Í tilefni af aldarafmæli fullveldisins hefur hópur fræðimanna rýnt í þýðingu tímamótanna 1918 og hvaða merkingu og áhrif fullveldishugmyndin hefur haft í íslensku samfélagi. Afraksturinn er bókin Frjálst og fullvalda ríki sem Sögufélagið hefur gefið út. Í bókinni eru tíu greinar eftir þrettán höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga, sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum og beina kastljósinu að fullveldishugmyndinni, bæði á alþjóðavísu og í íslenskum stjórnmálum og hvernig fullveldisréttinum hefur verið beitt á Íslandi á 20. öld. Ritstjóri bókarinnar er Guðmundur Jónsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, og auk hans er ritnefndin skipuð þeim Guðmundi Hálfdanarsyni, Ragnhildi Helgadóttur og Þorsteini Magnússyni.
Eftirfarandi greinar eru í bókinni:
- Saga fullveldishugtaksins frá frjálsu fullveldi konungs til fullveldis þjóðar. Guðmundur Hálfdanarson.
- Fullveldi í mótun: Hugmyndir um íslenskt fullveldi frá sjálfstæðisbaráttu til stjórnarskrár Konungsríkisins Íslands. Ragnhildur Helgadóttir.
- Fullveldið í reynd á bernskuskeiði íslenska ríkisins 1918-1940. Guðmundur Jónsson.
- Fullveldishugtakið í íslenskum rétti frá 1918 til samtímans. Skúli Magnússon.
- Ytra fullveldi frá sjónarhóli þjóðaréttur. Bjarni Már Magnússon og Finnur Magnússon.
- Sambandslögin 1918 – lausnin sem gleymdist. Rasnys Gjedssø Bertelsen.
- Framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Útvistun hervarna og túlkanir á fullveldi. Valur Ingimundarson.
- Þátttaka Íslands í Evrópusamrunanum: Afdrif fullveldisins. Baldur Þórhallsson, Eva Dóra Kolbrúnardóttir og Þórunn Elfa Bjarkadóttir.
- Fullveldi Íslands í samstarfi Evrópuríkja. Davíð Þór Björgvinsson.
- Fullveldi Íslands í ljósi hnattvæðingar. Silja Bára Ómarsdóttir.
Bókin var formlega gefin út með hátíðardagskrá í Þjóðmenningarhúsinu 8. nóvember þar sem Einar K. Guðfinnsson, formaður afmælisnefndar, sagði frá tilurð verksins og afhenti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrstu eintökin af bókinni. Bókin Hinir Útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918 var gefin út við sama tækifæri.
[fblike]
Deila