Hugleiðingar um hugvísindi

Í kjölfar ráðstefnunnar „Pathways to Impact from SSH Research: Impact of Social Sicences and Humanities for a European Research Agenda“, Vín, 28.-29. nóvember 2018.

Listasögusafnið í Vín stendur andspænis náttúrugripasafninu, en staðsetning safnanna dregur fram tvískiptingu hug- og raunvísinda, hvernig eitt stendur á móti öðru, ævinlega aðskilin. Á milli safnanna stendur svo skrúðgarður þar sem menning og náttúra mætast. Garðurinn minnir á sköpunargleði mannsins og hugvit en jafnframt þörf hans til að beisla og ná tökum á umhverfi sínu. Það er á margan hátt sérstök upplifun að ganga um gyllta sali safnsins, innan um múmíur og marmarastyttur, og virða fyrir sér svipbrigði á málverkum, ljós og skugga. Fyrir hugvísindamanneskju er þetta bæði upplifun og rannsóknarefni. Sagan, fornleifarnar, yrkisefnið, táknin og tilgangurinn. Viðfangsefni hugvísinda er upplifun, reynsla og viðhorf. Hið mannlega og hið mennska, en enskt heiti fræðasviðsins sækir einmitt heiti sitt þangað. Íslenskt heiti fræðasviðsins vísar í það hugræna, en það hefur að geyma alla ólíka þætti hugarstarfsins og tengsl þess við umhverfi sitt og hið líkamlega. Ulrika Felt, einn þeirra fyrirlesara er opnuðu ráðstefnuna, vísaði einmitt til þess að vísindi fást ekki eingöngu við það augljósa og mælanlega, heldur jafnframt hið djúpstæða og flókna. Þá er jafn mikilvægt að leyfa óreiðunni og því óskiljanlega að vera til staðar – og að leysa úr því.

Mikið hefur verið fjallað um getu okkar til að takast á við veruleikann sem virðist breytast hraðar og meira en nokkurn tíma fyrr. Verkefnin sem við stöndum frammi fyrir eru bundin við öra þróun á sviði tækni og vísinda, þar sem eitthvað sem við gátum varla ímyndað okkur að væri hægt er orðið að raunveruleika en við erum varla búin að meðtaka nýja möguleika þegar eitthvað annað hefur fangað athygli okkar. Við náum ekki að spyrja spurninganna sem við hefðum þurft svör við áður en við höldum áfram. Önnur verkefni, og ógnvænlegri, er við stöndum frammi fyrir, snúa að umhverfi okkar og lífsgæðum, m.a. í ljósi hlýnunar jarðar. Ráðstefnan, sem þessar hugleiðingar koma í kjölfarið á, fjallaði einmitt um getu okkar til þess að takast á við öll þessi ólíku verkefni, í ljósi félags- og hugvísinda. Þá var henni ætlað að vera vettvangur fyrir samtal á milli fræðimanna á þessum sviðum og opinberrar stjórnsýslu, þ.e.a.s. þeirra er taka þátt í að móta og skipuleggja viðleitni okkar til að takast á við þessi verkefni.

Meginútgangspunktar ráðstefnunnar var hvernig félags- og hugvísindi geti haft áhrif á stefnumótun og markmiðssetningu innan Evrópusambandsins og hvernig hægt sé að meta og bera kennsl á samfélagsleg áhrif félags- og hugvísinda (e. societal impact). Meginstefið í þeirri umfjöllun var mælanleikinn, en markmið fyrirlesturs höfundar var að varpa ljósi á hvernig meta megi samfélagsleg áhrif rannsókna í hugvísindum í ljósi aðferðafræði þeirra sjálfra og viðfangsefnis, óháð mælanlegum ávinningi. Mælanleikinn, og ofuráherslu á gildi hans, er eitthvað sem hefur verið gagnrýnt á ólíkum fræðasviðum en sú gagnrýni ristir einna dýpst innan hugvísindanna. Þannig hafa hugvísindin verið gagnrýnd fyrir huglægni og ónákvæmni í niðurstöðum rannsókna í ljósi þess að aðferðafræði þeirra byggist sjaldnast á eiginlegum mælitækjum, heldur túlkun og mati. Ef einungis það sem er mælanlegt er einhvers virði þá eiga hugvísindin augljóslega undir högg að sækja. Þetta viðhorf er hins vegar ekki algilt. Einn fyrirlesari ráðstefnunnar vísaði í þessu samhengi í orð Albert Einsteins sem, lauslega þýdd voru á þá leið að „ekki er allt það sem máli skiptir mælanlegt, né er allt það sem er mælanlegt eitthvað sem máli skiptir“ (e. „Not everything that counts can be counted, not everything that can be counted counts“).

Ein málstofa ráðstefnunnar bar heitið „Loftslag, orka og hreyfanleiki“ (e. „Climate, Energy and Mobility“) og fjallaði um áætlanir Evrópusambandsins í tengslum við vaxandi hlýnun jarðar og afleiðingar hennar. Það sem vakti athygli áheyrenda var meðal annars það að þegar kom að umfjöllun um hugtakið hreyfanleika (e. mobility) þá var fjallað um það sem samgöngur (e. transportation), sbr. fólksferðir frá A til B í hvers kyns faratækjum, en ekki sem flutninga, sbr. flutninga fólks á milli staða vegna skorts á lífsgæðum hverskonar. Fyrri notkunin á hugtakinu vísaði þá í almennari notkun þess en einnig í tækniþróun, m.t.t. útblásturs og vistsporsáætlana og þess háttar. Nálgunin er fyrst og fremst tæknileg. Gagnrýni félagsvísindafólks í salnum snéri þá að því að ekki hefði verið tekið tillit til félagsvísindalegrar skilgreiningar á hugtakinu né félagsvísindalegs samhengis. Þannig einskorðast aðgerðaráætlunin eins og hún var kynnt þarna við raunvísindalegt og tæknilegt sjónarhorn. Sjónarhornið var þá á vissan hátt þröngt og útilokandi og horfði framhjá mikilvægum hliðum vandamálsins.

Af þessu má sjá mikilvægi þess að spyrja ólíkra spurninga, af ólíkum fræðasviðum, þegar við tökumst á við stór og viðamikil vandamál í samfélagslegu samhengi. Það að við útskýrum eða leggjum niður fyrir okkur hvaða skilning við leggjum í tiltekin fyrirbæri eða þætti, afhjúpar gildi okkar og viðmið. Ef ég skil hlýnun jarðar einungis sem tæknilegt og náttúrufræðilegt fyrirbæri þá nálgast ég það með þeim hætti og reyni að leysa það þannig. Ef ég skil hlýnun jarðar sem félagsfræðilegt fyrirbæri (sbr. hegðun og viðhorf manna), þá reyni ég að takast á við það í ljósi þess. Hvert fræðasvið endurspeglar þá fyrst og fremst tiltekið sjónarhorn og aðferðafræði. Með það í huga má segja að sjónarhorn raunvísinda og félagsvísinda spegli hvort annað þegar kemur að hlýnun jarðar. Þetta snýr að náttúrunni og „hegðun“ hennar, jafnt sem og áhrif hegðunar mannsins á umhverfi sitt, náttúruna. Þriðja sjónarhornið er þá hver það er sem leggur sig fram við að leysa þetta vandamál. Hlutverk hugvísindanna er að skoða hver það er sem leysir vandamálið og möguleika hans til þess í ljósi sambands manns og náttúru. Hugvísindin geta fjallað um skilning okkar á náttúrunni, um viðhorf okkar til hennar eða hlutverk hennar í lífi okkar.

Hugvísindin fjalla um hið mannhverfa sjónarhorn, um það hvaða heiti og hugtök við notum um náttúruna. Hvernig tungumálið afhjúpar viðhorf okkar og hugsunarhátt, um það hvernig bókmenntir og ljóð sýna áhrif náttúrunnar á sjálfskilning okkar og skynjun okkar. Hvernig guðfræðin sýnir fram á trúarlegt samband okkar við náttúruna, um vanmátt okkar gagnvart henni, og hvernig trúarbrögð urðu leið til þess að ná tökum á eða útskýra náttúruna. Fornleifafræðin fjallar um það hvernig náttúran hefur kollvarpað lífi okkar og lífsgæðum, sí og æ, og heimspekin skoðar siðferðilegt samband okkar við náttúruna sem og hugmyndir okkar um réttlæti, sanngirni og velferð í tengslum við lífsgæði okkar og annarra.

Þetta er svolítið eins og að staðsetja sig í skrúðgarðinum í Vín, á milli safnanna tveggja. Þannig geta hugvísindin varpað ljósi á óstabílt samband okkar við náttúruna – og togstreytu okkar gagnvart því að lifa í henni, að lifa með henni og lifa án hennar. Þannig geta hugvísindin afhjúpað það hvort við getum eða viljum raunverulega leysa þetta vandamál. Hvernig samband okkar við náttúrunna og viðhorf okkar til hennar endurspeglar viðleitni okkar til að takast á við þetta verkefni sem hlýnun jarðar er.

Þegar kemur að áhrifum í tengslum við pólitískar ákvarðanir þá hefur þessi sjálfsskilningur hugvísindamanneskjunnar ákveðið gildi. Það að hugsa um sig sem hugvísindamanneskju frekar en bókmenntafræðing, sagnfræðing, heimspeking eða málfræðing er í þessu samhengi ákveðin valdefling. Það að hugsa um sig sem hugvísindamanneskju er að taka afstöðu með hugvísindunum sem aðferð við að leysa flókin mennsk vandamál. Það að hugsa um sig sem hugvísindamanneskju felst í skilningi á gildi og sérstöðu hugvísinda innan um önnur fræði – en jafnframt það að átta sig á ótvíræðum tengslum sínum við önnur fræðasvið og hvernig þau styðja hvert annað.

Um höfundinn
Elsa Haraldsdóttir

Elsa Haraldsdóttir

Elsa Haraldsdóttir er doktorsnemi í heimspeki og starfar við rannsóknarverkefnið „Dyggðamódel um samfélagsleg áhrif rannsókna“ á vegum Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Ábyrgðarmaður verkefnisins er Eiríkur Smári Sigurðsson.

[fblike]

Deila