Útlendingurinn – morðgáta

Friðgeir Einarsson sló í gegn í fyrra með sviðslistaverkinu Club Romantica sem þótti sérlega skemmtilegur spuni úr mörgum ólíkum þráðum sem þó komu saman að lokum í lausn sem engum hafði dottið í hug. Frábær flétta hefðu skákmenn væntanlega sagt.

Nýja sýningin, Útlendingurinn. Morðgáta, er unnin á sama hátt og sögumaðurinn Friðgeir hefur gert sig sekan um ofmetnað og lofar á góðri stundu meiru en hann getur staðið við.  Því miður er það í samtali við leikhússtjórann og áður en við verður snúist er hann búinn að lofa að semja leikgerð upp úr Útlendingnum (1942) eftir Albert Camus, einni áhrifamestu bók tilvistarstefnunnar og (að mínu mati) einstaklega óleikrænu verki. Hann fær síðan greitt fyrirfram og eyðir peningunum.

Í ofanálag er hann að flytja til Bergen með konu sem er að fara í nám og þar á hann að bera ábyrgð á tveimur litlum sonum jafnframt því að skrifa leikgerð upp úr Útlendingnum, samhliða barnagæslunni og ýmiss konar öðru stússi kringum nýtt heimili. Friðgeir Einarsson er góður uppistandari og átti ekki í neinum erfiðleikum með að stjórna samúð og hlátri áhorfenda.

En líf hans í Bergen er ekki auðvelt. Endurtekningin í hversdagslífinu byggir upp stigvaxandi spennu skáldsins og tilvistarkreppu. Hugmyndirnar láta á sér standa, tætingurinn magnast, okkar manni dettur ekkert í hug og hann kemst ekki einu sinni gegnum bók Camus, sem hann hefur ekki lesið, bara lofað að breyta í leikgerð. Flóttaleiðin verður óupplýst morðmál, 50 ára gamalt. Kona var trúlega myrt og áreiðanlega brennd í Ísdalnum rétt utan við Bergen árið 1970, málið allt er dularfullt og hrollvekjandi og hefur kitlað ímyndunarafl tugþúsunda manna um heim allan sem hafa það á heilanum og ræða það á netinu. Aðalpersóna okkar bætist í þann hóp og vonast til að finna lausnina. Camus verður að bíða. Satt að segja kom aldrei að honum.

Ég hélt lengi að Friðgeir myndi draga verkið saman og tengja framandleika sinn í nýju samfélagi við Útlendinginn. Eða tengja sig við hinn fræga ótta höfundarins við ritstífluna eða hið óvinnandi verkefni Sysifosar en tengingarnar voru látnar áhorfendum eftir.

Leikstjóri var Pétur Ármannsson og með Friðgeiri á sviðinu er mótleikari hans Snorri Helgason, sem talaði stórgóða norsku og spilaði á ýmis hljóðfæri, framleiddi leikhljóð og söng fagurlega. Leikmynd Brynju Björnsdóttur var frábær og fyndin með vísun í ópið eftir Munch og norska skóga.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila