Birtingarmyndir borga í bókmenntum Rómönsku Ameríku

Stórborgarsamfélög Rómönsku Ameríku gegna gjarnan lykilhlutverki í bókmenntum álfunnar. Gríðarlega útþensla stærstu borgar álfunnar, eins og Búenos Aires-borgar í Argentínu, Bógóta-borgar í Kólombíu, Mexíkóborgar, Saó Páló-borgar í Brasilíu eða Santíago-borgar í Síle, má rekja til síðbúinnar iðnvæðingar og umfangsmikilla fólksflutninga af landsbyggðinni í kjölfarið. Þekktustu bókmenntaverk álfunnar sem finna má í íslenskum þýðingum og beina sjónum að borgarmyndun eru án efa skáldsögur Gabriels García Márquez, Hundrað ára einsemd, í þýðingu Guðbergs Bergssonar og Hús andanna, eftir Isabellu Allende, í þýðingu Thors Vilhjálmssonar.[1] Umrædd bókmenntaverk hafa í 30 ár verið umfangsmiklir áhrifavaldar um ímyndarsköpun álfunnar hér á landi og athyglisvert að skoða hvað þau segja okkur um birtingarmyndir borga og þau samfélög sem þar er að finna.[2]

Sé sjónum fyrst beint að Hundrað ára einsemd má halda því fram að þar sé byggða- og þróunarsaga álfunnar rakin frá tímum landafunda til miðrar 20. aldar og að sögusviðið sé þorpið Macondo. Í upphafi er um að ræða óskipulagða húsaþyrpingu á fenjasvæði þar sem fátt markvert gerist nema fyrir tilstuðlan heimsókna gesta sem koma annars staðar frá, hvort heldur sem í hlut eiga sígaunar, sirkusar, farandgleðikonur eða erlendir ævintýramenn. Breytingar á mannlífi staðarins verða fyrst umtalsverðar þegar ráðist er í sýkjagerð og bátakomur verða algengar. Síðar mótast þær af lagningu „gulu járnbrautarinnar“,[3] og til Macondo koma vatnamælingamenn, kaupmenn, og vísindamenn eins og „Míster Herbert“,[4] og fulltrúi United Fruit Company, herra Jack Brown. Lífið í þorpinu sem orðið er að tug þúsund manna bæjarfélagi snýst um það sem gerist hérna megin eða hinum megin við brautarteinana og Tyrkjagötunnar svokallaðrar, þ.e. verslunargötu sem til verður meðfram járnbrautarteinunum.

Aðgreiningin hefur áhrif á íbúasamsetningu, rétt eins og samskiptin og bæjarbragurinn taka stakkaskiptum. Í takt við framsetningu Enrique del Acebo Ibáñez, í bókinni Félagsfræði rótfestunnar: Kenningar um uppruna og eðli borgarsamfélagsins (2007); „mótast yfirbragð bæjarins af verkum einstaklinganna sem þar búa og samfélagsins alls, þó ekki án raunverulegra aðalleikara.“[5] United Fruit verður einn þessara aðalleikara og áhrif alþjóða- og iðnvæðingar skapa spennu og vaxandi átök. „Bananaæðið“[6] – eins og Guðbergur þýðir það – heltekur bæjarbraginn þar til uppúr sýður og 3000 manns liggja í valnum.[7] Í verki García Márquez fylgjumst við þannig náið með byggðaþróun Macondo en fáum takmarkaðar fréttir af hversdagslífi íbúa borgarinnar, nokkuð sem Isabel Allende bætir lesendum upp í skáldsögu sinni Húsi andanna. En þar deilir hún því hvernig líf yfirstéttarinnar líður fram í Santíagó, höfuðborg Síle, á fyrri hluta tuttugustu aldar:

Þeir ríku skemmtu sér við að dansa charleston og við nýja hrynjandi djassins, foxtrott og negra-cúmbíu sem var yndislega laus við allt velsæmi. Nú tókust aftur skipaferðir til Evrópu sem höfðu legið niðri stríðsárin fjögur, og það varð líka tízka að sigla til Norður-Ameríku. Nýlunda golfsins barst og safnaði saman fínasta fólkinu til þess að lemja smábolta með kylfu, eins og indjánarnir höfðu gert tvöhundruð árum áður á þessum sömu stöðum.[8]

Hins vegar gerðist það í dreifbýlinu að:

[…] þar voru nýju bílarnir jafn fjarlægur veruleiki og stuttir kjólar, og þeir sem komust hjá sniglaplágu og gin- og klaufaveiki töldu þetta gott ár. Esteban Trueba og aðrir landeigendur héraðsins komu saman í klúbbhúsinu í þorpinu til þess að ráðgera pólitískt starf fyrir kosningarnar. Enn lifðu bændurnir sams konar lífi og á nýlendutímanum og höfðu ekki heyrt talað um verkalýðsfélög, né frí á sunnudögum, hvað þá lágmarkslaun.[9]

Trueba og konurnar í lífi hans, Clara (sem skrifar söguna), Blanca og Alba, búa í „stóra húsinu á horninu“[10] þar sem allt er til alls og samkvæmislífið blómstrar. Kristalsljósakóróna hangir í stássstofunni, fyrirmannlegt bókasafn geymir dýrgripi og þung mahóníhúsgögn príða herbergin sem eru mörg. Í húsinu er lifað „siðmenntuðu lífi.“[11] „Hvenær sem þurfti að hýsa nýjan gest komu sömu múrararnir á vettvang og bættu nýju herbergi við. Þannig varð stóra húsið á horninu líkast völundarhúsi.“[12]

Lífið hverfist um borgarlíf á vetrum og sveitarlíf á búgarði fjölskyldunnar á sumrum, og það er fyrst þegar barnabarn Trueba kemst á unglingsár að umrædd tvískipting tilverunnar rofnar og myndir af úthverfum borgarinnar þröngva sér inn í skipulagið – um leið og óskilgetinn sonur öldungardeildarþingmannsins skýtur upp kollinum.[13] Nýtt tímabil hefst í lífi fjölskyldunnar og samfélagsins – í stjórnmálum, atvinnuháttum og borgarskipulagi. Hefðbundin aðgreining landsbyggðar og borgar líður undir lok. Iðnaðaruppbyggingin verður allsráðandi og til verða svokölluð „verkamannaúthverfi“. Þar standa lítil „timburhús, án annarra húsgagna en gormagrinda á fótum með dýnu, trékollar og kassar fyrir borð.“[14] Þegar fréttir berast af falli Allende forseta árið 1973 segir Allende í bók sinni: „Í snyrtilegum húsunum í Háhverfinu voru flöskurnar opnaðar sem höfðu staðið og beðið í þrjú ár, og skálað fyrir nýjum lögum og reglu. Yfir verkamanahverfunum sveimuðu alla nóttina þyrlur, suðandi eins og flugur úr öðrum heimum.“[15]

Aðgreining okkar og hinna ræðst ekki lengur af borg eða sveit, þéttbýli og dreifbýli, heldur skiptist eftir hverfum og þau standa hvert gegnt öðru, horfast í augu, en ræðast varla við. Stéttskiptingin er rótgróin og ekkert haggar valdastöðu yfirstéttarinnar. Verkamannastéttin kemur sér fyrir í útjaðri borganna og myndar einskonar kraga eða svamp milli bænda og aðalsmanna og það er þar sem fjöldasamtök af ýmsum toga spretta upp og róstur sjöunda áratugarins á hér uppruna sinn.

Miðsókn valds, sem Acebo gerir að umtalsefni, og tákngerist í valdatöku Pinochet, hefur áhrif á útþenslu jafnt sem samdrátt Santíagóborgar. „Fjöldamenningin“ sem hann kallar svo er í stórborgunum aðgreind eftir hverfum og hverfin eru aðskilin með síkjum, breiðstrætum eða járnbrautarteinum. Hlutverk tiltekinna rýma mótast af íbúunum – efnahag þeirra og aðstæðum. Ójöfnuðurinn og menningarmunurinn, eins og Acebo bendir á, getur af sér öfgakennda einstaklingshyggju. Í skáldsögu Allende birtist hún í ofbeldinu sem óskilgetinn sonur landeigandans beitir frænku sína. Hrottaskapurinn sprettur af því að vera utanveltu. Hver hugsar um sig.

Umræddar skáldsögur staðfesta ríkjandi ímyndir um stórborgina. Annars vegar  sem net skipulagðra og vel hannaðra breiðstræta og flækjuverk sjálfsprottinna íbúakjarna hins vegar. Þær veita lesendum innsýn í líf þeirra sem þar búa. Fjölmenningalegt samfélag sem mótast af tortryggni og óreiðu. Í því samhengi er vert að benda á skáldsöguna Verndargrip (sp. Amuleto, 1999), eftir Roberto Bolaño, sem nýverið kom út í þýðingu Ófeigs Sigurðssonar.[16] Þar bregður höfundur upp myndum frá höfuðborg Mexíkó, stórborginni „Ciudad de México“.[17] Kaffihúsin á Insurgentes breiðgötunni eru „yndislegir staðir og dýrir“ og hluti af „völundarhúsi Mexíkóborgar“ sem sögumaður hefur ekki villst í síðan 1968.[18] Hún, Auxilio,[19] „reikar um strætin og eltir sinn ómannblendna skugga. Hún heimsækir staði í Bleika hverfinu (sp. Zona Rosa) og bar við Varsovia-götu sem sérhæfir sig í „ostum og víni.“[20] Öðrum degi lýkur í „greni í Guerrero-hverfi“ og með ítölskum ástmanni ráfar hún um la Villa, „heimsækir Coyoacán, kemur við á Tlatelolco torgi, fer að hlíðum Popocatépetl [og] til Teoticuacán.“[21]

Í verki Bolaño mynda breiðstræti samskonar skurðpunkta á milli hverfa og sjást á mynd Serge Comte á forsíðu síðasta heftis Ritsins (2/2018).[22] Höfundurinn kemur aftur og aftur að tilteknum miðpunkti, Tlatelolco torgi, í frásögn sinni frá Mexíkó.[23] Auxilio er eldri en háskólanemarnir sem hún lýsir sem „kynslóð beint úr opnu sári Tlatelolco, eins og maurar eða söngtifur eða eins og gröftur, en þau höfðu hvorki verið í Tlatelolco né í nokkurri 68-baráttu, krakkar sem voru ekki byrjaðir í framhaldsskóla þegar ég var læst inni í háskólanum í september 68.“[24] „Þau koma úr neðanjarðarlestarkerfinu, úr undirheimum Mexíkóborgar, úr holræsakerfinu […] þetta voru ræsisbörn“[25] og með því vísar hún til þess að þau koma annars staðar frá – úr flækjuverki ógnandi öngstræta – úr óskipulagðri óreiðu úthverfa sem halla sér upp við fátækrahverfin sem mynda ystu byggðir borgarinnar.

Aðgreining umræddra heima reglu og óreiðu bregður best fyrir í kafla þar sem sögupersónur verksins sitja sem endranær á bar nærri heimspekideild UNAM háskólans, reykja, drekka, rökræða og ráða lífsgátuna.[26] Alterego höfundarins, ungskáldið Arturito, frá Síle, ákveður að tími sé kominn til að lækka rostann í helsta hórumangara Guerrero-hverfis og þau leggja af stað gangandi.

Og ég elti þá – segir Auxilio: ég sá þá ganga léttum skrefum eftir Bucareli að Reforma og síðan sá ég þá fara yfir Reforma án þess að bíða eftir grænu ljósi, báðir með sítt hár sem feyktist í næturvindinum […], síðan byrjuðum við að ganga eftir Guerrero-götu en Guerrero-hverfið líktist kirkjugarði, kirkjugarði árið 2666, kirkjugarði gleymdum undir dauðu eða ófæddu augnloki, ástríðulausu vatnsmagni í auga sem vildi gleyma einhverju en endaði með því að gleyma öllu. […] Og þá höfðum við þegar farið yfir Alvarado-brúna og höfðum séð glitta í síðustu mannmaurana sem ráfuðu í skjóli myrkursins í San Fernando-garðinn, og ég byrjaði þá að verða verulega taugaóstyrk vegna þess að frá og með þessu augnabliki gengum við satt að segja inn í ríki konungs karlhóranna sem hinn glæsilegi Ernesto (sonur hinnar vinnandi stéttar í Mexíkóborg) óttaðist svo mjög.[27]

Og rétt eins og járnbrautarteinar Macondo, í Hundrað ára einsemd, stóra húsið á horni tveggja breiðstræta í Húsi andanna, kemur Guerrero-gata aftur og aftur fyrir í verki Bolaño sem táknmynd aðgreiningar milli tiltekins heims og annars. Hún verður að óstaðfestum landamærum sem Auxilio getur farið yfir því hún er ekki þaðan. Hún kemur jú frá Úrúgvæ. Hún tilheyrir engri stétt, engum samfélagshópi nema e.t.v. drykkfelldum bóhemum og henni er boðið í hús beggja vegna. Borgarmyndir stórborga Rómönsku Ameríku, eins og þær birtast í bókmenntum samtímans, snúast þannig um tiltekin hverfi. Breiðstrætin aðgreina sögusviðin, aðskilja múginn frá aðalleikurunum og staðfesta orð Richard Lehan um að rétt eins og „bókmenntir ljáðu veruleika borganna lífi, urðu uppstokkanir borgarsamfélagsins til þess að umbreyta bókmenntunum.“[28]

Heimildir:

  1. Isabel Allende, Hús andanna, þýðing Thor Vilhjálmsson, Reykjavík: Mál og menning, 1987. Gabriel García Márquez, Hundrað ára einsemd, þýðing Guðbergur Bergsson, Reykjavík: Mál og menning, 1987.
  2. Til frekari upplýsinga sjá t.d.; Hólmfríður Garðarsdóttir, „Kvenlegar ásýndir Rómönsku Ameríku“, Ritið, 2/2005, bls. 63-80.
  3. Gabriel García Márquez, Hundrað ára einsemd, bls. 196.
  4. Sama rit, bls. 197.
  5. Enrique del Acebo Ibáñez, Félagsfræði rótfestunnar. Kenningar um uppruna og eðli borgarsamfélagsins, ritstj. Helgi Gunnlaugsson og Hólmfríður Garðarsdóttir, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2007, bls. 26.
  6. Gabriel García Márquez, Hundrað ára einsemd, bls. 198.
  7. Sama rit, bls. 268- 269.
  8. Isabel Allende, Hús andanna, bls. 70.
  9. Sama rit, bls. 71.
  10. Sama rit, bls. 126.
  11. Sama rit, bls. 177.
  12. Sama rit, bls. 223.
  13. Sama rit, bls. 285-286. Til frekari upplýsinga sjá skrif Simon Parker, Urban Theory and the Urban Experience: Encountering the City, London: Routledge, 2004.
  14. Isabel Allende, Hús andanna, bls. 226.
  15. Sama rit, bls. 367.
  16. Roberto Bolaño, Verndargripur, þýðing Ófeigur Sigurðsson. Selfoss: Sæmundur, 2016. Til upplýsinga sjá: https://www.forlagid.is/vara/verndargripur/ og https://hugras.is/2016/11/synisbok-um-hofundareinkenni-roberto-bolano/ (sótt í september 2018).
  17. Til frekari upplýsinga sjá t.d. https://www.britannica.com/place/Mexico-City (sótt í september 2018).
  18. Roberto Bolaño, Verndargripur, bls. 49 og 50.
  19. Nafn hennar útskýrir höfundur og segir það merkja „aðstoð, hjálp, vernd, úrræði“ (bls. 69). Aðalpersónu Bolaño, flandrarann Auxilio, má skilja sem kvenfrelsandi aðalleikara sem hefur mótandi áhrif á umhverfi sitt.
  20. Roberto Bolaño, Verndargripur, bls. 53.
  21. Sama rit, bls. 68 og 58.
  22. Sjá: https://ritid.hi.is/index.php/ritid/issue/view/4 (sótt í september 2018).
  23. Um fjöldamorðin á Tlatelolco torgi árið 1968 má m.a. lesa á: https://www.britannica.com/topic/Tlatelolco-massacre (sótt í september 2018).
  24. Roberto Bolaño, Verndargripur, bls. 79.
  25. Sama rit, bls. 80.
  26. UNAM (Universidad Nacional Autónoma de México). Um flaggskip mexíkóskra háskóla er að ræða.
  27. Roberto Bolaño, Verndargripur, bls. 88. Vert er að benda á skrif Janet Wolff um „flandrara“ í borgarsamfélögum. Með hugtakinu vísar hún til þeirra sem tilheyra engum tilteknum stað, eiga sér ekki rætur, en þjóna því hluverki að tengja, bera fréttir, horfa, skoða og ígrunda. Sjá t.d. grein hennar „The Invisible Flaneuse: Women and the Literature of Modernity“. Theory, Culture and Society 3 /1985, bls 37-46.
  28. Richard Lehan, The City in Literature: An Intellectual and Cultural History, Berckley: U of California Press, 1998, bls. xv. Þar segir:„literature gave imaginative reality to the city, urban changes in turn helped transform the literary text“.
Um höfundinn
Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku og um þessar mundir vinnur hún að nýrri bók um málefni minnihlutahópa við Karíbahafsströnd Mið-­Ameríkuríkja. Sjá nánar

[fblike]

Deila