Framúrstefna – 1/2006
Fyrsta hefti árgangsins 2006 er helgað framúrstefnu. Í sjö greinum og tveimur þýðingum er fengist við félagslega og fræðilega þýðingu þeirra róttæku listastefna tuttugustu aldar sem kenndar hafa verið við avant-garde auk ljóðaþýðinga og myndverka.
Ástráður Eysteinsson fjallar um tengsl módernismans og framúrstefnunnar með sérstakri skírskotun til verka Kafka. Tengsl Íslands og hinnar sögulegu framúrstefnu eru til umfjöllunar hjá Hubert van den Berg sem gerir grein fyrir tengslum Jóns Stefánssonar og Finns Jónssonar við evrópsku framúrstefnuna og Benedikt Hjartarson færir rök fyrir því að evrópska framúrstefnan hafi haft mótandi áhrif á orðræðuna um íslenska menningu á millistríðsárunum. Þá fjallar Sascha Bru um samband framúrstefnu og stjórnmála og Tania Ørum gerir grein fyrir vandamálum í hugtakanotkun við umfjöllun um framúrstefnuna. Staða okkar gagnvart listinni, fortíðinni og framúrstefnunni er viðfangsefni Halldórs Björns Runólfssonar og Geir Svansson fæst við textagerð Megasar og samband hennar við bókmenntaumræðuna. Þýðingarnar í heftinu eru á tveimur lykiltextum um framúrstefnuna eftir þá Peter Bürger og Hal Foster, en þessir höfundar hafa haft mikil áhrif á umfjöllun um róttækar listastefnur tuttugustu aldar.
Auk hins fræðilega efnis birtast í Ritinu ljóðaþýðingar og myndverk sem tengjast framúrstefnunni. Annars vegar eru það þýðingar fimm ljóða eftir frumkvöðla framúrstefnunnar í Evrópu frá öðrum áratug tuttugustu aldar sem Franz Gíslason þýddi og endurorti, en hann lauk því verki skömmu fyrir andlát sitt í apríl síðast liðnum. Þorsteinn Þorsteinsson fylgir þýðingunum úr hlaði. Hins vegar birtast í heftinu myndverk þriggja íslenskra listamanna sem hafa sterka skírskotun til nýframúrstefnunnar hér á landi, þau Dag Sigurðarson, Megas og Rósku.
Auk texta um framúrstefnu tekur Gauti Kristmannsson upp þráðinn um íslenska málpólitík og svarar grein Kristjáns Árnasonar sem birtist í öðru hefti Ritsins 2005.
Ritstjórar eru Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Ólafur Rastrick.
Líkingar 2/2006
Annað hefti árgangsins 2006 er helgað líkingum. Í heftinu er að finna alls sex frumsamdar greinar, tvær þýddar fræðigreinar, ljóðaþýðingar og myndverk. Fjórar frumsömdu greinanna fjalla um þema heftisins: Bergljót Soffía Kristjánsdóttir prófessor í íslenskum bókmenntum notar greiningu á dróttkvæðum vísum í Gísla sögu til að sýna fram á hvernig nýr skilningur á metafórum getur varpað ljósi á íslenskan miðaldakveðskap; Guðrún Lára Pétursdóttir bókmenntafræðingur gerir grein fyrir því hvernig myndlíkingar birtast í tungumáli læknavísindanna; Ingi Björn Guðnason bókmenntafræðingur fjallar um skáldsögu Rögnu Sigurðardóttur og hvernig umræða um borgina er bundin fjölþættu líkingamáli; loks kannar Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur tengsl líkama og véla, orðræðu sæborgarinnar, og kynjaðar myndir líkingamálsins sem þar birtist.
Að venju birtir Ritið þýddar greinar sem tengjast þemanu. Að þessu sinni eru það greinar eftir bókmenntafræðingana Paul de Man og Margaret H. Freeman. Bæði störfuðu þau við bandaríska háskóla en eru fulltrúar ólíkra hefða; de Man var einn af forsprökkum póst-strúktúralískrar nálgunar í Bandaríkjunum á meðan Freeman þróar í þeirri grein sem hér birtist aðferðafræði sem hún nefnir hugræn skáldskaparfræði.
Auk þemagreinanna birtast í Ritinu greinar eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur bókmenntafræðing og Svan Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði. Alda Björk beitir nálgun sálgreiningar við lestur á Tímaþjófinum eftir Steinunni Sigurðardóttur og Svanur fjallar um hugmyndir Íslendinga um lýðræði á árunum kringum aldamótin 1900 eins og þær birtast í umræðum um kosningar til bæjarstjórna og beinnar kosningar borgarstjóra Reykjavíkur.
Þá birtir Ritið tvö ljóð kanadíska rithöfundarins Michael Ondaatje í þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar og myndverk Hrafnkels Sigurðssonar, Speglað sorp.
Ritstjórar eru Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Ólafur Rastrick.
Stríð og friður 3/2006
Stríð og friður er þema síðasta heftis árgangsins 2006 og nálgast greinahöfundar það frá ólíkum sjónarhornum. Ljósmyndir sem sagnfræðilegar heimildir er meðal viðfangsefna greinar Liz Stanley sem fjallar um lestur sem túlkun á heimildum fortíðar. Greinin er byggð á Minningarfyrirlestri Jóns Sigurðssonar 2006 sem fluttur var á Þriðja íslenska söguþinginu sem haldið var í Háskóla Íslands í maí það ár. Í grein Gunnþórunnar Guðmundsdóttur er arfleifð helfararinnar og heimildagildi vitnisburðarins til skoðunar en hún fjallar um áhrif og afleiðingar falsaðra endurminninga úr útrýmingarbúðum nasista. Rósa Magnúsdóttir beinir sjónum að köldu stríði en þá verða til athyglisverðar hugmyndir og ímyndir um óvininn. Rósa bendir á hvernig viðhorf almennings í Sovétríkjunum til Bandaríkjanna tók breytingunum á mismunandi stigum kalda stríðsins. Að þessu sinni var valinn til þýðingar formáli að afmælisútgáfu bókarinnar Orientalism eftir palestínska bókmenntafræðinginn Edward W. Said. Bókin kom upphaflega út árið 1978, en afmælisútgáfan var gefin út árið 2003 þegar stríðið í Írak var nýhafið. Í formálanum ræðir Said stríðið í samhengi þeirra hugmynda sem hann fjallaði um í verki sínu. Þótt skrif Saids hafi löngum verið umdeild hefur beitt samfélagsrýni hans sem birtist í þessum formála ekki tapað slagkrafti sínum og á enn brýnt erindi við fræði og samfélag. Myndirnar í heftinu eru eftir Christian Boltanski sem er franskur listamaður af blönduðum bakgrunni, en faðir hans var gyðingur sem tók kaþólska trú, og móðir hans var kaþólsk. Boltanski hefur mikið unnið með arfleifð seinni heimsstyrjaldarinnar í sínum verkum – þó alltaf óbeint og eru verk hans því gjarnan kennd við ‚postmemory‛, en það hugtak er einmitt nokkuð til umræðu í þessu hefti.
Í heftinu eru þrjár aðsendar greinar um bókmenntir. Dagný Kristjánsdóttir skoðar höfundarverk Kristínar Ómarsdóttur og þá sérstaklega „kynferði, vald og þunglyndi eins og þau birtast í tungumálinu“ í verkum hennar. Jón Karl Helgason fjallar um skáldsöguna Eftir örstuttan leik eftir Elías Mar sem lést í maí síðastliðnum. Jón Karl setur skáldsöguna í samhengi sjálfsagna eða sögusagna í glöggri greiningu á því hugtaki, sögu þess og tilurð. Magnús Fjalldal kannar þátt enskra heimilda í Gerplu og dregur fram á hvaða hátt Halldór Laxness nýtti sér þær.
Ritstjórar: Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Ólafur Rastrick.