Eftir hrun bankakerfisins á Íslandi haustið 2008 blasti við að hugvísindamenn þyrftu að láta til sín taka í þeirri úrvinnslu áfallsins sem óhjákvæmilega færi fram. Ritstjórar og ritnefnd Ritsins tóku strax að leggja drög að hefti sem helgað yrði hruninu og er útkoman fjölbreytt safn ritgerða þar sem tekið er með ýmsu móti á þeim álitamálum sem brenna um þessar mundir á íbúum landsins sem ekki kallar sig lengur „stórasta land í heimi“.
Oft er gripið til sögubókanna þegar sögulegir viðburðir verða og í grein sinni tekst Helgi Þorláksson á við athæfi af þessum toga, sér í lagi skírskotanir til Gamla sáttmála sem Íslendingar gerðu við Noregskonung árið 1262 og afsöluðu sér þar með sjálfstæði sínu – að sögn. Helgi sýnir fram á að hefðbundin skoðun á Gamla sáttmála er engan veginn á rökum reist, eða sé í skásta falli söguleg eftiráskýring sem eigi öðru fremur rætur í þjóðernisvakningu sjálfstæðisbaráttunnar þegar matreiða þurfti handa mörlandanum þá sýn á söguna sem yki honum þrótt til að stofna hér „sjálfstætt“ ríki er lyti öðru yfirvaldi en dönskum kóngi eða landstjóra. Helgi færir rök fyrir því að skoða þurfi söguna „á hennar eigin forsendum“ og forðast tuggur sem öðlast hafa sess viðtekinna staðreynda.
Í þessu samhengi er hollt að hugsa til þess að íslenska efnahagsbólan, eins og aðrar slíkar, þreifst á ákveðnu þegjandi samkomulagi sem kenna má við átrúnað og mátti fyrir enga muni rjúfa. Fylgispektin við þessa ásköpuðu meðvirkni varð þó aldrei algjör, eins og sjá má á fjölmörgum dæmum úr opinberri umræðu á Íslandi í „góðærinu“ um þau harkalegu viðbrögð sem hvers kyns efasemdir um flekkleysi markaðshyggjunnar vöktu. Varðhundar valdsins bitu þar óspart frá sér. Meðal þeirra grunnatriða sem æðstuprestar góðærisins fóru með eins og mannsmorð er sú einfalda staðreynd að kreppur eru óhjákvæmilegur fylgifiskur kapítalismans. Guðmundur Jónsson gerir þessum efnum góð skil í grein sinni í heftinu og gagnrýnir í leiðinni bæði viðtekna hagfræði síðustu áratuga (hagfræði markaðshyggjunnar) og marxískar kenningar um kreppur og sögulega framvindu.
Í nýlegri grein í Stúdentablaðinu varpar Páll Skúlason fram þeirri ögrandi spurningu hvort Háskóli Íslands hafi brugðist menntunarhlutverki sínu. Í þessu hefti Ritsins er ábyrgð háskólamanna til umræðu í fleiri en einni grein, en Vilhjálmur Árnason gerir hana að helsta umtalsefni sínu, að vísu með sérstöku tilliti til hlutverks hugvísindafólks. Meðal þeirra spurninga sem Vilhjálmur varpar fram er þessi: „Er ef til vill þversögn í því fólgin að segja að hámenntað fólk sýni af sér skeytingarleysi gagnvart eigin samfélagi?“ Þessi spurning kann að koma spánskt fyrir sjónir en broddurinn í henni er sá að ekki sé í reynd hægt að tala um menntun hjá fólki sem lætur sér hagsmuni samfélagsins í léttu rúmi liggja.
Arnfríður Guðmundsdóttir og Hjalti Hugason eru á svipuðum slóðum í grein sinni sem tekur þó á málunum út frá sjónarhóli guðfræðinnar. Hvert er erindi guðfræðinnar við þjóð í kreppu? Arnfríður og Hjalti halda í grein sinni fram því sjónarmiði að markmið manna í samfélagi hljóti að vera „að við finnum samhljóm við náungann og náttúruna, ró hið innra og endurnýjað samfélag við skapara okkar“. Sama tón slær Ólafur Páll Jónsson í sinni grein, en hann vekur máls á því hvernig kreppan getur orðið okkur tilefni til að taka upp bætta sambúð við náttúruna sem felst ekki aðeins í því að við búum í náttúrunni heldur líka með henni. Þannig dregur hann fram hugsanlegar jákvæðar hliðar kreppunnar og veltir um leið fyrir sér áhrifum hennar á það sem telst til lífsgæða.
Ein höfuðsyndin sem Arnfríður og Hjalti gera að umtalsefni, og kemur einnig við sögu hjá Ólafi Páli, er sú sem nefnist á fornri grísku hybris – ofmetnaður, dramb, hroki. Ljóst má vera að Íslendingar góðærisáranna voru nokkuð þungt haldnir af þessum lesti. Í grein sinni í heftinu greinir Kristín Loftsdóttir hugmyndir Íslendinga um að þeir séu einhvers konar „guðs útvalda þjóð“, eða að minnsta kosti sérstakt úrvalsfólk með tiltekið eðli sem ekki sé með öllu frítt við ofbeldishneigð og ágirnd og hefur iðulega verið kennt við víkinga. Kristín setur umræðu góðærisáranna um útrásarvíkinga í samband við þá sjálfsmynd sem haldið var að íslenskum skólabörnum langt fram eftir 20. öld og tekur sláandi dæmi úr samtímanum um það hversu djúpum rótum þessi goðsögn stendur í sálarlífi og tungutaki Íslendinga.
Í heftinu er að finna eina þýðingu og er þar á ferðinni gagnmerkt brot úr fangelsisdagbókum ítalska marxistans Antonio Gramsci sem ber þann lýsandi titil „Menntamenn“. Í greininni veltir Gramsci fyrir sér þeirri spurningu hvort menntamenn hljóti alltaf að vera fulltrúar tiltekinna stétta og standa vörð um hagsmuni þeirra, hvað sem tautar og raular.
Myndaþáttur þessa heftis er helgaður ljósmyndum Ingvars Högna Ragnarssonar af eyðilegum nýbyggingum og gömlum húsum á höfuðborgarsvæðinu. Þær lýsa stefnulausu ofurkappi þenslunnar og þeim kennileitum sem hún hefur skilið eftir sig.
Segja má að þessu hefti Ritsins ljúki á ögn léttari nótum, en síðasta greinin í heftinu fjallar um drykkjusiði ungra Íslendinga og er afsprengi dagbókarrannsóknar sem Unnur María Bergsveinsdóttir og Hildigunnur Ólafsdóttir gerðu árið 2006. Unnur og Hildigunnur beita kenningum úr félagsfræði og heimspeki á skemmtanamenninguna og bregða á hana skemmtilegu ljósi, jafnframt því sem þær bera niðurstöður sínar saman við niðurstöður hliðstæðra rannsókna meðal nágrannaþjóða okkar.
Ritið er 183 blaðsíður.