Í fréttum undanfarið hafa stjórnmálasamtök verið gagnrýnd fyrir myndnotkun af opinberu listaverki — Sólfari Jóns Gunnars Árnasonar — í kynningarefni sínu og auglýsingum. Erfingjar listamannsins telja að með umræddri notkun sé verið að brjóta á höfundarétti Jóns Gunnars. Aðstandendur Flokks fólksins telja sig hinsvegar í fullu leyfi þegar þeir nota mynd af Sólfarinu í auglýsingum sínum og kynningarefni. Hér snýst málið, út frá höfundarlögum, um hvort leyfilegt sé að nýta myndir af opinberum verkum á þennan hátt, án leyfis og án þess að greiða fyrir það.
Í umræðunni um notkun mynda af Sólfarinu hefur verið rætt um hvort leyfilegt sé að taka mynd af verkinu og nota í eigin þágu. Formaður flokksins sagðist eiga myndina og því mega nota hana eins og henni þykir henta. Þar hefur hún rangt fyrir sér, þ.e.a.s. ef við lítum til þess að á umræddri mynd er verkið það áberandi að telja má að það sé meginatriði myndarinnar.
Það er skýrt í höfundarlögum að ef ljósmyndari tekur mynd af verki þannig að ekkert annað en verkið er á myndinni, þannig að augljóst er að myndin er af verkinu sjálfu, þá getur höfundur ljósmyndarinnar ekki krafist neins réttar af birtingu myndarinnar — rétturinn liggur allur hjá höfundinum. Þetta er einfalt þegar um er að ræða mynd af málverki eða einhverju slíku. Þetta er nokkuð flóknara þegar myndin er af þrívíðu verki, höggmynd eða innsetningu. Þá geta auðveldlega komið upp álitamál um hvort myndin sé gerð sérstaklega af verkinu sjálfu, eða hvort verkið sé einungis hluti stærri heildar — sem þá teldist sérstakt höfundarverk. Í því tilviki sem um ræðir, vegna þess að listaverkið er í algjörum forgrunni á myndinni, má álykta að myndin sé af verkinu. Það þýðir að ljósmyndarinn á ekki höfundarétt að myndinni. Það þýðir hinsvegar ekki að hann megi ekki nota hana. Sú notkun er nokkuð víðtæk, en þó háð takmörkunum.
Í 16. grein höfundarlaga þar sem þetta kemur skýrt fram að heimilt sé: „að taka og birta myndir af byggingum, svo og listaverkum, sem staðsett hafa verið varanlega utanhúss á almannafæri.“ Þetta er nokkuð skýr heimild, en henni eru þó settar vissar skorður, því hún á ekki við ef verkið er „aðalatriði myndar, sem hagnýtt er til markaðssölu.“ Þannig er ljóst að það má taka myndir af opinberu listaverki og birta hana án þess að borga fyrir það, ef það er ekki gert til „markaðssölu“.
Af þeirri umræðu sem uppi hefur verið undanfarna daga um Sólfarið má draga þá ályktun að það sé á þessum nótum sem ættingjar Jóns Gunnars séu að gagnrýna myndbirtingar Flokks fólksins. Þeir telja að vegna þess að flokkurinn sé að nota mynd af verkinu í kynningarstarfi sínu og auglýsingum eigi þeir að biðjast leyfis — ættingjar Jóns Gunnars telja að það að auglýsa stjórnmálasamtök sé í reynd „markaðsstarf“ í skilningi laganna, eða eins og haft er eftir Þorbjörgu Jónsdóttur, sem „markaðssetning fyrir pólítíska hugmyndafræði“.
Hér liggur hundurinn grafinn, í þeirri hugmynd að stjórnmálakynning falli undir skilgreiningu á markaðsstarfi. Í lögum um höfundarétt er tekið fram að myndbirting sé heimil í sambandi við „gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi“. Á því má skilja að „markaðsstarf“ þurfi að skilgreina þröngt út frá markmiðum viðskipta. Það fæli því í sér að það snúist um það að selja vöru eða þjónustu, vegna fjárhagslegs ábata. Fyrir slíka myndbirtingu þarf að greiða þóknun, meira að segja þótt myndin sé af opinberu listaverki. Stjórnmálastarf er á hinn bóginn starfsemi fólks í þágu almannahagsmuna, sem fellu undir „almenna kynning“ og „annan viðurkenndan tilgang“.
Því eru takmarkanir settar hvernig Flokkur fólksins má nota þær myndir sem félagar hans hafa tekið af Sólfarinu. Hann má ekki selja þær beint á neinn hátt eða nota þær í kynningarefni fyrir vöru eða þjónustu. Flokkurinn er á hinn bóginn í fullum rétti til að nýta myndirnar, eins og hann gerir, í almennri kynningu. Vettvangur stjórnmála er, í skilningi höfundarlaga, almennur og myndbirting á þeim vettvangi er viðurkenndur tilgangur.
[fblike]
Deila