Tvær greinar í heftinu falla utan þemans. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir fjallar um fyrsta hluta ljóðabókarinnar Við sem erum blind og nafnlaus eftir Öldu Björk Vilhjálmsdóttur í grein sinni „Orðin laðast að henni / eins og skortur“. Ljóðin, fimm talsins, eru greind með nálestri og tengd við fræðiefni úr ýmsum áttum, m.a. hugræn fræði. Greiningin varpar ljósi á að í ljóðunum felst skarpur gagnrýnisbroddur og sýnir fram á skírskotanir til margs í umhverfi okkar og samtíma; umhverfisvár, stöðu kvenna og fleira.
Í greininni „„Ég elti auðinn til Evrópu“: Sögur af fólki á flótta, innflytjendum og „ólöglegum“ einstaklingum“ fjallar Kristín Loftsdóttir um flókið og aðkallandi efni, sem segja má að sé eitt helsta hitamál og úrlausnarefni samtímans, flóttamannavandann. Kristín dregur fram reynsluheim og viðhorf fólks sem oftast er fjallað um sem nafnlausan fjölda og gerir að umtalsefni hvernig flokkun þess í náttúrugerða hópa getur falið í sér afmennskun og einföldun á aðstæðum þeirra. Efnið er bæði sett í alþjóðlegt og íslenskt samhengi.
Enn fremur birtast í þessu hefti þýðingar, sem venju samkvæmt tengjast þemanu. Fyrsta ber að telja þýðingu Ásdísar Rósu Magnúsdóttur á textabrotum úr Dagbók Parísarbúa. Um er að ræða dagbókarfærslur frá tímum hundrað ára stríðsins svokallaða. Óþekktur höfundur gerir grein fyrir aðstæðum íbúa borgarinnar á miklum umbrotatímum. Hann gerir grein fyrir þeim erfiðleikum sem óöld og stríðsátök hafa í för með sér fyrir almenna borgara, segir frá bardögum, mannfalli og áhlaupum, og dregur upp myndir af daglegu lífi borgarbúa. Skortur á nauðsynjavörum og þrálátar áhyggjur af hækkandi kostnaði neysluvara mynda eins konar leiðarstef í skrifum höfundar.
Einnig er í heftinu að finna þýðingar á kvæði Vilhjálms frá Skáholti „Ó borg, mín borg“. Kvæðið varð einskonar einkennissöngur Reykjavíkur um miðja 20. öld þegar Haukur Morthens gerði það ódauðlegt í flutningi sínum. Fyrst birtist frumtextinn og því næst þýðingarnar hver á fætur annarri í stafrófsröð, á dönsku, ensku, frönsku, ítölsku, rússnesku, spænsku og þýsku, og að lokum á íslensku táknmáli en vegna ólíks miðlunarháttar táknmála er sú þýðing á myndbandi. Rafræn útgáfa Ritsins gerir okkur kleift að birta í fyrsta sinn „texta“ sem miðlað er á þennan hátt.
Þemaritstjóri heftisins er Hólmfríður Garðarsdóttir en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Sverrir Sveinsson sá um umbrot og Lúther Jónsson um prófarkarlestur. Myndband með táknmálsþýðingu á ljóði er unnið af Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Kápumyndin er eftir listamanninn Serge Comte.[/cs_text]
Deila