Innri skoðun

Í Aðsendar greinar, Pistlar, Umfjöllun höf. HugrásLeave a Comment

 Ég stari á svefnbólgið andlitið í baðspeglinum. Ég hef ekki orku til að lyfta hárbursta eða augnhárablýanti. Morgunmaturinn er mjólkurlögg beint úr fernunni. Ég sulla yfir bolinn minn. Mjólkurskánin á tungunni fer illa saman við tannkremsbragðið.

Kaldur vindurinn lemur mig utan undir þegar ég stíg út úr húsi. Klukkan í bílnum segir að ég sé þegar orðin of sein. Þegar ég starta bílnum byrjar kristilegt lag í útvarpinu sem segir mér að Jesús sé vinur minn. Ég legg höfuðið fram á stýrið í algjörri bugun. Þetta er ekki rétti tíminn til að fara í leghálskrabbameins-skoðun.

Á biðstofunni eru bara konur. Þær eru allar eldri en ég, með maskara og slakari legháls. Ég bíð óþolinmóð eftir að komast að afgreiðslunni. Konan á undan mér er utan við sig. Hún þarf nákvæmar leiðbeiningar um ferlið. Ég ranghvolfi augunum. Er hún virkilega að koma í fyrsta skipti, hún sem er að minnsta kosti tíu árum eldri en ég? Eru virkilega ennþá til konur á Íslandi sem hunsa reglubundnar krabbameinsskoðanir?

Þegar kemur að mér borga ég fimlega fjögur þúsund krónurnar og tek við kvittuninni með strikamerkinu. Ég fer að tölvunni á biðstofunni, skanna strikamerkið og byrja að svara spurningunum sem birtast á skjánum. Nei ég hef ekki farið í aðgerðir á grindarbotnssvæðinu, nei ég hef ekki fætt barn, ég tek ekki hormónalyf o.s.frv. Snertiskjárinn stendur á sér og ég þarf að ýta oft og fast á hvern valmöguleika áður en næsta spurning kemur upp á skjáinn. Ef Jesús er vinur minn hefur hann gleymt bakteríufóbíunni minni þegar kemur að læknabiðstofum.

Dyrnar opnast og hvítklædd kona í klossum kallar inn fjórar konur. Nú er komið að fyrstu hindruninni. Við bíðum í einfaldri röð á meðan hvítklædda konan gjóar augunum á okkur frá hrifli til ilja. Á miða bakvið hana stendur: Blár: small. Gulur: medium, Grænn: large. Ég rétti úr mér og held inni maganum. „Plís, láttu mig fá bláan,“ endurtek ég í huganum.

Fyrsta konan fær gulan slopp, næsta líka, þriðja fær bláan. Ég fyllist vongleði. Sú þriðja er klárlega með stærri læri en ég. Hvítklædda konan klemmir saman varirnar, horfir á mig rannsakandi augum . . . og réttir mér svo gulan slopp. Ég get varla leynt vonbrigðum mínum þegar hvítklædda konan beinir mér á bakvið lítið tjald og segir mér hispurslaust að fara úr að neðan.

Ég afklæði mig, set buxurnar í læstan skáp og kem mér fyrir á biðstofunni. Á móti mér situr konan í bláa sloppnum. Hún þarf að hafa sig alla við að halda litla sloppnum sínum saman á meðan hún flettir í dönsku slúðurtímariti. Ég hef enga löngun til að skoða þessi eldgömlu blöð sem eru pottþétt morandi í bakteríum og horfi þess í stað á sjónvarpsskjáinn í hinum enda herbergisins.

Verið er að sýna sama fimm mínútna kennslumyndbandið um brjóstakrabbameinsþreifingu og ég hef séð öll í hvert skipti sem ég hef komið hingað. Ég er farin að þekkja þessar konur. Uppáhaldið mitt er eldri konan með perlufestina sem stendur fyrir framan spegilinn, ómálaða konan sem liggur í rúminu sínu í joggingbuxunum (sem gefa óneitanlega vísbendingu um framleiðsluár myndbandsins) og sæta pían í sturtunni með túberaða hárið. Þær eru allar að þreifa á sér brjóstin með taktföstum hreyfingum.

Á borði við sjónvarpsskjáinn er gervibrjóst þar sem hægt er að endurtaka þessar hreyfingar og æfa sig. Einu sinni var þetta brjóst stinnt og aðlaðandi en nú er sílikonið búið að missa þéttleika sinn og plasthúðin liggur í hrukkum yfir flata klessuna.

Nokkrar konur til viðbótar koma inn á biðstofuna og ég sendi þessum í grænu sloppunum hughreystandi augnaráð. Tvær kvennanna virðast þekkjast og halda uppi óþægilegu samtali. Ég þakka örlögunum fyrir að í þetta skipti hafi ég ekki sjálf rekist á einhvern sem ég þekki. Ég minnist þess vandræðalega augnabliks þegar ég hitti fyrrum tengdamömmu mína á þessari biðstofu. Það hefði verið nógu erfitt þótt maður væri ekki buxnalaus líka.

Nafnið mitt er kallað upp og ég er leidd inn í eitt skoðunarherbergið. Þar tekur á móti mér kvenlæknir. Ég hef aldrei áður lent á kvenlækni við leghálskrabbameinsskoðun og verð fegin að sjá fínlega fingur hennar. Síðasti læknir sem ég lenti á var durgslegur karl með putta á við þýskar pylsur og mig hryllir við minningunni. Sá á undan var með öllu nettari fingur en eyðilagði það með því að stinga tveimur inn í mig. Ég veit ekki hvort var verra.

Ég leggst á bekkinn og set fæturna upp á statífin. Læknirinn skipar mér að færa mig neðar í sætið og slaka á í rasskinnunum á meðan hún setur upp einnota plasthanska. Um leið byrja ógurleg hamarshögg hinum megin við vegginn og gardínan flaksast til og frá. Við lætin bætast við digrir karlarómar iðnaðarmannanna sem yfirgnæfa spurningar læknisins. Á endanum gefumst við upp á spjallinu sem á að gefa skoðuninni heimilislegan blæ og hjúkrunarfræðingurinn fer að rétta lækninum áhöldin sín.

Fyrst kemur plasthólkurinn sem minnir á langan og mjóan andargogg. Þegar hann er orðinn vel skorðaður inni í leggöngunum þrýstir læknirinn saman tveimur pinnum á enda hólksins og öndin opnar munninn. Bómullarpinna í yfirstærð er stungið inn í hólkinn og ég finn enda hans fara einn hring inni í mér. Hjúkrunarfræðingurinn tekur síðan við bómullarpinnanum og réttir lækninum annan sem fer sömu leið.

Nú er komið að því sem ég kvíði mest fyrir. Þetta er verra en grimmdarlegur dómurinn um líkamsstærð mína, buxnaleysið, brjóstakennslumyndbandið, fótastatífin, plastáhöldin, bómullarhnoðrinn og ósjálfráðar áhyggjur um skapahár og ósymmetríu. Það er komið að því þegar læknirinn stendur upp, stingur putta inn í mig og þrýstir fast á neðanvert kviðarholið með lófa hinnar handarinnar. Ég loka augunum og bíð en ekkert gerist.

„Jæja, þá er þetta komið. Þú mátt standa upp.“

Ég opna augun hissa og lít á hjúkrunarfræðinginn sem er þegar farinn að ganga frá sýnunum. Ég næ augnsambandi við lækninn en fæ mig ekki til að spyrja af hverju hún hafi ekki troðið puttanum inn í píkuna á mér. Mér er tilkynnt að ég fái bréf innan þriggja vikna, þakkað fyrir og bent með handarhreyfingu á dyrnar.

Ég er enn í hálfgerðu losti þegar ég fer bakvið tjaldið hjá skápunum og klæði mig í buxurnar. Ég finn hvernig nærbuxurnar taka við stökum slímkenndum blóðdropa.

Þegar ég er komin út á bílastæði hringi ég í manninn minn. Hann segir það sem ég þori varla að hugsa: „Á læknirinn kannski ekkert að setja puttann inn í þig? Er þetta bara eitthvað sem karllæknar gera?“ Ég neita að trúa því og við sammælumst um að það hafi orðið sparnaður í heilbrigðiskerfinu síðan ég fór síðast í leghálskrabbameinsskoðun.

Steinunn Lilja Emilsdóttir,
meistaranemi í ritlist

Leave a Comment