Hugleiðingar í heimsfaraldri

Enginn sem kominn er til þroska mun gleyma vormisserinu 2020. Tímabilinu þegar COVID-19 lokaði heimsbyggðinni og setti okkur öll í biðstöðu — ef ekki einhverjar enn verri aðstæður. Við höfum á undanförnum vikum og mánuðum lifað tíma sem mun verða minnst í kennslubókum komandi kynslóða. Það er því ekki að undra að nýr frasi hafi orðið fleygur: „Þetta eru fordæmalausir tímar.“

Fordæmalausir tímar?

Auðvitað má færa gild rök fyrir því að við höfum á undanförnum vikum tekið þátt í ferli sem aldrei hefur átt sér stað áður. Á það má t.d. benda að aldrei áður hefur verið tækifæri til að fá gleggri mynd af heimsfaraldri svo að segja í rauntíma, fylgjast með ferð hans frá einum heimshluta til annars sem og beinum og óbeinum afleiðingum sjúkdómsins. Aldrei áður hafa verið tök á að skyggnast eins djúpt inn í gangverk faraldurs, greina stökkbreytingar og afbrigði veirunnar sem veldur. Aldrei áður hefur verið hægt að grípa eins fljótt til varna, leita virkra leiða til meðhöndlunar og hefja þróun bóluefna. Þá hefur mannkyni líklega aldrei verið ljósara að við myndum í raun eina samhangandi heild. — Faraldur sem kemur upp í Austur-Asíu getur á örskömmum tíma verið tekinn að móta líf fólks um allan heim.

Allt byggir þetta auðvitað á nýrri þekkingu og tækni við öflun og miðlun upplýsinga. Það er þessi hlið miklu frekar en veiran sjálf sem gerir það að verkum að tímarnir eru fordæmalausir. Þó má líka bæta einu atriði við sem okkur Íslendingum má vera sérstaklega ljóst og við vera þakklát fyrir. Það eru eflaust fá dæmi um að tekið hafi verið á móti faraldri og honum beint handvirkt inn á nánast markaða braut án þess að mótefni af nokkru tagi hafi verið til staðar. Það hefur heilbrigðisyfirvöldum okkar tekist hingað til en nú er a.m.k. fyrsta bylgjan á hraðri niðurleið.

Hitt orkar mun frekar tvímælis að COVID-tímabilið sé fordæmalaust að því leyti að sjúkdómurinn sem veiran veldur sé svo skelfilegur, fjöldi smita sé svo gríðarlegur og dánartíðnin svo há. Þetta er ekki sagt til að tala niður vandann. Mannkyn hefur aftur á móti oftsinnis áður gengið í gegnum skelfilegar þrengingar af völdum sjúkdóma, náttúruhamfara og ekki síst af eigin völdum — þ.e. vegna styrjalda og annarra manngerðra hörmunga. Þegar kemur að því að kveða upp úr um fordæmi eða fordæmaleysi út frá þessu sjónarmiði er því rétt að fara að öllu með gát. Samanburður á hörmungum sem slíkum er enda merkingarlaus. Í því efni hefur sú bylgjan sem yfir ríður hverju sinni ávallt vinninginn. Hinar eru afstaðnar og þar með afstæðar.

Umræðan og gildismatið

Það hefur verið áhugavert en ekki alltaf gaman að fylgjast með umræðunni um COVID-19 og viðbúnaðinn gegn faraldrinum eins og hún hefur verið þreytt á þeim fjölmörgu miðlum sem standa til boða. Þar má greina skýra þróun en ekki síður skynja djúptækan mun hvað gildismat áhrærir.

Í upphafi áttu „kóvitarnir“ sviðið, fólkið sem af meðfæddu hyggjuviti vissi hvernig ætti að bregðast við. Að þeirra mati átti aldrei að „hleypa“ faraldrinum inn í landið. Landamærum skyldi lokað og allir sem grunaðir væru um smit lokaðir af í Egilshöll af öllum stöðum ef minnið svíkur mig ekki. Á þessu skeiði sté t.a.m. fyrrum þingmaður fram og bauð fram krafta sína til að stoppa veiruna af prívat og persónulega. — Á þessum tíma undraðist sá sem þetta ritar staðfestu sóttvarnarlæknis. Faraldurinn var á uppleið. Enginn vissi hve vel tækist til um mótvægisaðgerðir sem að verulegu leyti voru háðar þátttöku almennings. Auðvitað hefði verið auðveldast að láta þá ráða sem grípa vildu til hörðustu varnanna. Það var á hinn bóginn ekki gert. Margri áfelldust „þríeykið“ fyrir að loka ekki skólunum, stöðva ferðamannastrauminn eða grípa ekki á annan hátt til kröftugri varna en gert var. Á þessum tíma voru uppi grunsemdir um að stefnt væri að hjarðónæmi með þeirri áhættu því hefði fylgt.

Kaflaskil urðu í umræðunni þegar í ljós kom að plan yfirvalda um „stýringu“ faraldursins virtist — og virðist enn — ætla að takast. Með spennufallinu sem þá varð tóku nýjar raddir að heyrast. Þá tóku „hagspekingar“ af ýmsu tagi að benda á að líklega væru félags- og efnahagslegar afleiðingar varnarbaráttunnar að verða þjóðinni erfiðari og kostnaðarsamri en faraldurinn sjálfur. Á skrifandi stundu kemur þetta sjónarmið fram í því að ýmsir telja óþarft að bíða með tilslakanir til 4. maí. Þvert á mót eigi að ræsa gangverk atvinnu- og efnahagslífsins nú þegar.

Raunar verður aldrei úr því skorið af nokkru skynsamlegu viti hvorir kunna að hafa meira til síns máls „kóvitarnir“ sem vildu loka eða „hagspekingarnir“ sem telja að aldrei hafi átt að snúast til varnar. Hvorugur hópurinn byggir enda mál sitt á rökum heldur einvörðungu tilfinningum. Gildi umræðunnar felst þvert á móti í að hún afhjúpar tvenns konar gildismat sem klýfur þjóðina í tvær fylkingar. Hér á ég ekki við tvo mótaða skóla og alls ekki gildismat „kóvitanna“ annars vegar og „hagspekinganna“ hins vegar. Þvert á móti á ég við tvenns konar hugarfar sem fæst okkar hafa hugsanlega tekið meðvitaða afstöðu til. Annars vegar er um að ræða manngildsisstefnu eða húmanisma sem lítur svo á að fremsta skylda samfélags sé að standa vörð um velferð, heilsu og líf fólks, hins vegar efnishyggju sem lítur svo á að frumskyldan felist í að verja hagsæld.

Íslensk stjórnvöld völdu húmansimann. Þau sem eru á öndverðum meiði aðhyllast efnishyggjuna leynt eða ljóst. Þegar til kastanna kemur getur þurft að velja milli þessara kosta. Það er ekki alltaf mögulegt að gera málamiðlun. Vel getur verið að það sé þroskandi fyrir okkur að þurfa að fara í gegnum bláklat mat á þessum tveimur andstæðu sjónarmiðum í miðjum heimsfaraldri.

Áður en sagt er skilið við þetta efni er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir tvennu: Valið stóð aldrei milli varnaraðgerða og óbreytts ástands í efnahags- og atvinnumálum eins og sumir hafa þó haldið fram (sjá t.d. Jóh. Loftsson, „Aðeins ein leið fær“, Mbl. 20/4 20202, bls. 18). Ferðamannaiðnaðurinn hefði t.a.m. gengið í gegnum sömu þrengingar og raun er á nú þótt ekki hefði verið gripið til neinna varna. Þar og víðar í atvinnulífinu er um beinar afleiðingar veirunnar að ræða en ekki hafta stjórnvalda. Það kemur best í ljós þegar horft er til ástandsins erlendis. Faraldur í veldisvexti hefði ekki aðeins reynt á heilbrigðiskerfið heldu lagst á öll kerfi samfélagsins og líklega reynst efnahagslífinu síst hagfelldari en það ástand sem við glímum við nú.

Þá er ljóst að íslenska fámennissamfélagið hefði hvorki umborið né afborið óheftan faraldur með dánartíðni á sambærilegu róli og meðal flestra grannþjóða okkar. Í þeim aðstæðum hefðu húmansitar og efnishyggjufólk án efa sameinst í gagnrýni á stjórnvöld.

Ég er þakklátur fyrir að búa í samfélagi þar sem leið húmanismans var valin en jafnframt framfylgt af þeirri skynsamlegu hófsemi sem raun er á.

Íslenska módelið

Munurinn á varnarbaráttu íslenskra stjórnvalda og flestra annarra kemur fram í að skýr hlutverkaskipting ríkti frá upphafi milli stjórnmálamanna og sérfræðinga á vegum Landlæknisembættisins og Almannavarna. Sérfræðingarnir fengu það hlutverk að móta aðgerðirna, leiða þær og upplýsa um stöðu mála. Á því sviði hafa stjórnmálamenn með örfáum undantekningum haldið sér aðdáanlega til hlés enda ekki um þeirra fag að ræða. Af þessu má marka óvæntan þroska íslenskra stjórnmála. Heimsfaraldur skapar kjöraðstæður fyrir „popúlisma“. Kjörin stjórnvöld hér hafa svo axlað það augljósa hlutverk sitt að taka endanlegar ákvarðanir um útfærslu aðgerðanna og glíma við félags- og efnahagslegar alfeiðingar faraldursins.

Þessi verkaskipting hefur blasað við frá upphafi. Hún er skýr, einföld, skynsamleg og hefur hingað til skilað góðum árangri. Eigi að síður hafa ýmsir kosið að láta sem hún sé ekki til staðar eins og t.a.m. var gert í áðurnefndri grein í Mbl. þar sem sagði: „Þriggja manna teymi fékk alræðisvald í krísuviðbrögðunum, […].“ (op. cit.) Ég ætla höfundi þessara orða ekki þá grunnfærni að hann hafi ekki gert sér grein fyrir hvernig íslenska módelið í viðbrögðunum við COVID-19 var útfært. Orð hans verða aðeins skilin sem markviss tilraun til að (afvega-)leiða umræðuna í ákveðna átt.

Ég er þakklátur fyrir að vera hluti af samfélagi sem valdi ekki engilsaxneska módelið. Ég hefði ekki vilja búa við að það böl að eiga upplýsingaöryggi mitt— og annað öryggi— í faraldrinum undir mönnum á borð við Johnson & Trupm.

Ísland og heimurinn

COVID-19 er heimsfaraldur. Við þær aðstæður er ástæða til að spyrja: Erum við öll á sama báti, jarðarbúar? Svarið nú eins og alltaf er auðvitað: Nei, það erum við ekki! Það er ógnvekjandi að hugleiða hvað gerist þegar COVID hellist yfir þau samfélög þar sem örbirgðin er mest, þar sem vantar húsaskjól, fæðu og aðgang að hreinu vatni. Við skulum gera okkur grein fyrir því að nú eins og alltaf þegar hriktir í stoðum öryggisins erum við — íbúar hins vestæna heims, Evrópubúar, Norðurlandaþjóðir og ekki síst Íslendingar — best sett. Neyðarástand okkar er daglegt brauð víða annars staðar í heiminum. Sums staðar kann að vera að áhrifa COVID gæti lítið sem ekkert. Ekki vegna þess að veiran herji ekki heldur vegna þess að ástandið til hversdags er einfaldlega svo skelfilegt.

Ein af spurningunum sem við verðum að spyrja er hvað við getum lagt af mörkum í baráttu þjóðanna gegn faraldrinum. Án efa koma ýmsar upplýsingar héðan til með að vega þungt í rannsóknum á veirunni og hugsanlega þróun á viðbúnaði, meðferð, lyfjum og jafnvel bóluefni. Umfang skimana hér skiptir þar meginmáli. Þetta ber ekki að vanmeta en nægir  tæpast. Þrátt fyrir allan þann innanríkisvanda sem við eigum nú þegar við að glíma hljótum við að spyrja hvort við verðum ekki að leggja okkar af mörkum til að afla búnaðar fyrir þau sem nú takast á við COVID í flóttamannabúðum eða annars staðar þar sem fólk býr við erfiðustu aðstæðurnar eins og víða gerist t.d. í Afríku sunnan Sahara.

Þorum við að hugsa?

Á skrifandi stundu er faraldurinn í öru undanhaldi eftir fyrstu bylgjuna — hvað sem verður. Öll vonum við að hrinan verði aðeins ein. Um það kann þó enginn að spá. Hugsanlega er hollt á þeim stað sem við erum í faraldrinum að staldra við og spyrja: Þorum við að huga þá hugsun til enda að COVID-19 sé komin til að vera til frambúðar annað tveggja í endurteknum bylgjum og/eða staðbundnum hópsýkingum eða árlegum faröldrum?

Það sem við þó vitum er að þetta er ekki síðasti veirufaraldurinn sem gengur yfir heimsbyggðina. Vera má að nýjar eða stökkbreyttar veirur verði ein helsta öryggisógn okkar í framtíðinni. Það mun hafa veruleg og varanleg áhrif á lífsform okkar og samfélög og þá einkum í þeim heimshluta sem náð hefur mestri velsæld. Líf okkar mun þá breytast í grundvallaratriðum. Það er þó ekki víst að það muni breytast til ills. Það er að mestu undir okkur sjálfum komið og hugmyndum okkar um gott líf. — Þá erum við aftur komin að gildismatinu sem vikið var að hér framar.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila