Arnarson en verk hans er fersk hugleiðing um þjóðhöfðingja íslenska ríkisins á síðustu öld.
Ritstjórar: Jón Ólafsson og Svanhildur Óskarsdóttir.
Forsíðumynd Ritsins er af embættisbifreið Sveins Björnssonar forseta eins og hún leit út 1997 er hafist var handa um að gera við hana.
Fornleifafræði 2/2004
Í heftinu eru fjórar greinar byggðar á erindum frá málþingi Ritsins í apríl síðastliðnum þar sem fjallað var um stöðu íslenskrar fornleifafræði. Einnig eru birtar þýðingar á tveimur greinum um kennilega fornleifafræði eftir þá Ian Hodder og Martin Carver. Að vanda eru í heftinu greinar sem ekki tengjast beint þema þess – Guðmundur Heiðar Frímannsson fjallar um tjáningarfrelsið í ljósi samtímaumræðu um frelsi fjölmiðla; Ólafur Páll Jónsson ritar grein sem hann nefnir “Undir hælum athafnamanna” þar sem hann gagnrýnir m.a. harðlega stefnu umhverfisráðuneytisins í náttúruverndar- og friðlýsingarmálum; Baldur Hafstað fjallar um viðhorf Stephans G. Stephanssonar til frumbyggja Norður-Ameríku eins og þau birtast í kveðskap hans og Guðni Elísson tekur opnunarsýningu Þjóðminjasafnsins til rækilegrar athugunar í greininni “Frægðin hefur ekkert breytt mér.” Þá er í heftinu umfjöllun Þrastar Helgasonar um nýjar þýðingar sem Bókmenntafræðistofnun hefur gefið út.
Falsanir 3/2004
Fjallað er um blekkingar, dulargervi og fals, einkum á sviði bókmennta og lista. Birtar eru myndir af nokkrum þeim verkum sem komu við sögu í Stóra málverkafölsunarmálinu og ólíkum hliðum málsins velt upp í greinum þeirra Erlu S. Árnadóttur hæstaréttarlögmanns og Áslaugar Thorlacius myndlistarmanns. Byron lávarður er umfjöllunarefni Guðna Elíssonar sem í grein sinni fléttar saman útgáfusögu verka skáldsins og margvíslegum tilgangi á bak við nafnlausar útgáfur verka hans. Í greininni „Í hverju felast breytingarnar og hvað fela þær?“ fjallar Soffía Auður Birgisdóttir um klausturdagbækur Halldórs Laxness og þær breytingar sem skáldið gerði á þeim fyrir útgáfu þeirra rúmum sextíu árum síðar. Í grein Gunnþórunnar Guðmundsdóttur „Eins og þessi mynd sýnir… Falsaðar ljósmyndir og skáldskapur á ljósmynd“ er heimildagildi ljósmyndarinnar tekið til umfjöllunar og jafnframt tekin dæmi af notkun ljósmynda í skáldverkum. Þá skrifar Hermann Stefánsson um bókina Ólöf eskimói og ber saman við aðrar frásagnir af fólki sem siglir undir fölsku flaggi og Jón Ólafsson fjallar um stuld og svindl í vísindasamfélaginu í grein sem hann nefnir „Fölsuð fræði“. Að auki birtist í heftinu grein eftir þær Önnu Þorbjörgu Ingólfsdóttur og Elsu Sigríði Jónsdóttur um veruleika og upplifun fólks af erlendum uppruna sem sest hefur að hérlendis. Loks birtast í þessu hefti Ritsins þýðingar á tveimur lykilgreinum á sviði þýðingafræði: „Um málvísindalegar hliðar þýðinga“ eftir Roman Jakobson og „Um turna Babel“ eftir Jacques Derrida.
Ritstjórar: Jón Ólafsson og Svanhildur Óskarsdóttir.