Getur verið helvíti að vinna með hugmyndir

Í Bækur, Fréttir, Leikhús, Umfjöllun, Viðburðir höf. HugrásLeave a Comment

 „Þetta er í rauninni stóra-sviðs-leikrit í Kassanum. Af hverju endaði kona við lok lífsins í bílskúr? Hvað gerðist? Sýningin segir okkur það.“ Þannig lýsir Hallgrímur Helgason sýningunni Konan við 1000° sem frumsýnd var föstudag í Þjóðleikhúsinu. Mikið er um búningaskipti og nóg um að vera hjá öllum á sviði enda fara sjö leikarar með alls þrjátíu hlutverk í sýningunni.

Það var líka nóg að gera hjá Hallgrími í aðdraganda sýningarinnar en hann skrifaði sjálfur leikgerðina sem byggir á samnefndri bók hans frá árinu 2011. Tekið er fram á vef Þjóðleikhússins að sagan byggi að hluta til á sönnum atburðum en líkt og með skáldsöguna skuli fyrst og fremst líta á leikgerðina sem skáldskap. Hér er vísað til þess að bókin varð á sínum tíma umdeild fyrir að dansa á línunni milli sagnfræði og skáldskapar. Ættingjar Brynhildar Georgíu Björnsson (sem Herbjörg María Björnsson, aðalpersóna bókarinnar er byggð á) reyndu árangurslaust að fá lögbann á bókina á sínum tíma.

Hallgrímur fer óvenjulegar leiðir í leikgerðinni. Hann samdi til að mynda sérstaka einræðu úr einu átakamesta atriði sögunnar í stað þess að láta leikarana leika það. „Þetta er samið sem öfugt uppistand. Uppistand sem fær mann til að gráta,“ segir hann. Það snúnasta við leikgerðina var þó að sjá til þess að aðalpersónan eyddi ekki mestum tíma á sviðinu í rúminu eins og hún gerir í bókinni. Á endanum var rúmið algjörlega fjarlægt úr leikmyndinni. „Rúm er „killer“ á sviði,“ segir Hallgrímur „en það tók samt sex mánuði að losna við það úr leikritinu.“

Leikgerðin tók miklum breytingum eftir að hún var kynnt fyrir leikurum á liðnu vori og áætlar Hallgrímur að um tíu mismunandi útgáfur af henni hafi orðið til í ferlinu. Hann valdi að leggja áherslu á stríðsárin en segir að erfitt hafi verið að skera burtu atriði úr bókinni. Niðurskurðurinn hafi ekki síður verið erfiður gagnvart leikurunum. Þeir höfðu allir lesið skáldsöguna og áttu uppáhaldsatriði tengd sinni persónu en sum þeirra náðu ekki alla leið í lokagerð leikgerðarinnar.

Hallgrímur viðurkennir að hann hafi verið að gera smærri breytingar á leikgerðinni alveg fram á síðustu stundu og var orðinn ansi þreyttur. Hann varði tveimur árum í að skrifa bókina og síðan fór eitt ár í að fylgja henni eftir. Vinnan síðustu mánuði hafi verið eins og hann væri að skrifa bókina áfram. „Ég get engu bætt við þessa bók lengur. Ég myndi þó ekki ganga svo langt að segja að ég sé kominn með ógeð á henni. Það má ekki hætta að vinna með hugmyndir en það getur samt verið helvíti.“

Steinunn Lilja Emilsdóttir,
meistaranemi í ritlist

Leave a Comment