Rýni: Allra veðra von í myndlistinni

Í Myndlist, Rýni, Umfjöllun höf. HugrásLeave a Comment

 Veðra von. Málverk. Sigtryggur Bjarni Baldvinsson í Hverfisgalleríi.

Málverkið er ekki dautt, ólíkt því sem franski málarinn Paul Delaroche sagði fyrst árið 1839 og hefur verið haldið fram ótal sinnum eftir það. Það er kannski ekki sá mikli einvaldur sem það áður var í myndlistarheiminum, en það stendur enn fyrir sínu. Ekki nóg með að hægt sé að nota málverkið sem miðil fyrir flestar, ef ekki allar, nýjar liststefnur heldur hefur hið hefðbundna málverk, raunsæ olíumynd á striga, enn hæfileikann til að tala til samtímamanna. Þetta vita listamenn eins og Sigtryggur Bjarni Baldvinsson.

Í Hverfisgalleríi við Hverfisgötu sýnir Sigtryggur um þessar mundir málverk sem hann málaði í Brighton í Bretlandi á árunum 2013-14. Sýningin heitir Veðra von og stendur til 22. nóvember. Viðfangsefni allra málverkanna er kyrrlát náttúra en ýmis náttúrufyrirbæri, og sérstaklega vatnsgárur, hafa lengi verið leiðandi stef í verkum Sigtryggs. Við gerð verka sinna notast listamaðurinn gjarnan við ljósmyndir og eru málverk hans í anda raunsæisstefnunnar. Sjónarhornið í málverkum Sigtryggs er þröngt og áhersla lögð á það mynstur sem finna má í fínlegum dráttum náttúrunnar. Að því leyti minna verk hans á myndir Eggerts Péturssonar en í stað þess að horfa rannsakandi á blómaskreytta jarðarfleti einblínir Sigtryggur á vatnsflötinn og náttúruna sem speglast í honum.

vedravon3

Auðvelt er að heillast af verkum Sigtryggs. Flestir hafa frá barnæsku dáðst að fegurðinni þegar sólarljós brotnar í vatni eða naktar trjágreinar teikna óreglulegar línur á himininn. Verk Sigtryggs eru eins og ljósmyndir af slíkum augnablikum og vekja upp hlýja tilfinningu. Þó er í myndunum að finna einhvern kulda. Aðallitirnir í verkunum eru kaldir blátónar og vísbendingar eru um að utan hins þrönga sjónarhorns sé ekki gróskumikill aldingarður heldur viðkvæmt landslag á barmi eyðileggingar. Í sýningarskránni er einmitt tekið fram að ábyrgð nútímamannsins gagnvart náttúrunni „marki nú vinnu listamannsins með vaxandi þunga“.

Helsti galli sýningarinnar snýr að heildarsvip hennar, ekki einstökum verkum. Veðra von samanstendur af aðeins ellefu verkum (sjö olíumálverkum og fjórum vatnslitaverkum á pappír sem eru í sérrými) og þau er einfaldlega ekki nógu mörg til að skapa sterka heildarmynd. Að vísu er sýningarrými Hverfisgallerísins ekki stórt en það hefði auðveldlega mátt koma þar fyrir fleiri verkum. Hvert málverk býr yfir þeim krafti að gera áhorfandann bergnuminn líkt og þegar hann fyrst sem barn tók eftir fegurð þess smáa í náttúrunni. Mismikil dýpt verkanna og sjónarhornið, sem er annað hvort beint upp til himins eða niður á vatnsflötinn, hefðu getað skapað næstum yfirþyrmandi og jafnvel vímukennd áhrif náttúru sem er ekki aðeins búin að koma sér fyrir heldur hefur tekið yfir sýningarrýmið og sjónsvið áhorfenda. Vegna fæðar verkanna þarf augað hins vegar að ferðast yfir stóra auða fleti hins hvítmálaða gallerísrýmis og við það dofna áhrifin óþarflega mikið.

vedravon1

Burtséð frá því á Sigtryggur hrós skilið fyrir að þora yfirhöfuð að gera jafn hefðbundin myndlistarverk á tímum þar sem anarkísk krepputíska tröllríður íslenskri samtímamyndlist. Sigtryggur virðist ekki aðeins gera sér grein fyrir því að málverkið lifir góðu lífi heldur einnig að fínleg verk náttúrumálarans geta stundum skapað djúpstæðari áhrif en frumlegustu flipp.

Steinunn Lilja Emilsdóttir, meistaranemi í ritlist.

 

 

Leave a Comment