RIFF: Enginn vinnur í Ludo

Í Kvikmyndir, Rýni, Umfjöllun höf. HugrásLeave a Comment

 

 Þrátt fyrir landfræðilega nálægð eru færeyskar kvikmyndir ekki oft sýndar á Íslandi. Ástæðan er einföld. Færeyskar bíómyndir eru svo fáar að þær eru bókstaflega teljandi á fingrum annarrar handar. Fyrsta „raunverulega“ færeyska kvikmyndin (í fullri lengd, gerð af Færeyingi í Færeyjum á færeysku) er gjarnan talin vera heimildarmyndin Atlantic Rhapsody frá 1989 eftir Katrin Ottarsdóttir. Nýjasta mynd hennar, Ludo, er nú sýnd á RIFF og er fyrsta færeyska bíómyndin sem framleidd er í 15 ár.

Ludo segir sögu fjölskyldu á afskekktum stað í Færeyjum. Fjölskyldan býr í fallegu gamaldags húsi á fallegu engi við fallega kirkju. En það er eitthvað ljótt á seyði. Mamman (Hildigunn Eyðfinsdóttir, sem er raunar dóttir leikstjórans) á við geðræn vandmál að stríða sem heldur lífi pabbans (Hjálmar Dam) og 11 ára gamallar dótturinnar (Lea Blaaberg) í heljargreipum. Feðginin hafa lært að læðast um eins og mýs í kringum hina köldu og óútreiknanlegu móður en þó virðist þeim alltaf takast að ergja hana.

Í upphafi myndarinnar stingur pabbinn upp á að fjölskyldan fari saman í göngu. Öllum að óvörum samþykkir mamman. Þegar til kastanna kemur tilkynnir mamman að hún sé hætt við en pabbinn ákveður að fara samt í gönguna með dótturina. Þegar þau koma heim fær mamman reiðikast. Hún öskrar og grætur allt kvöldið og fram á nótt. Þá jafnar hún sig skyndilega, vekur hina fjölskyldumeðlimina og fær þá til að spila með sér lúdó með voveiflegum afleiðingum.

Það er eitthvað notalegt við að horfa á færeyska kvikmynd. Náttúran er skemmtilega kunnugleg okkur Íslendingum og gaman er að lesa og hlusta á færeysku. Við Íslendingar vitum að erfitt er að vera lítil þjóð með stóra drauma og því langar mann að hér sé á ferðinni góð mynd sem eykur von um farsæla framtíð færeyskrar kvikmyndagerðar. Því miður verður manni ekki að ósk sinni. Vandamálið við Ludo er að hún er einstaklega einföld mynd en þó ekki á fágaðan eða áhugaverðan hátt. Í stað þess að leika sér með klisjurnar sem listræn spennuhrollvekja bíður upp á er þeim öllum hrúgað hér saman líkt og eftir uppskrift.

Fyrsta skot myndarinnar er af hinu klassíska feigðartákni hrafninum sem vekur upp þá tilfinningu að eitthvað skelfilegt muni gerast. Eftir því sem líður á er bætt á augljósa symbólík myndarinnar að svo miklu marki að hún minnir á kennslumyndband um táknfræði hryllingsmynda. Löng skot af dótturinni bakvið rimla handriðs til að tákna að hún sé í einhvers konar fangelsi, ljósgeisli á Kristsstyttu, rautt ljós til að tákna hættu og grænt fyrir geðveiki, gamaldags dúkka sem lokar skyndilega augunum, rauð sultusletta í formi társ á vanga Venusar Botticellis, langt atriði af blúndugardínum sem bærast í vindinum á hægum hraða og fleira í þessum anda er troðið inn á milli endurtekinna atriða þar sem hrafnar koma við sögu. Undir þessu öllu er svo spilað drungalegt einsfingurstónverk eða dramatískir fiðlutónar. Einföld tákn, einföld tónlist, einföld söguframvinda en enginn sjarmi.

Því miður tekst leiknum ekki að hífa upp fyrirsjáanlegt handrit Katrinar Ottarsdóttur og óspennandi myndatöku. Í fyrstu dettur manni í hug að ýktur leikurinn sé stílbragð en svo rennur upp fyrir manni að líklegast hafa leikararnir litla reynslu af leik nema þá kannski á leiksviði. Stundum horfa þeir í myndavélina og er það á stöku stað gert viljandi en í öðrum atriðum lítur frekar út eins og hrein og klár mistök sé að ræða. Það er einfaldlega erfitt að gleyma því að leikararnir séu að leika. Þetta nær því stigi að jafnvel langt atriði þar sem mamman öskrar og grætur fyrir framan styttu af Jesú hreyfir ekki við manni. Í rauninni gerir það atriði meiri skaða en ella þar sem mamman er látin útskýra nákvæmlega líðan sína eins og áhorfendum sé ekki treystandi til að skilja þessa einhliða persónu.

Aðeins í blálokin tekst myndinni að hrista aðeins upp í áhorfandanum með því að koma með vendipunkt í sögunni. Nú fær maður loks að vita hver sé framtíð litlu vansælu fjölskyldunnar. Áhuginn kviknar örlítið og maður sest aðeins ofar í sætið. En þá er myndin búin. Atriðið sem lofað var allt frá fyrsta rammanum af hrafninum (og nærri hverjum ramma þar á eftir) hefur átt sér stað og kvikmyndargerðarteimið pakkar saman. Myndinni er því lokið eftir 70 mínútur. Eftir situr áhorfandinn og hristir höfuðið dapur í bragði.

Steinunn Lilja Emilsdóttir, meistaranemi í ritlist

Leave a Comment