Fuglabjargið

Í Leikhús, Rýni höf. Brynja Þorgeirsdóttir

Fyrsta frumsýning ársins í Borgarleikhúsinu er undurfallegt nýtt íslenskt tónleikhúsverk, Fuglabjargið. Þó að verkið sé auglýst sem barnasýning höfðar það ekki síður til fullorðinna og raunar allra aldurshópa.

Sýningin smellpassar á litla svið Borgarleikhússins. Þar var setið í öðru hverju sæti á frumsýningunni 9. janúar vegna sóttvarnarreglna og nánd áhorfenda við sviðið er mikil.

Sýningin er stutt, tekur aðeins klukkustund, en á þessari klukkustund fáum við að fylgjast með samfélaginu í fuglabjarginu á eyjunni Skrúð yfir sumar, haust, vetur og vor. Fuglar eru auðvitað skemmtilegir og fyndnir í eðli sínu, en þarna tekst handritshöfundinum Birni Jóni Sigurðssyni og leikstjóranum Hallveigu Kristínu Eiríksdóttur að draga vel fram og ýkja sérkenni þeirra og sniðugheit.

Við fylgjumst með hinum fima dýfingameistara súlunni, hinum prestlega lunda sem lendir stundum klaufalega úr ógnarhröðu aðflugi sínu, langvíuunganum ófleyga sem þarf að safna hugrekki til að stökkva úr hreiðrinu tugi metra, og hrafninum skuggalega og tignarlega sem rænir eggjum annarra til að bjarga lífi sinna eigin unga. Sjálfskipuð stjarna sýningarinnar er skarfurinn, spjátrungur með „scarf“ sem þykist vera skyldur pelíkananum og ætlar sér að fara úr landi á hverju hausti en gerir það auðvitað aldrei, enda staðfugl. Svo átti hafassan tignarlega innkomu.

Líf fuglanna er tjáð í gegnum söng, dans og leiktexta, og framúrskarandi fallega tónlist Ingibjargar Ýrar Skarphéðinsdóttur, sem í vor hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist, og Ragnheiðar Erlu Björnsdóttur. Fuglahljóð og önnur náttúruhljóð eru látin renna saman við heildarhljóðmyndina. Meðal söngatriða eru nokkur mjög eftirminnileg númer, svo sem söngur litla ungans til pabbans sem hafði yfirgefið hreiðrið og skilið afkvæmið eitt eftir, eins og lífsins gangur í fuglabjarginu gerir ráð fyrir.

Tónlistarfólk, leikarar og söngvarar sýningarinnar flytja verkið af mikilli fimi. Mest mæðir á Viktoríu Sigurðardóttur (súla, haftyrðill, langvía), Ragnari P. Jóhannssyni  (skarfur) og Björk Níelsdóttur (lundi, hrafn). Með fjölhæfni sinni í söng og leik unnu þau áhorfendur algerlega á sitt band. Öll leika þau svo æðarfugla, hin bráðfyndnu úú-andi partýdýr fuglabjargsins.

Hljómsveitin er á svölunum beint fyrir ofan sviðið sem skapar lóðrétta tilfinningu snarbratts bjargs í salnum. Rigningin var hugvitsamlega gerð og flæðandi blár sjórinn einnig. Jarðlitaðir púðar á sviðinu eru notaðir til að mynda hreiður og annað sem þarf en voru stundum óþarflega mikið að þvælast fyrir leikurunum. Skiptingar fara margar fram fyrir augum áhorfandans, þar sem leikarar fóru stundum úr einu vesti og í annað og þá var kominn nýr fugl. Raunar eru fallegir búningar Sólveigar Spilliaert sérlega sniðugir og drógu persónueinkenni hverrar fuglategundar skýrum dráttum. Dýfingameistarinn súlan er til dæmis í glansandi hvítum sundbol með sundhettu og glæsilega vængi. Lundinn er með pípukraga og röndóttan trefil. Æðarfuglinn er í síðu hvítu dúnvesti. Hún var átakanleg senan sem endaði með því að pínulitla unga-dúnvestið er auglýst ónotað til sölu.

Verkið flæðir fagurlega í styrkum höndum þessa fjölhæfa listhóps sem skilar fallegri og vandaðri sýningu.

Það má benda foreldrum á að lesa með börnunum um fuglana í leikskrá verksins fyrir sýningu. Þar er fljótlesin kynning á fuglunum sem auðveldar börnunum að átta sig á hver er hvað og skilja það sem fram fer á sviðinu.

Um höfundinn
Brynja Þorgeirsdóttir

Brynja Þorgeirsdóttir

Brynja Þorgeirsdóttir er blaðamaður og bókmenntafræðingur. Hún starfar sem nýdoktor við rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum.

Deila