Ritið 3/2020: Syndin

Ritið 3/2020 hefur verið gefið út og er þema þess syndin og margvíslegar birtingarmyndir hennar. Greinarhöfundar eru af ólíkum fræðasviðum og nálgast efnið frá ýmsum sjónarhornum. Arnfríður Guðmundsdóttir fjallar um syndahugtakið í kristinni trúarhefð, frá upphafi og til samtímans, og hvernig sögulegt samhengi mótar þann skilning sem leggja skuli í hugtakið. Hjalti Hugason beinir sjónum að syndinni í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar og bendir á ólíkan skilning á hugtakinu: siðrænan og tilverufræðilegan, sem sé þó ekki að finna hjá Hallgrími. Grein Kolfinnu Jónatansdóttur er um dauðasyndirnar í Gylfaginningu, einkum þó ofdramb og mikillæti, en hún setur túlkun sína í samhengi við lærða hefð á miðöldum. Ásdís R. Magnúsdóttir fjallar um syndina sem grunnstef í Perceval eða Sögunni um gralinn sem samin var undir lok 12. aldar og bendir á líkindi verksins og Grettis sögu. Við færumst nær samtímanum með Guðrúnu Björk Guðsteinsdóttur sem skrifar um syndauppgjör í skáldsögunni Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur. Guðrún beinir sjónum að afleiðingum þess að gangast ekki við syndum sínum og þeirri siðferðislegu upplausn sem einkenndi íslenskt samfélag á tímum bankahrunsins. Í síðustu þemagreininni spyr svo Skúli Skúlason hvort syndin sé náttúruleg. Hann fjallar um mikilvægi heimsmynda og tengir umhverfisvandann við syndahugtakið þar sem maðurinn hafi sagt sig úr lögum við vistkerfi jarðarinnar. Þessari fjölbreyttu umfjöllun um birtingarmyndir syndarinnar fylgir þýðing á nokkrum brotum úr verkinu Hugsanir eftir franska stærðfræðinginn og rithöfundinn Blaise Pascal í þýðingu Ásdís R. Magnúsdóttir.

Greinar utan þema eru að þessu sinni þrjár. Kristín Loftsdóttir fjallar um brjóstmyndasafn El Museo Canario á Karíeyjum en hún skoðar sögu nokkurra brjóstmynda sem þar er að finna og veltir meðal annars fyrir sér stöðu þeirra í samtímanum. Finnur Dellsén skrifar um traust til sérfræðinga og ræðir meðal annars hvers vegna fólk þurfi að treysta þeim, hvað felist í slíku trausti og undir hvaða kringumstæðum sé mikilvægt að fólk hugsi gagnrýnið og komist sjálft að rökstuddri niðurstöðu. Í lokagreininni leitast Ásta Kristín Benediktsdóttir við að draga fram hvernig ýmis skrif Elíasar Marar sýna þróun hans og þroska sem tvíkynhneigðs rithöfundar.

Forsíðu Ritsins prýðir veggmynd af heilagri Önnu, móður Maríu Guðsmóður, frá Faras í Norður-Súdan. Hún leggur fingur yfir varirnar til merkis um þögn en það var gert til að bægja frá illum öflum við bænahald. Myndin fannst við uppgröft á árunum 1961–1964 í bænum Faras, nálægt landamærum Egyptalands, sem nú horfinn undir vatn og hún var ein fjölmargra veggmynda í dómkirkju frá 8. öld. Talið er að myndin sé frá 8.-9. öld og hún er varðveitt í Þjóðminjasafninu í Varsjá.

Gestaritstjóri heftisins er Ásdís Rósa Magnúsdóttir en aðalritstjórar þess eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

Ritið er gefið út í rafrænu formi og má nálgast hér.

Um höfundinn
Hugrás

Hugrás

[fblike]

Deila