Skjöl Landsnefndarinnar

Landsnefndin fyrri V. Fundargerðir og bréf nefndarinnar. Ritstjórar Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir. Reykjavík: Þjóðskjalasafn Íslands 2020. 780 bls. og myndaörk 32 bls.

Það hefur verið magnað að fylgjast með þeim ævintýralega hraða sem er á útgáfu Þjóðskjalasafns Íslands, Sögufélags og Ríkisskjalasafns Danmerkur á skjölum Landsnefndarinnar fyrri sem starfaði hér á landi árin 1770–1771 og átti sér það háleita en vonlitla markmið að útfæra leiðir til að bæta hag innfæddra. Helsti afraksturinn var mikill skjalahaugur sem Bergsteinn Jónsson réðst til atlögu við á sjötta áratug síðustu aldar, með þeim árangri að tvö lítil bindi komu út árin 1958 og 1961. Undirritaður starfaði við það á vegum Sögufélags sumarið 1980 að vélrita álitsgerð Magnúsar Ketilssonar sýslumanns og sitthvað smálegt annað, en öll áform um framhald á útgáfunni runnu út í sandinn. Nú er öldin önnur og atgangurinn ógurlegur. Fyrstu tvö bindi glæsilegrar heildarútgáfu í stóru broti og góðu bandi voru kynnt með látum árið 2016 og með réttu lögð áhersla á að í því fyrsta væru bréf frá almúganum, það er hreppstjórum, bændum, jafnvel verkafólki og vinnufólki. Athygli vakti að skjöl á íslensku voru þýdd á dönsku og að inngangur með tengdu efni var á báðum tungumálum. Fyrir vikið var ljóst að verkið myndi nýtast jafnt íslenskum fræðimönnum og hinum sem aðeins eru læsir á dönsku, norsku eða sænsku – enda eru greinar slíkra höfunda byggðar á þessum textum þegar teknar að birtast. Hitt bindið féll í skuggann, aldeilis að ósekju því það er barmafullt af yndislegum og nánast skoplegum fordómum presta gagnvart almúganum. Allir voru þessir mætu menn fullvissir um að „að dygðin og sannur guðsótti“ væru „grundvöllur til stjórnarstandsins viðhalds, eflingar og besta í einu landi“, eins og séra Guðmundur Guðmundsson í Undirfelli og séra Jónas Benediktsson í Vesturhópshólum skrifuðu 5. maí 1771. Fyrsta skref í átti til umbóta, töldu þeir, var að þess yrði gætt að bændur borguðu vinnufólki ekki of há laun og að tekið yrði fyrir giftingar fátæks ungs fólks, enda myndi það áreiðanlega lenda á vonarvöl sem „betlarar og húsgangsfólk, sjálfum sér og sveitunum til stærstu þyngsla og vandræða sem allt of mörg dæmi daglega sanna“ (Landsnefndin fyrri II, bls. 409–410).

Í þriðja bindi árið 2018 voru einkum skýrslur sýslumanna og í því fjórða birtust ári síðar sendingar til nefndarinnar frá æðstu embættismönnum, svo sem biskupum, amtmanni og landfógeta. Verður ekki nánar sagt frá þeim bindum hér heldur vikið að því fimmta í röðinni sem var kynnt til sögunnar 27. október síðastliðinn með fyrirlestrum ritstjóranna, Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur (sjá Vef. www.youtube.com/watch?v=tV0IulFTV7Y). Síðasta erindið flutti Helga Hlín Bjarnadóttir sem einmitt á inngangskafla þessa bindis (bls. 31–63) um hugmyndir manna um húsaga og landsaga á 18. öld eins og þær birtast í tillögum Þorkels Fjeldsteds, eins þriggja nefndarmanna (hinir voru danskir). Þorkell var þá rétt orðinn þrítugur, fæddur að Kvíabekk í Ólafsfirði árið 1740 eða 1741. Hann lauk lögfræðiprófi við háskólann í Kaupmannahöfn sumarið 1766 og fékk þremur árum síðar lögmannsembætti í Færeyjum en átti að loknum landsnefndarstörfum glæstan feril í Noregi og Danmörku til dánardags 19. nóvember 1796. Uppkast hans að landsagatilskipun (d. politie- og landforordning) er hér á bls. 333–398 og drýpur íhaldssemi af hverju orði, eins og Helga Hlín útskýrir vandlega og setur í samhengi við fyrri tilhlaup að slíkum lagabálki sem aldrei varð neitt úr. Vart gætir upplýstra viðhorfa hjá lögmanninum í öðru en áherslu á vegagerð sem hreppstjórar á hverjum stað áttu að eiga frumkvæði að en bændur skyldu mæta með vinnumenn sína og verkfæri til að ryðja burt grjóti eða brúa keldur og mýrar sem víða tálmuðu för: „som paa mange stæder gjör overfarten særdeeles vanskelig“ (bls. 368). Athugasemdir sýslumanna, lögmanna og stiftamtmanns við tilskipunina fylgja (bls. 402–653). Sumum þeirra þótti Þorkell helsti langorður og vildu stytta skjalið eða jafnvel taka heilu greinarnar út. Aðrir vildu draga ögn úr sektum og öðrum refsingum, svo sem beitingu gapastokks, eða þeir andmæltu innflutningi svonefndra tréhesta þar sem þjófar og aðrir sakamenn voru festir á bak og jafnvel hýddir. Þorkell vildi hafa gapastokk við hverja kirkju og tréhest við þær helstu. Í gapastokkinn átti meðal annars að setja þá sem voguðu sér að koma kenndir til kirkju, svo sem í klukkustund eða tvær (bls. 339–340). Sveinn Sölvason lögmaður taldi tréhesta bara henta í hernum og vildi auka því við málsgreinina að bannað yrði að fólk hefði sísvanga hunda sína með til kirkju, en slíkt væri slæmur siður sem almenningur hefði vanið sig á: „som pöbelen har vedtaget i det, at eenhver lader sine hunde löbe med til kirken“ (bls. 512). Þess má geta að tréhestar voru bannaðir í Danmörku ekki löngu síðar eða árið 1787 (sjá Vef. denstoredanske.lex.dk/træhest).

Þarna fást og sjást á einu bretti ískyggileg viðhorf veraldlegra embættismanna til vinnumarkaðar og opinbers lífs, til viðbótar við það sem fram er komið í fyrri bindum. Annars eru eigin gögn landsnefndarinnar þungamiðja þessa bindis, með öðrum orðum skjöl sem hún tók með sér til landsins (bls. 111–150), bréfabók hennar sjálfrar (151–194), fundargerðarbækur (196–313) og loks bréf sem hún að mestu skrifaði rentukammeri (657–683), en það var sú stjórnardeild í Kaupmannahöfn sem annaðist fjárreiður ríkisins. Bréf nefndarinnar eru ekki ýkja bragðmikil, ef svo má að orði komast, en bráðnauðsynleg til skilnings á verkferlum og væntingum sem viðmælendur svo uppfylltu í mismiklum mæli í greinargerðum sínum. Fundargerðirnar eru miklum mun áhugaverðari aflestrar, allt frá fyrsta fundi með embættismönnum á Þingvöllum 20. júlí 1770 til hins síðasta sem stóð dagana 3.–14. ágúst í Reykjavík. Allt höfðu nefndarmenn þá lesið sem þeim hafði borist og tekið flest af því til umræðu, staðhæfa þeir, en luku sér svo af með því að árétta það sem almenningur helst hafði kvartað undan. Það var ánauð af leigukúgildum sem fylgdu jörðum og mannslánum í þágu jarðeigenda, að ógleymdum bágum verslunarkjörum og þeirri byrði sem greiðsla tíundar var. Þetta síðasta töldu þeir að mætti lagfæra um leið og búið yrði að koma skipan atvinnuvega og stjórnarháttum í betra horf: „paa bædre födder“ (bls. 312–313).

Í fundargerðunum kennir ýmissa grasa sem vert væri að staldra við en látið verður duga að nefna fáein atriði. Meðal þess sem nefndinni var falið í erindisbréfi dagsettu 22. maí 1770 var að meta þörf fyrir yfirsetukonur (bls. 100). Almennt álit manna á fundinum var að slíkra kvenna væri ekki þörf og frekar ætti að verja fjármunum í nauðsynlegri hluti: „til andre nödvendigere ting“ (bls. 199). Í framhaldinu var lagt til að Eystribyggðar í Grænlandi yrði leitað frá höfnum á Vesturlandi (bls. 201). Á fundi 4. mars 1771 var meðal annars rætt um fólksfjölda í landinu og hafði einmitt verið talið upp úr manntali ársins 1769, sem sýndi að landsmenn voru einungis 46.201 talsins. Það þótti nefndarmönnum lítið miðað við það hversu stórt og heilnæmt eylandið væri: „en saa stor og sund öe som Island er.“ Manntalið frá 1703 var reyndar óþekkt og nefndarmenn vissu ekki að þá höfðu íbúar verið rúmlega fjögur þúsund fleiri, en greining þeirra á gögnum leiddi í ljós að Íslendingum fór fjölgandi þrátt fyrir harðindi áranna 1755–1757 og bólusóttarfaraldur ársins 1762 (bls. 210–212). Þeirri niðurstöðu fylgja stórmerkilegar hugleiðingar um það hvernig mætti stuðla að fólksfjölgun og meðal atriða var bólusetning eða „inoculation“, sem væri nýlega uppfundin og hefði þegar bjargað hundruðum þúsunda mannslífa. Aðferðin væri svo einföld að jafnvel fátæk húsfreyja í sveit gæti beitt henni: „Og er det en höjst lykkelig sag, at de mest heldige i deres methode gaae saa simpel til verks, at en fattig bondekone ved nöye at benytte sig af de faae regler og midler, hvilke skal fölges og bruges, kommer ligesaavel til maalet som de saakaldede inoculister“ (bls. 214). Á fundi 1. júní spáðu menn í málma og surtarbrand en líka saltvinnslu úr sjó á jarðhitasvæðum við Reykhóla í Barðastrandarsýslu og á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp sem Þorkell hafði einmitt kannað sérstaklega og fylgja skýrslur hans um það efni, með uppdráttum bæði í svarthvítu og í lit (bls. 279, 321–329, myndaörk xiii–xix).

Um útgáfu textans er vísað í greinargóðar verklagsreglur í fyrsta bindinu og stikkprufur benda ekki til annars en að vel sé vandað til verka – en myndir eru þegar komnar á vefslóð verkefnisins, landsnefndin.is (og textarnir kannski væntanlegir). Gervallt bindið er á dönsku fyrir utan nokkuð ítarlegar athugasemdir Vigfúsar Schevings sýslumanns í Skagafjarðarsýslu við landsagatilskipunartillögu Þorkels (bls. 572–578) og er þeim snarað á góða nútímadönsku sem þó virðir snúna setningaskipan og flóknar hugsanir (bls. 578–583). Meðal annars þótti Vigfúsi óráðlegt að vinnuhjú sem fyndu að mat á heimili sínu skyldu sett í gapastokk við kirkju, heldur ætti fremur að sekta þau, því örðugt gæti verið fyrir húsbónda þeirra að koma slíkum meinhornum á staðinn: „kynni það því gefa honum orðsök til heldur að umbera þess aðfyndni en líða þar af fljótandi ómak og vinnumissir“ (bls. 575). Þýðingin er snöggtum skýrari: „det kunne derfor give ham anledning til snarere at tolerere denne kritik end at lide konstant besvær og arbejdstab ved det“ (bls. 580). Að sama skapi eru hér neðanmáls sérlega góðar millivísanir í önnur skjöl í fyrri bindum þar sem við á. Ýmis hugtök og fyrirbæri sem fyrir koma í texta eru útlistuð jafnharðan og neðanmáls eru þar að auki athugasemdir um handritin, svo sem varðandi undirstrikanir og merkingar með rauðkrít. Þá eru karlar sem nefndir eru á nafn eða embætti þeirra útskýrðir hverju sinni, bæði á íslensku og dönsku, sumir jafnvel oftar en einu sinni og tvisvar – án þess að það komi að sök. Sérstök skrá með orðskýringum er í bókarlok, að nokkrum hluta sameiginleg fyrri bindum. Henni fylgja efnisorðaskrá, mannanafnaskrá og staðanafnaskrá. Allt ber þetta vitni um óþrjótandi elju aðstandenda því svona nokkuð er ekkert spaug. Sjötta bindi er nú væntanlegt og verður hið síðasta – því er nú verr – og óskandi væri að útgefendur hreinlega gleymdu sér og linntu ekki látum, heldur tækju rakleiðis að sér útgáfu á skjölum Landsnefndarinnar síðari sem starfaði árin 1785–1787, sem vart ætti að vefjast fyrir þeim þótt afrakstur hennar sé víst enn meiri að umfangi.

Um höfundinn
Már Jónsson

Már Jónsson

Már Jónsson er prófessor í sagnfræði.

[fblike]

Deila