Huldukona í íslensku tónlistarlífi

Í Fréttir, Umfjöllun höf. HugrásLeave a Comment

RosaGudrunSveinsdottirRósa Guðrún Sveinsdóttir er ekki landsþekkt meðal Íslendinga en hefur þó lengi verið þátttakandi í íslensku tónlistarlífi. Ég hef tekið eftir henni á tónleikum út um allan bæ, annað hvort í forgrunni með hljómsveitum eða í bakröddum hjá hinum ýmsu flytjendum. Auk þess má gjarnan sjá hana á sviði grípa í gítar, flautu og saxófón eins og ekkert sé sjálfsagðara en að ein manneskja kunni á öll þessi hljóðfæri. Þegar ég komst að því að nú hefði Rósa gefið út sinn fyrsta geisladisk með eigin efni, Strengur Stranda, varð ég að spjalla við hana og kynnast betur þessari áhugaverðu konu. Við hittumst á köldum þriðjudagsmorgni á kaffihúsi á Laugavegi og drekkum saman te.

„Ég er frá Akranesi og er vandræðalega nálægt fertugu,“ segir Rósa þegar ég bið hana um að segja mér svolítið frá sjálfri sér. Hún bætir svo við með glotti: „Þarftu að hafa það með?“ Ég hóta henni í gamni að hafa aldur hennar inn í sviga í anda Séð og heyrt og hún er fljót að segjast hafa verið að ýkja, hún sé bara nýorðin 34 ára.

Þrátt fyrir að einhverjir í fjölskyldu Rósu séu músíkalskir segist hún ekki beint koma úr tónlistarfjölskyldu. Það hafi samt æxlast þannig að þrjú systkini hennar spila á bassa og eitt á klarinett. Sem barn hafði hún ekki sérstakar tónlistarfyrirmyndir í fjölskyldunni en komst þó að því á fullorðinsárum að afi hennar var lunkinn flautuleikari. Sjálf hóf hún tónlistarnám níu ára gömul.

„Ég byrjaði á píanó en svo hætti ég því fljótlega. Ellefu ára fór ég svo að læra á flautu og var á flautu alveg fram yfir tvítugt. Ég fór meira að segja til Reykjavíkur í tónlistarskóla með það markmið að gerast flautukennari. Svo langaði mig til að breyta til og skráði mig í líffræði.“

Aðspurð hvernig hafi staðið á þessum viðsnúningi svarar Rósa: „Mér hefur alltaf fundist líffræði áhugaverð, sérstaklega örverulíffræði. Ég fór út til Svíþjóðar í skiptinám og tók Bachelor of Honours gráðu sem er nokkurs konar hálf mastersgráða. Eftir það fór ég í heimsreisu og svo fór ég að læra söng. Sá draumur hafði lengi blundað í mér. Ég vann í Tónastöðinni í tíu ár með skóla frá því að ég kom til Reykjavíkur og var alltaf innan um tónlistarfólk, sérstaklega djassara. Ég fór í FÍH og útskrifaðist þar af söngnámsbrautinni árið 2012. Ég er enn að læra á saxafón í FÍH. Ég hætti aldrei,“ segir Rósa og hlær.

Þegar talið berst að hljóðfærakunnáttu hennar svarar Rósa af hógværð: „Ég get alveg glamrað eitthvað á píanó. Svo spila ég opinberlega á gítar þótt ég sé ekki gítarleikari og já, svo er það saxófónninn og flautan.“

Rósa byrjaði ekki að læra á saxófón fyrr en undir lok menntaskólaáranna. Þegar ég hvái við og spyr hvort maður þurfi ekki helst að byrja fjögurra ára í hljóðfæranámi er Rósa fljóta að svara: „Algjörlega ekki. Það var lúðrasveit á Akranesi en mig langaði ekki að vera flautuleikari þar því það voru svo margir fyrir. Ég prófaði tenórsax en skipti svo yfir í baritónsax sem ég spila núna á.“

Fyrir tilviljun heyri ég að á kaffihúsinu er byrjað að hljóma létt djasslag með saxófóni í aðalhlutverki og mér verður hugsað til þess þegar ég sá Rósu fyrst á sviði munda baritónsaxinn sinn innan um hafsjó af karlkyns blásurum. Mér fannst hún ótrúlega töff á sviði og óskaði þess að fleiri konur myndu brjóta þessi ósýnilegu og óskilgreindu mörk milli stráka- og stelpnahljóðfæra. Ég vissi ekki þá að Rósa er líka efnilegur lagasmiður. RosaPlata

„Í FÍH er svolítið skemmtileg hefð, en þó ekki skilyrði, að hafa frumsamið efni á burtfarartónleikum. Ég var bara með eigið efni á mínum burtfarartónleikum og nokkuð stórar útsetningar, til dæmis strengjakvartett í sumum lögunum,“ segir Rósa. „Ég sótti svo um að spila á Djasshátíð árið 2013, bætti strengjakvartett við fleiri lög og samdi líka nokkur lög í viðbót. Þá var ég nokkurn veginn komin með plötuna. Mörg þeirra sem spiluðu á djasshátíðinni spila líka á plötunni.“

Erfitt er að draga tónlist Rósu í tiltekinn dilk en djassbakgrunnur plötunnar gefur þó einhverja vísbendingu um eðli laganna. Kannski myndi Strengur Stranda helst flokkast undir það sem kallað hefur verið „framsækið fullorðinspopp“ en í þann flokk fellur til dæmis tónlist færeysku söngkonunnar Eivarar. Útlit plötunnar og flestir textarnir vísa til náttúrunnar og þrátt fyrir að Rósa játi því að vera að einhverju leyti náttúrubarn þá segir hún Svein pabba sinn hafa átt stóran þátt í að skapa þetta þema fyrir plötuna. Heiti plötunnar er til að mynda innblásið af æskuslóðum Sveins.

„Á tónleikum hafði ég flutt efnið með enskum texta eftir sjálfa mig en beðið pabba að semja íslenska texta við tvö lög. Hann er svolítið gamaldags og notar stuðla og höfuðstafi og fannst erfitt að semja texta við óhefðbundnu laglínurnar en svo gekk þetta svo vel að ég ákvað að færa öll lögin yfir á íslensku. Einn textinn er nokkurs konar þýðing á enska textanum en annars vann hann sjálfstætt. Ég stakk reyndar stundum upp á yrkisefni, lét hann vita hvað ákveðið lag minnti mig á og hann vann út frá því. Pabbi er frá Dröngum í Árneshreppi á Ströndum og þaðan koma sumar náttúrutengingarnar í textunum.“

Margir tónlistarvinir Rósu lögðu sömuleiðis hönd á plóg við gerð plötunnar, meðal annars meðlimir úr hljómsveit hennar Robert the Roommate, semog fólk sem hún kynntist í gegnum störf sín hjá Tónastöðinni og í náminu. Sjálf semur hún öll lögin á plötunni, syngur þau og spilar á bæði saxófón og flautu, auk þess að útsetja. Við þetta má bæta að Rósa gefur plötuna út sjálf. Henni finnst þægilegt að vera ekki háð útgáfufyrirtæki og finnst nóg að leita til þeirra varðandi dreifingu á efni.

Rósa viðurkennir fúslega að í þessari ákvörðun felst heilmikill kostnaður: „Þetta kostar helling. Maður fer ekki í tónlistarbransann til að verða endilega ríkur. En ég kaus að setja pening í þetta frekar en til dæmis íbúð. Ég lít svolítið á plötuna sem dýrt nafnspjald.“

Helsta verkefni Rósu núna er að kynna tónlist sína og þá er dýrmætt að geta rétt fólki fullgerða plötu. Nýlega var Strengur Stranda valin plata vikunnar hjá Rás 2 og fékk glimrandi dóma frá útvarpskonunni Andreu Jónsdóttur. Auk kynningarstarfa og spilamennsku er Rósa sömuleiðis upptekin við saxófónnámið og starf sitt sem flautukennari í Laugarnesskóla. Hún lætur þó annríki ekki á sig fá og er stefnan hjá henni að gefa út aðra plötu innan tveggja ára.

Þegar ég kveð Rósu í kuldanum fyrir utan kaffihúsið segist hún þurfa að drífa sig heim að læra fyrir skólann. Lokaorð þessarar huldukonu í íslensku tónlistarlífi sitja í mér: „Mikið væri næs að geta bara einbeitt sér að eigin tónlist.“

Steinunn Lilja Emilsdóttir, meistaranemi í ritlist.

 

 

Leave a Comment