Út er komið ritverkið Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2010. Þar er í fyrsta sinn sögð heildarsaga íslenskrar utanlandsverslunar frá landnámstíð til okkar daga. Leitast er við að segja þessa sögu á lifandi hátt svo að almennir lesendur geti haft af henni gagn og gaman. Kaflar eru fremur stuttir, textinn brotinn upp með rammagreinum og myndefni er ríkulegt. Verkið er í tveimur bindum, alls um 1000 síður, og gefið út af Sagnfræðistofnun og Skruddu. (Hér má skoða myndir sem teknar voru útgáfuhófi bókarinnar).

Í ritinu er fjallað um innflutning og útflutning svo og félagslega, efnahagslega og pólitíska umgjörð utanlandsverslunar. Lesendur finna margt forvitnilegt um framandi kaupmenn og fátæka landsmenn, harðan fisk og mjúka ull, mjöl og öl, brennivín og bjór, við og vax, lýsi og smjör, freðfisk og ál, segl og sjóslys, hafnir og húkkortur, nauðsynjar og neysluvenjur, munað og hungur. Tekið er á áleitnum spurningum í íslenskri sagnfræði og sagt frá ýmsu nýstárlegu efni, m.a. frá verslun Þjóðverja á 16. öld, höfðingjum sem kúguðu alþýðu á 17. öld, áhrifum iðnbyltingar á verslun Íslands, myndun íslenskrar heildsalastéttar, þátttöku Íslands í alþjóðlegu efnahagssamstarfi og áhrifum efnahagskreppunnar 2008 til 2010 á verslun, svo að eitthvað sé nefnt.

Höfundar ritverksins eru sex sagnfræðingar við Háskóla Íslands, þau Anna Agnarsdóttir, Gísli Gunnarsson, Guðmundur Jónsson, Halldór Bjarnason (d. 2010), Helgi Skúli Kjartansson og Helgi Þorláksson. Ritstjóri er Sumarliði R. Ísleifsson.

Þrír af aðstandendum bókarinnar Líftaug landsins færðu forseta Íslands nýverið eintak af bókinni og var þá meðfylgjandi mynd tekin á Bessastöðum. Auk forseta eru á myndinni talið frá vinstri, Ragnheiður Kristjánsdóttir, forstöðumaður Sagnfræðistofnunar, Sumarliði R. Ísleifsson ritstjóri og Helgi Þorláksson, einn höfunda.

Um höfundinn
Guðmundur Hörður Guðmundsson

Guðmundur Hörður Guðmundsson

Guðmundur Hörður Guðmundsson er kynningar- og vefstjóri Hugvísindasviðs HÍ. Sjá nánar

[fblike]

Deila