Hvað er svona merkilegt við X-Wing?

Í Fréttir, Umfjöllun höf. HugrásLeave a Comment

 Tveir menn standa sín hvoru megin við borð og horfa ógnandi hvor á annan. Á borðinu er plata með mynd af himingeimnum og á henni smástirni og geimskip á stalli. Mennirnir gefa flaugunum sínum skipanir og fólk fylgist spennt með framvindunni. Á gólfinu eru tómar kókdósir og hálfétinn kexpakki. Það suðar í halógenperunum í loftinu. Af og til heyrast siguróp og angistarandvörp. Mennirnir eru að spila X-Wing.

X-Wing er eitt eftirtektarverðasta borðspil seinni ára. Aðeins eru nokkrir mánuðir síðan fólk fór að spila það vikulega á spilakvöldum í myndasögu- og spilabúðinni Nexus í Nóatúni en það er þegar orðið meðal vinsælustu spilanna á markaðnum. Þá hefur Nexus líka staðið fyrir tveimur mótum og sett deildarkeppni á fót með tólf spilurum. Sigurvegari fyrsta X-Wing mótsins var Sigurður Örn Zoëga Gunnarsson sem er jafnframt starfsmaður búðarinnar og hefur umsjón með X-Wing spilamótunum.

Eins og staðan er í dag eru um fimmtán manns sem mæta reglulega á X-Wing spilakvöld í Nexus, en þar af bara ein kona. Sigurður segir það ekki vera einsdæmi í leikjum sem þessum að þeir séu vinsælli meðal stráka. Hann segir þó að allir séu velkomnir á spilakvöld Nexus. „Við viljum fá ykkur með í hópinn hvort sem þið eruð góðir eða slæmir spilarar. Við getum kennt ykkur spilið. Þið þurfið ekki að mæta með neitt. Flestir hér eiga fleiri en eitt lið og eru tilbúnirxwing2 til að lána skipin sín. Um daginn fann erlendur ferðamaður sem var staddur hér á landi okkur á netinu. Hann mætti, fékk flaugar lánaðar og spilaði með okkur.“ Þess ber að geta að á X-Wing mótum fær ekki bara sigurvegarinn verðlaun tengd spilinu heldur er einnig happdrætti meðal þátttakenda. „Ég legg áherslu á það því mér finnst að mót sem þessi eigi ekki bara að verðlauna getu fólks heldur eigi þau einnig að hvetja fólk til að taka þátt,“ segir Sigurður.

Ein ástæða þess að X-Wing hefur slegið svona rækilega í gegn er að það er tiltölulega einfalt miðað við sambærileg spil. „X-Wing er það
sem kallað er á ensku: „Easy to learn, hard to master. Complicated but not complex.“,“ segir Arnór Sigurðsson, einn deildarmeðlimurinn. Segja má að X-Wing sé í raun samsett úr tveimur leikjum. Annars vegar þarf að búa til skipaflota til þess að einstakur hæfileiki hverjar flaugar fái að njóta sín til fullnustu. Í þetta fer gjarnan mikil hugsun enda eru möguleikarnir mjög margir. Hinn hluti leiksins hefst síðan þegar flaugarnar eru komnar á borðið og þar getur allt gerst. Þessi fjölbreytileiki spilsins gerir það að verkum að það helst ferskt og óstaðnað þrátt fyrir mikla spilun. „X-Wing er ekki bóla. X-Wing er komið til að vera,“ segir Sigurður.

xwing3Önnur ástæða fyrir vinsældum X-Wings er að stofnkostnaðurinn er mun minni en í sambærilegum spilum. Fyrir 12-15 þúsund krónur getur fólk keypt vel nothæfan flota til að spila með. Sumum gæti fundist þetta frekar há upphæð en Arnór bendir á að markhópurinn er vanur miklu flóknari og dýrari spilum eins og Warhammer. Vinsældirnar eru það miklar að X-Wing er meira og minna uppselt í heiminum nú um stundir og hefur framleiðandinn, Fantasy Flight Games, varla undan við að koma nýjum eintökum í búðir.

Aðspurður hvað sé skemmtilegast við spilið svarar Sigurður hiklaust: „Star Wars. Þegar ég sá myndirnar í bíó heilluðu geimbardagarnir mig mest. Mér finnst Star Wars vera þetta, flaugarnar að mætast í bardaga. Krakkarnir myndu kannski frekar nefna geislasverðin en fyrir mér er þetta Star Wars.“ Hann ítrekar þó að maður þarf ekki að þekkja Star Wars heiminn til að vera góður X-Wing spilari. Spilið stendur algjörlega fyrir sínu eitt og óstutt. „Til að verða góður X-Wing spilari þarf einfaldlega bara að spila það sem oftast. 10% af leiknum ræðst kannski af heppni en 90% af kænsku sem fæst með reynslu.“

En hvað myndi Sigurður segja við það fólk sem telur spil eins og X-Wing vera glatað? „Ég myndi ekki segja neitt við það. Kannski bara: Skemmtu þér vel í einhverju öðru sem höfðar betur til þín,“ segir Sigurður að lokum og brosir.

Steinunn Lilja Emilsdóttir, meistaranemi í ritlist.

Leave a Comment